Leigubifreiðar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég á sæti í hv. samgn. og ég skrifa undir nál. með fyrirvara. Mig langar í upphafi ræðu minnar að lýsa því yfir að ég er mjög ósáttur við hvernig var staðið að vinnu í þessari nefnd. 1. umr. fór fram hér í dag og síðan var kallað til nefndar og því miður var ekki hægt að kalla alla þá aðila sem maður hafði áhuga á að vita hvaða skoðanir hefðu á frv. Það var hins vegar reynt að kalla til þá sem náðist í. Það var lögfræðingur annars þeirra stéttarfélaga sem um ræðir í brtt., fulltrúar frá sendibílum og launþegar hjá leigubílstjórum.
    Í máli þeirra allra komu fram miklar efasemdir um frv. Þeir lögðu áherslu á að ef þeirra kröfur mundu ekki ná fram að ganga vildu þeir frekar að málið lægi en það yrði samþykkt. En það er lagt ofurkapp á það af öðrum aðilum að þetta frv. nái fram að ganga.
    Ég met því mikils það, sem fram kom í ræðu hæstv. samgrh., að við reglugerðarsmíð verði haft fullt samráð við bæði sendibíla eða skutlubíla eins og það heitir öðru nafni og leigubíla um hvernig sú reglugerð eigi að líta út.
    En við lestur frv. og síðari athugasemdir eftir að samgn. lauk störfum hef ég komist að raun um að það er kannski fleira í frv. sem þyrfti að skoða og rekst ég á í 7. gr. frv. að þar segir:
    ,,Grundvöllur atvinnuleyfa er að sérhver leyfishafi eigi fólksbifreið og hafi það sem aðalatvinnu að aka henni sjálfur.``
    Það vill þannig til að margir hafa keypt bíla á kaupleigu og með orðalagsskýringu á þessum lið í 7. gr. ættu þeir aðilar ekki rétt á því að fá atvinnuleyfi eða starfa við þennan atvinnurekstur. Ég vil því spyrja samgrh. hvort það hafi verið ætlunin með frv. að útiloka þá menn sem eiga kannski ekki vegna fjárhagsörðugleika kost á því að kaupa sig beint inn heldur þurfa að leita á náðir kaupleigufyrirtækja.
    Það er annað í frv. sem ég tel að þurfi að koma miklu betur fram. Það er réttur neytenda gagnvart leigubílum, þ.e. að þeim séu alltaf tryggðir leigubílar þegar þeir þurfa á slíkri þjónustu að halda. Í 3. gr. er að vísu aðeins farið inn á þetta, en að mínu mati ekki nógu skýrt.
    Að lokum er eitt ákvæði sem ég dreg mjög í efa að standist gagnvart almennum reglum og jafnvel gagnvart stjórnarskrá. Það er í 5. gr. frv. 1. mgr. þar sem segir: ,,Á félagssvæði þar sem takmörkun er í gildi skulu bifreiðastjórar í sömu grein vera í sama stéttarfélagi.`` Þarna er verið að binda alla bifreiðastjóra til þess að vera í sama stéttarfélaginu. Þetta er að mínu mati andstætt grunnreglum félagaréttar og dreg ég mjög í efa að þetta standist gagnvart mannréttindaákvæðum, en það kom skýrt fram í máli þeirra aðila sem komu fyrir nefndina, bæði lögmannsins Arnmundar Backmans og svo fulltrúa frá Sendibílum hf., að þeir töldu að þetta ákvæði stæðist ekki samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu eða drógu það mjög í efa. Minntust þeir á mál sem þrír starfsmenn í ákveðinni starfsgrein höfðuðu fyrir mannréttindadómstólnum, breskir

starfsmenn, ég man ekki í hvaða iðnaði eða hvaða starfsstétt það var. Þeir unnu það mál fyrir mannréttindadómstólnum, en þar hafði löggjafinn ákveðið að það væri bara eitt stéttarfélag á hverja starfsgrein.
    Þetta vildi ég að kæmi fram og einnig mætti kannski nefna hvað verður um þá leigubílstjóra sem hafa náð 70 ára aldri, en í frv. er skýrt kveðið á um að þeir skulu þá missa réttindi til aksturs leigubíla. Hvernig fer með lífeyrissjóðsréttindi þeirra? Eins og flestir vita hafa þeir mjög veikan lífeyrissjóð og eru raunar nýbúnir að stofna með sér lífeyrissjóð og þeir sem t.d. hætta nú eiga engan rétt eða mjög lítinn rétt á lífeyrissjóðsgreiðslum.
    Ég ætla ekki, þrátt fyrir athugasemdir sem ég geri og vildi það ekki þegar málið var til meðferðar í samgn., stöðva að málið fengi afgreiðslu, en ég mun við atkvæðagreiðslu, sem fer annaðhvort fram á eftir eða í fyrramálið, greiða atkvæði á móti einstökum greinum og jafnvel sitja hjá við afgreiðslu málsins.