Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég vildi koma að eins og tveimur, þremur atriðum til viðbótar til að færa gildari rök fyrir andstöðu minni við brtt. hv. þm. Geirs H. Haarde. Það mun hafa verið í fyrndinni að mönnum þótti flókið að leggja aðstöðugjald á mjólk og mjólkurvörur af ýmsum ástæðum sem hv. þm. hefur kannski ekki áttað sig á.
    Við skulum líta á dæmi, mjólkurbúin og síðan heildsölu- og dreifingarfyrirtæki eins og Mjólkursamsöluna. Þetta yrði mjög flókið í þessum tilfellum þar sem það yrði talið mjög líklegt að það yrði að greiða aðstöðugjald vegna sömu mjólkurinnar í tvígang. Það er talið líka að meiri líkur séu á að mjólk sem flyst á milli búa og er unnin að hluta verði talin aðstöðugjaldsskyld tvisvar. Þetta er óhagganleg staðreynd. Þetta er flækja sem lögfróðir menn sem þekkja til þessara dæma hafa bent mjög glöggt á.
    Hér hafa verið haldnar ræður og hv. 1. þm. Reykv. vék að mínum málflutningi og taldi að ég talaði hér sem fulltrúi landbúnaðarins. Auðvitað tel ég mig fulltrúa landbúnaðarins, ég tel mig fulltrúa launafólksins. Ég bý í einu þessu volaða byggðarlagi sem þeir eru að vorkenna fyrir tekjuleysi sem er Selfoss þar sem stendur eitt af þessum miklu þjónustufyrirtækjum, Mjólkurbú Flóamanna, og satt að segja er þar mjög gott að lifa og búa. Þar er þjónusta í toppi, þar er engin fátækt, þar er ekkert volæði þó að Mjólkurbú Flóamanna hafi verið undanþegið því að borga af mjólkurvörunum aðstöðugjald í gegnum tíðina.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram. Það er mín skoðun um þessar mikilvægu neysluvörur, mjólkurvörurnar, af þeim ástæðum hversu brýnar þær eru og nauðsynlegar börnum, hversu þungt þær vega í veski fólksins, launþegans á Íslandi að kaupa þær, að við eigum ekki að taka neina þá ákvörðun sem hækkar þessar vörur í verði. Það er ljóst að ef við legðum aðstöðugjald á þessar vörur mundu þær hækka, mjólkin mundi hækka eins og ég sagði um 2--3%, smjörið mundi hækka um 3--4%. Og ég spyr: Þola þessar afurðir það? Þær standa í harðri samkeppni eins og smjörið sem er bæði holl vara og hefur mikil áhrif, ef salan minnkar, á stöðu bændanna. Menn eru nú í samkeppni við annað viðbit. Því miður hefur einn hæstv. ráðherrann í ríkisstjórninni leyft innflutning á smjörlíki, sem er viðbit og er notað þannig, sem þýðir að samkeppnin eykst og er ekki drengileg að því leyti að á innflutta smjörlíkinu eru hvorki tollar né aðflutningsgjöld. Það er greitt niður frá útlendingum á frumstigi til að berja niður íslenskan iðnað og drepa verk sem hér eru unnin.
    Auðvitað væri einfalt að segja að ríkið yki niðurgreiðslur sínar á móti. En gagnvart launafólkinu, gagnvart landbúnaðinum er engu að treysta í þeim efnum og þeir tveir hv. þm. sem hér hafa mjög talað í þessari umræðu, Geir H. Haarde og Friðrik Sophusson, hafa oft gagnrýnt mjög niðurgreiðslur. Það er spurning um pólitískan vilja og það er margur, því miður, í mörgum stjórnmálaflokkum sem hefur ekki

haft skilning á því hvað það er launafólkinu mikilvægt. Þannig er ævarandi ásókn í að minnka niðurgreiðslur. Þess vegna legg ég til að menn láti ekki tillöguflutning hv. þm. Geirs H. Haarde rugla sig við þá atkvæðagreiðslu sem hér mun fara fram um þetta mál í dag eins og því miður gerðist hér á dögunum.