Leigubifreiðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. samgn. fyrir vinnuna að þessu máli og lýsi því yfir að ég tel að sú breyting sem nefndin flytur eigi að auðvelda að leysa þau tilteknu vandamál sem uppi eru á einu svæði og menn þekkja til og þessi breyting vísar sérstaklega til.
    Þá vil ég einnig undirstrika það og lýsa því yfir að það er minn ásetningur að við setningu reglugerða sem boðaðar eru og reiknað er með að verði tvær á grundvelli þessarar lagasetningar verði að sjálfsögðu haft fullt samráð við alla helstu hagsmunaaðila eins og reyndar reynt hefur verið að gera, bæði við undirbúning þessa frv. sem og við meðferð þess hér á hinu háa Alþingi þar sem allir helstu hagsmunaaðilar komu fyrir þá nefnd sem fékk málið fyrr til umfjöllunar og þá hinir sömu aftur til hv. samgn. Ed.
    Hér er um að mörgu leyti vandasama lagasmíð og reglugerðarsetningu að ræða vegna þess að hún kemur inn á hagsmuni mismunandi hópa og þess vegna er þeim mun meiri ástæða til að reyna eftir bestu betu að finna farsæla málamiðlun milli ólíkra hagsmuna og að nokkru leyti ólíkra sjónarmiða sem hér kunna að togast á. Það er ásetningur minn og vilji að reyna að vinna þannig að þessu máli hér eftir sem hingað til.