Páll Pétursson:
    Herra forseti. Ég tel að hér sé verið að afgreiða mjög mislukkaða lagasetningu. Með þessum lögum er verið að rýra sýslumannsembættin og raunverulega leggja hin minni þeirra niður og að því er í sjálfu sér mikill skaði. Hér er verið að koma upp kostnaðarsömu bákni að óþörfu. Það skipulag sem frv. gerir ráð fyrir er fjandsamlegt landsbyggðinni og dregur vald þaðan. Hér er um stórt skref aftur á bak að ræða, viðlíka lagasetningarmistök og þegar Bifreiðaeftirlitið var lagt niður illu heilli. Ef ástæða er til að greina skýrar á milli dómsvalds og umboðsvalds væri heppilegra að útfæra héraðsdómarakerfið eða jafnvel gera sýslumönnum að dæma hver hjá öðrum. Ég vil enga ábyrgð taka á þeim mistökum sem hér er verið að gera og segi nei.