Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegur forseti. Sá sem ræður framkvæmd málsins er hæstv. félmrh. Ég vil að það sé alveg skýrt að ef sú túlkun sem formaður félmn. hefur hér vakið ásamt öðrum þingmönnum sem hér hafa talað, eins og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, er ekki sú sem verður framkvæmd mun ég greiða atkvæði með till. Geirs H. Haarde. Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. verði kallaður í salinn. ( Forseti: Það verður orðið við ósk hv. ræðumanns.)
    Á meðan ég bíð, virðulegi forseti. Samkomulag er samkomulag. Það samkomulag sem gert er stend ég við. Ef á að fara að breyta túlkun þess lít ég svo á að samkomulagið hafi verið rofið og þá greiði ég atkvæði í samræmi við það sem ég hef áður gert. ( Forseti: Þau boð hafa borist að hæstv. félmrh. kemst því miður ekki hingað eins og nú standa sakir vegna þess að hún er upptekin í umræðum í Ed.) Þá óska ég eftir því, virðulegi forseti, að málinu sé frestað og mér heimilist að halda áfram ræðu minni að nýju þegar félmrh. er reiðubúinn að vera viðstaddur þessa umræðu. Þetta tekur ekki nema örfáar mínútur, sú fyrirspurn sem ég þarf að beina til ráðherrans sem er sá aðili framkvæmdarvaldsins sem mun túlka það hvernig þessum ákvæðum verður beitt, og ég tel mér ekki fært að draga þá ósk mína til baka að hæstv. félmrh. sé kallaður í salinn til að kveða upp úr með það hvernig hann, hæstv. ráðherra, mun túlka þessi lög í framkvæmdinni verði þau samþykkt eins og til stendur. ( Forseti: Við því verður orðið og málinu frestað.)