Meðferð máls í þingnefnd
Föstudaginn 19. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Á síðasta þingi fluttu tveir þm. Sjálfstfl., Vilhjálmur Egilsson og ég, frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í byrjun þessa þings flutti ég ásamt hv. þm. Pálma Jónssyni frv. um sama efni, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta frv. kom til 1. umr. 8. nóv. sl. og var þá vísað til hv. félmn. Þetta frv. er 49. mál þessa þings.
    Ég vil spyrja hæstv. forseta að því hvort hann sé ekki sammála mér um það að það sé ámælisvert að nefndarformaður leggist á mál með þessum hætti og afgreiði það ekki út úr nefnd? Er þetta það þingræði og lýðræði sem við á að búa í þessari hv. stofnun? Hvaðan fær formaður þingnefndar það vald að liggja á máli með þessum hætti en taka önnur mál sem flutt eru mörgum mánuðum síðar? Hvert sækir nefndarformaður slíkt vald? Er það vilji þeirra þm. sem styðja hæstv. ríkisstjórn að viðhafa þessi vinnubrögð? Ég spyr nýju vini ríkisstjórnarinnar, Borgaraflokkinn, um það hvort hann vilji standa að svona afgreiðslu mála? Vill hann standa að því að traðka á þingræði og lýðræði með þessum hætti? Þetta eru óviðunandi vinnubrögð og að mínum dómi á að víta nefndarformenn sem liggja þannig á málum.
    Ég vil svo bæta því við, herra forseti, að þegar þetta frv. var flutt fyrra sinni komu fram sterk meðmæli, t.d. kom tillaga frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga er flutt var af mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum þar sem þeir skoruðu á stjórnvöld að taka málið upp. Stjórnvöld gerðu það ekki og því var frv. flutt öðru sinni. Það kemur því úr hörðustu átt þegar þeir menn sem eru kjörnir á þing fyrir strálbýlið liggja þannig á hagsmunamálum strjálbýlisins að þau fá ekki þinglega afgreiðslu. Ég mótmæli þessu og fer fram á það við hæstv. forseta að hann gefi nefndarformanni áminningu fyrir slík vinnubrögð sem þessi.