Meðferð máls í þingnefnd
Föstudaginn 19. maí 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hv. 1. þm. Vestf. þegar hann kvartar yfir vinnubrögðum í sambandi við nefndarstörf á Alþingi því sem nú er senn að ljúka. Ég verð að segja það alveg eins og er að þau vinnubrögð sem hér hafa átt sér stað eru að mínum dómi með algeru einsdæmi. Ég er hér með lista yfir 20 þingsályktunartillögur sem hafa verið bornar fram og ekki er enn farið að ræða og þm. hafa ekki enn fengið tækifæri til þess að mæla fyrir.
    Í þessu sambandi vildi ég leyfa mér að vekja athygli á því að mönnum fannst stundum að það væri of langur tími sem færi í umræður slíkra tillagna hér á árum áður. En menn skilja kannski í dag hvers vegna sá aðili, sem þá var í forustu, gerði kröfu til þess að þm. fengju tækifæri til þess að ræða þau mál sem þeir hafa flutt og þeir eiga kröfu á að nefndir Alþingis fjalli um og skili þinginu niðurstöðu. Ég segi: Verði ekki á þessu breyting hafa þm. engan annan möguleika en að koma því inn í þingsköp hversu lengi mál geti verið á borðum þm. áður en þau fást rædd. Að vísu hafa þm. þann rétt í dag að breyta dagskrá en það þarf þá að setja inn í þingsköp hversu lengi mál þar megi liggja áður en þau verða tekin til afgreiðslu.
    Ég undirstrika það sem hv. 1. þm. Vestf. hefur sagt og bendi á að þetta er með einsdæmum hvernig hér hefur verið troðið á þingræðinu í landinu.