Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. félmn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð vegna ummæla hv. 1. þm. Vesturl. Eins og ég tók fram í ræðu minni áðan var þessari fyrirspurn beint til mín sem formanns félmn. Það kom ekki fram í mínu máli að ég talaði fyrir hönd nefndarinnar allrar, ekki heldur fyrir hönd meiri hl. félmn., heldur einungis um mína túlkun á þessu atriði sem formaður félmn.
    Hv. 1. þm. Vesturl. lýsti sig ósammála þeirri túlkun sem ég viðhafði og hélt svo fram sinni eigin túlkun á atriðinu. Ég sé ekki svo mikinn mun á því sem við sögðum tveir. Ég gæti jafnvel gert hans orð að mínum. Þegar ég tala um hefðbundna starfsemi sláturhúsa virtist mér hann vera að tala um það sama. Það sem komin er hefð á að fari fram í sláturhúsum er það sem hér er átt við. Mér virtist okkar skilningur vera hinn sami. Þannig sé ég ekki að það sé ágreiningur okkar í millum á þessu atriði. Það sem ég tók hins vegar fram: Hugsanlegt er að í framhaldi af hefðbundinni starfsemi sláturhúsa fari fram frekari kjötvinnsla sem ekki getur talist hefðbundin í skilningi þess orðs að falli undir starfsemi sláturhúsa því kjötvinnsla er starfsemi og starfsgrein út af fyrir sig. Samkvæmt mínum skilningi ætti slík starfsemi ekki að falla undir hina hefðbundnu starfsemi sláturhúsa. Ég get ekki séð að nokkur ágreiningur sé okkar í millum um þetta atriði.