Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Það er undarlegt hvað hv. þm. Geir H. Haarde leggur mikla áherslu á að hækka mjólkurverð til barna og kjötverð því að staðreyndin er sú að hans málflutningur í þessu máli hefur vakið mjög mikla athygli og snýr að því einu að hækka mjólkurverð til barna, að hækka kjötverð til fjölskyldnanna í landinu. Menn hafa í þessu sambandi tekið að sér þann rökstuðning að vorkenna mjög þeim sveitarfélögum sem eru þeirrar hamingju aðnjótandi að hafa innan sinna marka þessi sterku fyrirtæki, afurðasölufélögin. Það er þeim mikill fengur að hafa þau innan sinna marka og af þeim hafa þau miklar tekjur þrátt fyrir að þessar nauðsynjavörur fólksins í landinu hafi verið undanþegnar aðstöðugjaldi.
    Ég vek athygli á því að ef við samþykkjum að hætta að undanþiggja mjólkurvörur og kjötvörur þeim ákvæðum að á þær skuli ekki lagt aðstöðugjald mun það þýða stórkostlega hækkað vöruverð. Ég hygg að það þýði á mjólkina 2--3%. Ég er ekkert viss um að barnafjölskyldur í Reykjavík verði glaðar með framgöngu hv. þm. Geirs H. Haarde í þessu máli ef hann nær því fram. Ég er ekkert viss um að þær telji að hv. þm. hafi með málflutningi sínum hér á Alþingi gert þeim gagn í þessu máli.
    Hitt get ég svo fallist á að á hliðargreinar sem fyrirtækin setja upp, eins og kannski úrvinnslu á kjöti og grautarframleiðslu, brennivínsframleiðslu o.s.frv. megi leggja aðstöðugjald. Það finnst mér sjálfsagt. En ég vara Alþingi mjög við því ef það ætlar enn að hækka hið háa matarverð í landinu í ljósi þess að það vorkenni svo mjög sveitarfélögunum sem hafa þessi miklu fyrirtæki á sínu svæði. Ég hygg að það sé svo í minni heimabyggð þar sem standa rótgróin afurðasölufyrirtæki að það eru burðarásarnir í því byggðarlagi þrátt fyrir að þessi fyrirtæki hafi verið undanþegin aðstöðugjaldi.
    Ég veit ekki hvort ég á að leggja það á hv. þm., ég er með í höndunum greinargerð um það, hversu mikið vöruverð bæði á kjöti og mjólk mundi hækka ef menn tækju þá ákvörðun að breyta þarna um stefnu. Ég hygg að það hafi verið að mjög gaumgæfðu máli sem hv. Ed. breytti þeirri stefnu sem þetta frv. markaði í upphafi og hæstv. félmrh. féllst á öll þau rök málsins síðar. En ég vænti þess alla vega að hv. alþm. nálgist þau gögn sem liggja fyrir um það hversu mikið mjólkin mun hækka í verði, hversu mikið smjörið mun hækka í verði, hversu mikið osturinn mun hækka í verði, hversu mikið kjötið mun hækka í verði. Ég segi það: Þessar vörur kosta svo mikið að þær þola enga hækkun á þessu stigi. Þess vegna skulum við ekki á þessari stundu taka neina ákvörðun sem hækkar vöruverðið, sem hleypir af stað verðbólguáhrifum því að þetta kemur inn í vísitöluáhrif á öllum sviðum.