Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Við þessa umræðu liggja fyrir deildinni tvær brtt. við frv. Aðra þeirra flytur félmn., en hún hefur haft frv. til meðferðar hér í þinginu. Sú tillaga, á þskj. 1241, snýst eingöngu um það að bæta þar inn í upptalningu yfir þá aðila sem leggja ber aðstöðugjald á tilvísun í 3. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og frv. var upphaflega lagt fram var eingöngu miðað við 1. og 2. gr. í þeirri tæmandi upptalningu sem hér er. Með því móti hefðu erlendir lögaðilar með starfsemi á Íslandi, fasta starfsstöð eða aðra starfsemi verið undanþegnir aðstöðugjaldi óbreytt frá því sem er í núverandi lögum. Slík breyting var að sjálfsögðu óeðlileg. Því hefur nefndin flutt þessa brtt. sameiginlega m.a. til þess að koma í veg fyrir að erlendir aðilar njóti hér óeðlilega hagstæðrar samkeppnisstöðu miðað við innlenda aðila til að mynda í sambandi við verktöku og aðra starfsemi. Því er þessi tillaga flutt samhljóða af nefndinni.
    Hin tillagan, herra forseti, er samhljóða tillögu sem ég flutti við 3. umr. í þessari deild og var samþykkt í deildinni en var síðan breytt af hv. Ed. Þessi tillaga snýst um það eins og mönnum er kunnugt að mjólkurbúin í landinu sitji við sama borð og önnur fyrirtæki og greiði aðstöðugjöld af sinni starfsemi.
    Við umræður í Ed. mun hafa verið á það bent að mjólkurbúin þyrftu að greiða söluskatt og hugsanlega einhver smærri gjöld af sínum tækjum og þeim búnaði sem þau kaupa, en ég vek í því sambandi athygli á því að með upptöku virðisaukaskatts um næstu áramót hverfur öll uppsöfnun söluskatts bæði hjá mjólkurbúum og öðrum framleiðendum. Þessi samanburður á því ekki rétt á sér, auk þess sem aðstöðugjald þetta kæmi ekki til framkvæmda fyrr en eftir rúmt ár, um mitt næsta ár, og ef það eru einhverjir meinbugir á hinni almennu gjaldtöku ríkissjóðs á framleiðslutækjum þessara fyrirtækja er nægur tími til að leiðrétta það fyrir mitt næsta ár. Málið snýst einvörðungu um það hvort aðstöðugjöld leggist á þessi fyrirtæki, hvort öll sveitarfélög sitji við sama borð í því efni og hvort mjólkurbúin eigi að hafa sérstöðu umfram önnur fyrirtæki.