Málefni aldraðra
Föstudaginn 19. maí 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Þessi umræða um málefni aldraðra hefur að nokkru orðið að skattamálaumræðu. Það er ekki að ófyrirsynju því að þetta nauðsynjamál hefur verið gert að umgjörð utan um nýja skattheimtu, utan um tvöfalda skattheimtu því að það skattgjald sem frv. fjallar um í 10. gr. hefur þegar verið greitt. Við greiðum þetta gjald í staðgreiðslunni, það var ákveðið með lögum um það efni, þannig að séu menn þeirrar skoðunar, sem ég hygg að við séum flest sammála um, að það sé sanngjarnt að skattgreiðendur inni nokkuð af höndum sérstaklega til þessa málaflokks er það nú þegar inni í þeim sköttum sem við greiðum og á svo sannarlega að vera, en hér er einungis verið að búa til nýja fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð með því að létta þeirri skyldu af að fé sem hingað til hefur verið ætlað til þessara mála renni þangað framvegis en í stað komi nýr skattur.
    Ég mun ekki fara út í að ræða hinar skatttæknilegu hliðar þessa máls frekar. Það hefur verið gert mjög ítarlega af hv. þm. Geir H. Haarde. En mig langar til að víkja sérstaklega að þeim þáttum þessa frv. sem vita að þjónustunni við hina öldruðu.
    Við erum sammála um að það er nauðsynlegt að framlengja flest efnisatriði laganna um málefni aldraðra og um það fjallar þetta frv. nema skattákvæðið sem er nýtt efnisatriði samkvæmt því sem ég sagði áðan um það efni. Að öðru leyti er frv. í flestum greinum framhald á þeim lögum sem nú gilda með nokkrum orðalagsbreytingum þó, en í örfáum atriðum efnisbreytingum sem skipta verulegu máli.
    Mig langar til að leggja sérstaka áherslu á lokaorðin í 1. gr. frv. þar sem lýst hefur verið markmiði laganna og tilgangi. Þar lýkur greininni á svofelldum orðum: ,,Eftir því sem kostur er skal sjálfsákvörðunarréttur aldraðra í því efni virtur``, þ.e. í eigin vistunarmálum.
    Ég lít svo á að þessi sjálfsákvörðunarréttur þurfi að vera virtur ekki einungis eftir að fólk hefur náð þeim aldri að það skipi hina öldruðu sveit heldur líka fyrr á ævinni, sjálfsákvörðunarréttur til þess að hafa áhrif hver og einn á sinn aðbúnað í ellinni með því að búa sig undir ellina. Það er ekki of mælt að slíkt sé mikið hagsmunamál bæði hinna öldruðu einstaklinga sjálfra og þjóðfélagsins alls. Mér finnst stundum að við lítum ekki af nægilegu raunsæi á þróunina í aldurshlutfalli þjóðfélagsins. Svo ört hefur öldruðum farið fjölgandi í hlutfalli við aðra aldursflokka og sú þróun mun halda áfram á næstu árum og áratugum að það veitir ekki af mjög alvarlegum ráðstöfunum og hvers kyns stuðningi við undirbúning einstaklinganna sjálfra og þjóðfélagsins til þess að standa andspænis hinum auknu fjölda aldraðs fólks.
    Þess vegna er það að ég legg á það mikla áherslu, og það gerum við í Sjálfstfl. öll, að sú forsjá, sem birtist í frv. og er vissulega þörf, gangi ekki svo langt að hún dragi úr frumkvæði einstaklinganna sjálfra og því mikla og mikilvæga hlutverki sem samtök einstaklinga og sjálfboðaliða hafa gegnt á þessu sviði

--- eða hvar værum við nú stödd með þjónustu við aldraða ef ekki hefðu komið til áhugamannafélög sem hafa unnið algjörlega ómetanlegt starf á þessu sviði? Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að í frv. um málefni aldraðra sé veittur stuðningur ýmiss konar frumkvæði einstaklinga sem verður svo til þess að létta á skyldu hins opinbera til þess að annast ýmiss konar þjónustu. Það eykur líka lífsfyllingu og gleði hinna öldruðu að vita að þeir hafi sjálfir átt hlut að máli að búa sig undir þá aðstöðu sem flestra bíður þegar vel er með löngu lífi.
    Hér hafa verið gerðar nokkrar breytingar til bóta á frv. eins og það var lagt fyrir í upphafi, sérstaklega að því er varðar hlut sveitarfélaga og aðstöðu þeirra til að sinna þeim skyldum sem væntanleg lög leggja á þau, en ég vil draga athyglina samt að nokkrum atriðum sem ég held að þyrfti helst að breyta. Þó að mér sé ljóst að það sé tæpast tími til að breyta í sjálfri frumvarpsgerðinni vil ég benda á atriði sem gætu komið til framkvæmda með tiltekinni túlkun á texta frv.
    Hér er t.d. í 5. gr. frv. lítið ákvæði sem virðist ekki vera mikið að við fyrstu sýn, en það er 5. tölul. 4. mgr. þar sem talin eru verkefni öldrunarnefnda. Þar er talað um að eitt af verkefnum öldrunarnefnda sé að annast samningsgerð við einstaklinga eða félagasamtök sem taka að sér þjónustu fyrir aldraða sé það ekki verksvið annarra. Nú er vandfundið það verksvið í þessum málefnum sem er ekki ætlað hinu opinbera með einhverjum hætti, en hins vegar vitum við bæði af reynslu og þeim líkum sem fram undan eru að það er ekki alveg víst að því verksviði geti orðið sinnt með fullnægjandi hætti eða besta hætti, a.m.k. er eftirspurnin eftir ýmiss konar þjónustu af þessu tagi enn þá meiri en framboðið. Þess vegna vil ég leggja áherslu á að 5. tölul. yrði túlkaður þannig að það gæti komið til samningsgerð við einstaklinga eða félagasamtök sem taka að sér þjónustu fyrir aldraða þó að það sé verksvið annarra en gæti hins vegar orðið til þess að létta undir með þeim sem hafa það að skyldu samkvæmt lögunum.
    Til að nefna dæmi getum við tiltekið ýmiss konar dagvistir sem hægt væri að
hugsa sér að látnar væru í té af einkaaðilum, m.a.s. á einkaheimilum rétt eins og dagmömmukerfið er rekið fyrir börn. Það mætti vel hugsa sér að eitthvað sambærilegt væri rekið fyrir aldraða og ég hef reyndar rætt það við nokkra aðila sem telja að það gæti hentað sumum öldruðum mjög vel, verið persónulegt og heimilislegt og gjörbreytt lífi margra aldraðra sem eiga sér ekki erfiðari óvin en einmanaleikann. Það atriði leiðir stundum til þunglyndis sem svo aftur leiðir til enn fleiri erfiðleika fyrir aldraða einstaklinga.
    Þetta nefni ég hér vegna þess að í raun og veru er þetta einn af þessum fyrirbyggjandi þáttum, sem svo eru nefndir, eða forvarnaraðgerðum til þess að berjast fyrir fram gegn vissum ellikvillum eða jafnvel afstýra þeim, a.m.k. að fresta þeim. Mér virðist með öðrum orðum að í þessu frv., þó að það sé ágætt á margan veg, skorti nokkuð á að hinum fyrirbyggjandi þætti sé

sinnt, að gert sé ráð fyrir því að hið opinbera komi til móts við starfsemi sem miðar að því markmiði. Ég held að það sé nákvæmlega sá þáttur sem eigi eftir að fá æ meiri þýðingu á næstu árum og áratugum vegna þeirrar fjölgunar sem við komum til með að standa frammi fyrir í aldursflokki þeim sem þetta frv. fjallar um.
    Nú er það svo að það mun vera nokkuð um að slík einkadagvist sé til fyrir aldraða. Það er hins vegar engin miðlun á slíku og fáir vita um það. Þess vegna held ég að það væri sannarlega þess virði að það væri athugað að koma á slíku kerfi. Maður getur ekki vegna aldursskiptingarinnar kallað þetta dagmömmukerfi og þess vegna hefur mönnum dottið í hug orðið ,,dagskjól`` fyrir aldraða til þess að greina slíka tegund starfsemi frá öðrum. En ég hygg að á því sviði gætu verið bæði óvirkjaðir kraftar og kannski ekki ónotuð en a.m.k. meira nýtanleg aðstaða en menn hafa enn þá sinnt.
    Í þessu skyni held ég að gæti komið sér mjög vel að nýta betur aðra tegund einstaklingsfrumkvæðis, en það er heimahjúkrun sem rekin væri frá hjúkrunarmiðstöðvum hjúkrunarfræðinga og umönnunarfólks, en heimild til slíks er nú í almannatryggingalögum. Þessi heimild hefur lítt sem ekki verið notuð vegna tregðu ríkisins. ( FrS: Það heyrist ekki í ræðumanni.) Herra forseti. Fyrir aftan mig er einn fundur, tveir fundir líklega eru hérna megin og einn hér og sennilega ekki fleiri í salnum. ( Forseti: Forseti biðst velvirðingar á því að hann gat ekki fylgst með fundahöldum í salnum vegna eigin fundahalda sem vitaskuld þarf því miður stundum að halda hér uppi. En ég biðst velvirðingar á þessu og legg til að aðrir hætti fundahöldum en forseti.) Ég skil vel þessi orð hæstv. forseta og ég gagnrýni út af fyrir sig ekki að það þarf að taka ákvörðun um framhald starfa hér í deildinni. Þetta kann að vera eitthvað hönnun hússins hjá okkur að kenna. Það er stundum nokkur kliður og glymjandi.
    Herra forseti. Ég á kannski ekki von á því að hæstv. ríkisstjórn, sem hefur strengt þess heit að koma ýmsum málum í gegn í dag, bæði gölluðum og ógölluðum, til þess eins að hanga saman, taki mikið mark á því sem er verið að benda hér á. Hins vegar held ég að það geti verið gagnlegt að hafa þær ábendingar í þingtíðindum ef menn kynnu að hafa tíma til að nota það einhvern tímann seinna.
    Ég var, herra forseti, að ræða um frumkvæði einstaklinga til aðstoðar öldruðum. Ég var komin þar í málinu að ég fjallaði um þá möguleika sem kynnu að felast í því að hjúkrunarfræðingum og starfsfólki í umönnun væri gefinn kostur á að nýta heimild í almannatryggingalögum til að sinna störfum frá einkastöðvum eða á eigin vegum, praktísera eins og sagt er um lækna, að það væru fleiri heilbrigðisstéttir en læknar sem gætu unnið með þeim hætti til þess að hjálpa fólki sem er hjálpar þurfi og býr í heimahúsum. Mér er ljóst að það er ákvæði í þessu frv. um heimaþjónustu, en í því ákvæði er gert ráð fyrir að heilbrigðisþáttur þeirrar þjónustu sé einvörðungu

veittur af starfsfólki heilsugæslustöðvar. Það er ágætt þegar starfsfólk heilsugæslustöðvar er nægilega margt og nægilega mörg stöðugildi þar, t.d. fyrir hjúkrunarfræðinga, og þau stöðugildi skipuð hjúkrunarfræðingum. Þá nægir þetta til að fullnægja eftirspurninni. En Alþingi tók afstöðu til þess fyrir þremur árum að þessi leið skuli einnig notuð og menn telja að hún komi sér einkar vel úti á landsbyggðinni.
    Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessu nú því að ég held að í öllu því samningaflóði sem verið hefur til umræðu í þjóðfélaginu undanfarið hafi m.a. aftur komið upp á yfirborðið hugsanlegir samningar við hjúkrunarfræðinga, einmitt milli Tryggingastofnunar og hjúkrunarfræðinga, þannig að þeir gætu starfað eftir þessu ákvæði sem heimilar þeim að taka að sér verkefni án þess að viðkomandi hjúkrunarfólk sé fastir starfsmenn á stofnunum eða heilsugæslustöðvum. Ég held að þarna sé ein leiðin enn til að skapa fjölbreyttari úrræði til aðstoðar við aldraða og til að létta á stofnunum, ein leiðin enn sem ekki er vikið að í frv.
    Ég vík þá frá 5. gr. sem vakti þessar hugleiðingar og að hinum næstu.
    Ég fagna því að breytt var í hv. Ed. hver fjöldi væri í öldrunarnefndum. Ég hafði haft af því nokkrar áhyggjur að það gæti verið örðugt að komast að niðurstöðu ef fjöldi nefndarmanna stæði á jafnri tölu. Þessu hefur nú verið
breytt þannig að meiri hluti getur ráðið. Þarna er auðvitað um að ræða nefndir sem verða að komast að niðurstöðu. Það dugar ekki að skilja við málin opin með einhverjum hætti.
    Sama atriði og ég minntist áðan á, um heimaþjónustu, vaknar í huga mér þegar ég les 12. gr. frv. þar sem getið er um að það skuli styðja sveitarfélög, einkum dreifbýlissveitarfélög, til að koma á heimaþjónustu fyrir aldraða. Þetta er vissulega rétt og mikil þörf á þessu og þetta er meðal hlutverka Framkvæmdasjóðsins. En ég held að þarna vanti líka inn í fleiri aðila en sveitarfélög og hygg raunar að þó að þessa sé getið sé heimilt eftir lögunum að virkja einkaaðila í þessu skyni enda fyllsta þörf á því víða. A.m.k. megum við ekki ganga svo frá þessum lögum að slíku frumkvæði, hæfileikum og hjálp sem býr með einstaklingum og samtökum þeirra sé hafnað vegna of harðra ákvæða um forsjá hins opinbera. Þau mega alls ekki vera rækileg um of. Ég undirstrika það einu sinni enn. Það er einungis að menn hafi þetta í huga. Ég held að það hefði verið til bóta að þetta væri inni í frv., en mér er ljóst að svo seint sem þetta mál er fram komið kemst það ekki þar inn.
    Ef ég má, herra forseti, nefna eitt atriði sem tengist því að ég minnist á hve seint frv. er fram komið, þá hlýt ég að geta þess að e.t.v. væri ekki erindi mitt hér í ræðustól það sama með ýmsar efnisábendingar ef staðið hefði verið að málum sem mér skildist á sl. hausti að ætlunin væri að gera, en þá voru þingflokkar beðnir um að kjósa af sinni hálfu menn í nefnd til að fara yfir frv. Ég lenti í því hlutverki af hálfu míns þingflokks og fagnaði því að sjálfsögðu að geta haft

áhrif á framvindu þessa máls, sem ég tel skipta afar miklu, og bjóst því við að kallaður yrði saman fundur í þessu skyni, en svo varð ekki, a.m.k. barst það fundarboð ekki til mín. Þess vegna var það þegar leið fram á veturinn að ég undraðist það nokkuð og hélt að eitthvað hefði orðið til þess að hæstv. ráðherra hefði ákveðið að fresta frv. til næsta hausts og kom það þess vegna á óvart þegar það svo kom fram. En ég veit að á þessu er skýring. Hún kemur skýrt og greinilega fram í lokaákvæði frv., í gildistökuákvæðinu. Það er sem sé þannig að það var alls ekki ætlunin að láta frv. koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1990, en það er hins vegar nýi skatturinn sem þurfti að komast á og þess vegna er frv. drifið í gegn núna. Þetta stendur skýrum stöfum í 31. gr. frv.: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1990. Þó skal 1. tölul. 10. gr. öðlast gildi þegar í stað.`` Þetta var ástæðan fyrir því að umræðan varð áðan, og ekki að ófyrirsynju, að skattaumræðu. En það er ljóst að það er ekki ætlun hæstv. ríkisstjórnar að fresta heldur efnisatriðunum. Vissulega var þörf að framlengja efnisatriði núgildandi laga og ég gagnrýni það ekki að þeim sé að nokkru breytt, en mér þykir skipta miklu að þær breytingar verði til bóta og menn láti sér ekki sjást yfir þau atriði þar sem um er að ræða óvirkjaða möguleika í þjóðfélaginu eða möguleika þar sem einstaklingar hafa vilja, þekkingu og getu og eiga skilið stuðning til að veita þá þjónustu sem þeir eru reiðubúnir til með samtökum sínum eða sjálfir.
    Í anda þessara hugleiðinga um frumkvæði einstaklinga vil ég nefna atriði í 17. gr. þar sem vissulega er getið um og tekið tillit til þess þegar menn eiga sjálfir sérstakar íbúðir fyrir aldraða eða þá hafa þær sem leiguíbúðir eða búseturéttaríbúðir. Í 4. tölul. 17. gr. segir: ,,Þar skal vera völ á sömu þjónustu og um getur í 1. tölul. 18. gr., annaðhvort í húsnæðinu sjálfu eða næsta nágrenni.`` Það er vissulega gott ef völ er á þeirri þjónustu. Það segir þó ekki í greininni hver á að sjá fyrir þeirri þjónustu. Það er sem sagt skylda einhvers að sjá fyrir því að völ sé á þessari þjónustu. Varla er sú skylda lögð á menn ef þeir eiga sjálfir íbúðir, að þeir sjái fyrir slíkum þjónustumiðstöðvum í hverfinu. Ég held að það hljóti að mega álykta að það sé sveitarfélagið sem eigi að sjá fyrir því þó að það sé í raun og veru fyrst og fremst heimaþjónusta skv. 15. gr. sem sveitarfélagið á að sjá fyrir. Í þessum tölulið er vísað í 1. tölul. 18. gr. þar sem talið er upp hvers konar þjónusta skuli vera í stofnunum fyrir aldraða samkvæmt lögunum. Þá er það skýrt hvers konar þjónusta á að vera, en að vísu ekki hver á að sjá fyrir þessari þjónustu. Hins vegar er það skýrt hver á að borga þessa þjónustu. Það eru þeir sjálfir sem búa í sjálfseignar-, leigu- eða búseturéttaríbúðum, nema heimaþjónustuna sem sveitarfélögin greiða. Aðra þjónustu eiga þeir sjálfir að borga, en í þjónustuhúsnæði aldraðra skv. 18. gr. á að greiða þetta eftir þeim reglum sem greitt er á stofnunum þannig að mismunað er þeim einstaklingum sem sjálfir hafa séð fyrir þessum íbúðum sérstaklega ætluðum

fyrir aldraða, eiga þær sjálfir eða leigja þær sjálfir. Þeir skulu borga dýrari þjónustu heldur en hinir, þjónustan skal verða dýrari til þeirra.
    Það má e.t.v. finna rök fyrir þessu, en ég held að þetta sé eitt af því sem dregur úr hvatningu til að búa sig sjálfir undir það sem bíður þeirra sem verða gamlir. En ég held að einmitt slík hvatning sé mjög mikilvæg og skilningur á því hefur farið vaxandi víðast hvar í þjóðfélagi okkar. Ég held að það hljóti í raun og veru að vera vilji til þess af hálfu hæstv. ráðherra og ráðuneytisins, en í frv. þar sem svona mörg einstök atriði eru upp talin má kannski vænta þess að eitthvað slíkt verði út undan.
    Ljóst er að það er verulegur mismunur á kjörum manna sem hafa sjálfir lagt peninga sína í þessar íbúðir, eiga þær sjálfir, leigja þær eða eru í búseturéttaríbúðum og kostnaði þeirra af þjónustunni og svo hinna sem hafa komist inn í þjónustuhúsnæði sem heyrir undir 18. gr.
    Ef þeir sem búa í húsnæði sem tilgreint er í 4. tölul. 17. gr. fengju kostnaðinn við þjónustuna að einhverju leyti niðurgreiddan, ef ég má orða það svo, af t.d. Tryggingastofnuninni, væri þar með verið að vinna að því að létta á ásókninni í stofnanirnar. Það hlýtur að stuðla að því að menn sækist frekar eftir því að komast inn á stofnanirnar ef það er fjárhagslega miklu hagkvæmara. Við getum ekki búist við því að fólk á ellilífeyrisaldri hætti allt í einu að hugsa um þá hlið málsins og jafnvel þvert á móti, þeim veitir oft og tíðum ekki af því svo lágar tekjur sem þeir oft og tíðum hafa. En það er líka þess að gæta að margir einstaklingar þeirrar kynslóðar eru e.t.v. stoltari gagnvart aðstoð hins opinbera en síðari kynslóðir. Þetta er fólk sem hefur vanist því að vinna hörðum höndum til að sjá fyrir sér. Það vill bjarga sér sjálft og býr heldur við erfiðan kost en vera upp á aðra komið. En ef það hins vegar liggur fyrir í lögum að þeir sem svo stendur á um eigi þennan rétt, þá horfir málið öðruvísi við. Þá er það sjálfsagður réttur en ekki nein ölmusa á neinn hátt. Það er réttur sem þetta fólk hefur unnið fyrir á langri ævi.
    Spyrja má hvaða þjónusta það sé þá í húsnæði skv. 17. gr. sem væri ekki greidd en er í þjónustuhúsnæðinu skv. 18. gr. Það er t.d. varsla allan sólarhringinn og öryggiskerfi í hverri íbúð. Þetta eru hvort tveggja þættir sem geta dregið úr þörfinni á stofnanaþjónustunni. Ég held því að þetta skipti mjög miklu máli.
    Í 17. gr. er enn fremur vikið að dagvist aldraðra sem ég raunar gat um áðan. Hér er þess vissulega getið að hún geti verið rekin sjálfstætt eða í tengslum við aðra starfsemi. Jafnframt er skilgreint, hvað teljist dagvist. Ég vona að þessi fáu orð hér, að dagvist geti verið rekin sjálfstætt, verði túlkuð svo að það verði heimilt að veita vissa fyrirgreiðslu út af dagvist einkaaðila, en ég hef tilhneigingu til að halda að hér sé fyrst og fremst átt við dagvist sem rekin er af hálfu hins opinbera. En það er sama. Mér finnst ástæða til að undirstrika að það sé möguleiki innan laganna að bjóða upp á fleiri úrræði, einmitt í

samræmi við þá tilgangsgrein sem er í 1. gr., að sjálfsákvörðunarréttur aldraðra sé virtur.
    Í 19. gr. frv. er talað um mat á vistunarþörf. Þegar mikil eftirspurn er eftir vistun í stofnunum og miklu meiri eftirspurn en hægt er að koma til móts við er það ljóst að þetta ákvæði skiptir verulegu máli, svo sannarlega, en hins vegar getum við ekki látið svo sem þetta mat hafi ekki farið fram. Það hefur verið í höndum stofnananna sjálfra og þeirra sérfróðu aðila sem þær hafa á að skipa. Ég spyr hæstv. ráðherra um hvort greinina um vistunarmat beri að skilja þannig að fólk geti ekki sótt um á tiltekinni stofnun sem það hefur af einhverjum ástæðum áhuga á að vera á, það kann að vera að náið skyldmenni sé á þeirri stofnun o.s.frv. Eða ber þetta svo að skilja að niðurstaða vistunarmatsins kunni að verða sú að viðkomandi komist að á einhverri allt annarri stofnun? Mætti orða það svo að öll hugsanlega laus pláss væru sett í eina skál og síðan færi það eftir atvikum á hvaða stofnun viðkomandi gæti fengið pláss? Væri tekið tillit til óska viðkomandi um að vistast á tiltekinni stofnun?
    Nú segir í grg. frv. að það séu vissulega stofnanirnar sjálfar sem ráði því hverja þær taki til vistar, en það er þó ekki öðruvísi en svo skilst mér á greinargerðinni að forstöðumenn eða stjórnir stofnana geti valið úr þeim nöfnum sem matsnefndin eða þeir sem annast vistunarmatið hafa sett á lista yfir fólk í því ástandi að það teljist hafa þörf fyrir þessa vistun. Mér virðist frumvarpsgreinin þýða þetta og þá er spurningin sú hvernig farið verði með framkvæmdina og hver verði ákvörðunarréttur stofnunar sem t.d. hefur verið sett á laggirnar af félagasamtökum fyrir meðlimi sína eða þá sem þeim tengjast. Getur stofnunin ákveðið hverjir af tilteknum aðilum sem stóðu á bak við hana eigi að hafa forgang til vistunar? Þetta er eitt þeirra atriða sem hafa hvatt fólk til að búa sig undir ellina. Verður slík starfsemi minna sjálfráð, ef svo má segja, en áður? Hér segir að í reglugerð skuli setja reglur um vistunarmat og framkvæmd þess og þar sem það er hlutverk ráðherra að setja reglugerð leyfi ég mér að spyrja um nánari útfærslu á þessu.
    Enn fremur segir í sömu grein: ,,Hafi aldraður einstaklingur verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar skal þjónustuhópur aldraðra meta þörf einstaklingsins fyrir vistun á öldrunarstofnun.``
    Spurning mín í þessu sambandi er: Hver er það sem hefur frumkvæði að því að meta vistunarþörf á öldrunarstofnun þegar svona stendur á um einstakling? Er það læknir sjúkrahússins? Ef hann hefur ekkert hafist handa um að biðja um að meta vistunarþörf og hann telur ástæðu fyrir því að sjúklingur sé inni á stofnuninni og hafi ekki fengið sérstaka meðferð heldur þurfi að bíða eftir meðferð af einhverjum ástæðum getur þá þjónustuhópur aldraðra eða fulltrúi hans komið inn á sjúkrahúsið og sagt sem svo: Þar sem þér hafið, kæra frú,
verið sex vikur án sérstakrar meðferðar hér á sjúkrahúsinu ætlum við að meta þörf yðar fyrir vistun á öldrunarstofnun. Svo verður niðurstaðan sú að

viðkomandi þurfi að vistast á öldrunarstofnun og þar er kannski laust pláss og getur þá viðkomandi sagt við þessa frú: Ja, nú getum við flutt inn á þessa og þessa stofnun á morgun.
    Það vakna ýmsar spurningar um stöðu einstaklingsins í þessu sambandi og líka um tengsl og samstarf milli stofnana. Ég veit eða þykist vita að þetta ákvæði hljóti að vera sett til að létta á sjúkrahúsunum, til þess að rýma pláss í sjúkrastofnunum fyrir bráðasjúkdóma. Þó er það ekki einhlítt. Það segir ekkert um það í greininni hver á að eiga frumkvæði í þessu sambandi. E.t.v. eru það aðstandendur sjúklingsins sem liggur inni á sjúkrastofnun. Þeir eru kannski ekki ánægðir með að ,,ekkert`` hafi verið gert. Við þekkjum það þegar maður er veikur inni á sjúkrastofnun og hefur það helst á tilfinningunni ekkert sé gert í málinu, en læknisfræðilega niðurstaðan hefur kannski verið sú að það eigi einmitt ekkert að gera í málinu heldur bíða eftir að eitthvað jafni sig. Hvað þýðir þá orðið meðferð í þessu sambandi? Þetta var um 3. mgr. 19. gr.
    Í 20. gr. er nýmæli sem ég vildi líka spyrja hæstv. heilbrmrh. um. Vafalaust er það nýmæli sett í þeim tilgangi að nýta betur fjármuni, en þó er það líka þess eðlis að það getur dregið úr frumkvæði áhugamannafélaga sem ég hélt að við værum öll sammála um að virkja. Þetta nýmæli er fólgið í því að áður en framkvæmdir hefjast við dagvist fyrir aldraða eða stofnun fyrir aldraða skv. 18. gr. skal afla framkvæmdaleyfis heilbrmrh. Beiðni um þetta framkvæmdaleyfi á að fylgja greinargerð um eigendur og fjárhagsástæður þeirra. Það greinir ekki frá því hvaða þýðingu þessir þættir hafa í beiðninni, þessar upplýsingar. Vel má vera að þetta sé jákvætt, en mér virðist þetta ákvæði þurfa nánari skýringar við. Hingað til hefur verið látið duga að sækja um rekstrarleyfi til heilbrmrh. og þá er farið yfir það af fagmönnum í ráðuneytinu að öll aðstaða og búnaður sé í því ástandi að það hæfi öldruðu fólki og sé því til hagræðis á allan hátt, aðgangur auðveldur o.s.frv. Það hefur líka gilt þegar sótt hefur verið um framkvæmdastyrk úr Byggingarsjóði aldraðra að þar hefur að sjálfsögðu þurft að leggja fram upplýsingar og áætlanir. En það er hins vegar nýtt að því er mér virðist, ég man ekki eftir öðru, það hefur a.m.k. ekki verið í lögum, að það skuli --- hvort sem sótt er um styrk eða ekki --- áður en framkvæmdir hefjast í öllu falli þurfa leyfi heilbrmrh. og upplýsingar um eigendur og fjárhagsástæður þeirra. Á þá að vísa fram skattframtölum? Mér virðist þetta ekki vera nægilega skýrt og ég vænti þess að hæstv. ráðherra skýri þetta nánar.
    Að öðru leyti virðast mér ákvæði frv. fyrst og fremst vera sett með hagsmuni hinna öldruðu í huga og þau eru það auðvitað öll, en það má vel vera að alþingismenn sjái atriði sem þurft hefði að hafa í huga til viðbótar því sem hér er eða þurfi nánari skýringar og til þess erum við að fjalla um málið.
    Ég kem þá að kaflanum um kostnaðinn við

öldrunarþjónustu. Þar eru vissir ágallar. Viss mismunun á sér stað samkvæmt núgildandi lögum. Ætlunin hefur sjálfsagt verið að afnema hana með þessu frv. ef að lögum verður, en það er hins vegar ekki gert. Ég fæ ekki séð annað en að hér sé mismununin mikil og ekki minni en er að núgildandi lögum.
    Í fyrsta lagi vil ég nefna 24. gr. þar sem talað er um dagvistina:
    ,,Þeir sem þjónustu dagvistar njóta skulu taka þátt í kostnaði af dagvistinni að hámarki sem nemur einstaklingsgrunnlífeyri Tryggingastofnunar ríkisins. Að öðru leyti greiðist kostnaður vegna dagvistar af Tryggingastofnun ríkisins.``
    Þetta þýðir í framkvæmd að sá sem ekki er í sólarhringsvistun og stundar ýmiss konar tómstundastarf í dagvistarstofnun sem tengist þeirri stofnun, þ.e. sá sem býr í heimahúsi úti í bæ en kemur í dagvistun, sem er mikilsverð starfsemi, greiðir þetta með grunnellilífeyrinum sínum. Þegar hann svo hefur greitt dagvistina þarf hann að greiða sitt heimilishald að öðru leyti, húsaleigu, ljós og hita o.s.frv., öll þau gjöld sem til falla á venjulegum heimilum. Ef þessi sami einstaklingur er hins vegar í sólarhringsvistun greiðir Tryggingastofnunin fyrir hann með þeim takmörkunum þó sem segir í 27. gr. Segjum að við séum að bera hér saman einstakling sem aðeins hefur tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann lætur þennan stóra part af öllum tekjum sínum í dagvistina ef hann býr heima, en hann þarf ekki að greiða ef hann býr á sólarhringsvistun en fær að auki vasapeninga. Mér virðist að þarna sé of mikill munur á milli kostnaðarins við dagvistun og kostnaðarins við sólarhringsvistun.
    Nú vil ég taka fram, hæstv. forseti og hæstv. ráðherra, ef ég má sérstaklega beina máli mínu til hans, að þetta mál mitt, sem vissulega er langt á þessum seinasta degi þingsins, er ekki fram sett til að tefja afgreiðslu þessa máls heldur af einlægum áhuga á því að nota þau úrræði sem hugsanleg eru til að ná tilgangi þessara laga sem er að gera fólki kleift og hvetja það til að lifa sem lengst eðlilegu heimilislífi og að virða sjálfsákvörðunarrétt þess svo sem verða má. En ein af aðferðunum til þessa og einna mikilvægasta aðferðin er sú að styðja við alla þá möguleika sem eru til þess að fólk hafi þá aðstöðu að það þurfi ekki að leita til stofnunar. Ein af þeim aðferðum er að taka þátt í
kostnaðinum við dagvistun. Ég held að þess hafi ekki verið gætt í frv. Hér gerum við ráð fyrir því að svo miklu dýrara verði hið daglega líf þess sem býr í heimahúsum í samanburði við þá sem eru á sólarhringsstofnun. Og annað atriði: Fyrst ég er komin að því að tala um vissa mismunun milli einstaklinga er ljóst að þarna kemur líka til athugunar að dvalarkostnaður fyrir aldraða á stofnunum skv. 18. gr., þar á meðal í þjónustuhúsnæði fyrir aldraða, er greiddur af Tryggingastofnun ríkisins, en ef hið sama fólk býr í sjálfseignar-, leigu- eða búseturéttaríbúðum fyrir aldraða borgar það sjálft. Þarna er líka of stórt

stökk á milli.
    Viss undantekning frá þessu er þó í 27. gr. þar sem á að skattleggja nýjan hóp aldraðra fyrir vist sinni á dvalarheimili. --- Ja, nú þykir mér heldur fækkað hófaljóni. ( Forseti: Nú?) Nú sakna ég hæstv. trmrh. því að hér er komið að máli sem ég má til með að ræða við hann. Það er þó huggun harmi gegn að hv. 10. þm. Reykv., sem er formaður stjórnar ríkisspítalanna, er kominn í salinn því að þetta tengist áhugamálum þeirra stofnana. ( Forseti: Það er verið að sækja ráðherrann. En ég þykist vita að formaður stjórnar ríkisspítalanna sé reiðubúinn að hlusta á meðan.) Það er best að ég taki þann kafla þessara athugasemda sem menn hafa fjallað hér um og kallað í hálfkæringi sjúklingaskattinn.
    Einu sinni voru menn, a.m.k. sumir hverjir, á því að taka upp það fyrirkomulag að þeir sem legðust um stundarsakir á sjúkrahús tækju þátt í fæðiskostnaði, kostnaði við það fæði sem þeir sjálfir neyttu. Rökin fyrir þessu voru þau að það þyrftu menn að gera ef þeir væru utan sjúkrahúsa og þetta var miðað við þá sem ekki misstu tekjur á meðan. Ég var ekki hrifin af þessu ákvæði af því að ég taldi að þarna kæmi til alls kyns vigtun á efnahag manna í tilefni af því að þeir yrðu veikir eða legðust á sjúkrahús og mér þótti það allt of flókið mál til að það væri skynsamlegt að fara út í það. En hvað sem því líður er sá skattur eða sú gjaldtaka sem lögð er til í þessu frv. að því leyti til miklu verri að hér er um að ræða fólk sem er ekki inni á stofnun um stundarsakir. Hér er um að ræða fólk sem verður að una þarna ævi sinnar daga og fer ekki aftur út á vinnumarkaðinn að afla sér tekna. Í hinu tilfellinu, þó að það væri ekki skemmtilegt, var þó verið að tala um fólk sem var í launuðum störfum og fór aftur út á vinnumarkaðinn eftir nokkra dvöl inni á sjúkrahúsi. Hér er verið að tala um aldrað fólk sem hefur í sveita síns andlitis reynt að leggja eitthvað fyrir til elliáranna. Af því kann það að hafa einhverjar vaxtatekjur eða einhverjar húsaleigutekjur. Þær skulu allar renna til stofnananna. En hafi fólk ekki gert þetta er dvölin að fullu greidd og vasapeningar að auki. En ég var að tala um 27. gr. Og af því að mönnum hefur orðið tíðrætt um það sem þeir kalla sjúklingaskatt var ég að bera ákvæðið í þessari grein saman við það sem einu sinni var kallað sjúklingaskattur. Ég tek fram að sjálf var ég ein af þeim sem þótti svo krataleg í hugsun, eins og sumir vinir mínir sögðu einhvern tímann, að ég var ekki hrifin af þeirri hugmynd. En hvað um það. Það voru skiptar skoðanir um það, líka vegna framkvæmdaatriða. En sú hugmynd hafði þó það fram yfir þetta að þar var um að ræða fólk sem var í störfum, missti ekki einu sinni tekjur sínar á meðan það lá inni á sjúkrastofnun og kom aftur út á vinnumarkaðinn eftir að það hafði legið inni á sjúkrastofnun um stundarsakir og aflaði sinna tekna. En í þessu tilfelli erum við að tala um fólk sem er farið út af vinnumarkaðnum og er á stofnuninni á sínu ævikvöldi og mun ekki þaðan fara út á vinnumarkaðinn.

    Þetta fólk vill ríkisstjórn félagshyggju skattleggja og láta það borga það sem það kann að hafa unnið sér fyrir með miklu erfiði og samviskusemi og í sjálfstæðisviðleitni hefur það verið að leggja fyrir til elliáranna, hefur kannski einhverjar tekjur af sparifé eða húsaleigutekjur, svo og tekjur úr lífeyrissjóði. Það stendur í mörgum tilfellum svo á að þetta fólk þarf að leggja allar þessar tekjur til vistheimilisins vegna ákvæðisins sem skyldar það. Það er ekki einungis að það sé heimilt eins og í núgildandi lögum að taka gjald heldur er það skylt eftir þessu frv. Það er skylt að greiða. Þess hefur ekki einu sinni verið gætt að breyta ákvæðinu um vasapeninga í þessu sambandi því að þeir sem hafa búið sig með þessum hætti undir ellina hafa engan rétt til vasapeninga sem svo eru nefndir inni á stofnuninni þó svo að allar tekjurnar fari til greiðslu vegna þess að ákvæði laganna og frv. sem við erum með segir skýrum stöfum að þeir sem hafa ekki aðrar tekjur en bætur almannatrygginga fá ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun eða með öðrum orðum vasapeninga. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann virkilega að standa að því að sá sem hefur aðrar tekjur, sem fara kannski allar í dvalarkostnaðinn, fái ekki eyri í vasapeninga?
    Þetta er viðhorf hæstv. ríkisstjórnar til þeirra sem hafa sjálfir oft og tíðum af veikum burðum og miklu erfiði verið að búa sig sjálfir undir elliárin. Þetta eru kveðjurnar sem fólkið fær eftir langan og erfiðan vinnudag.
    Þessi hugmynd er að mínu viti vanhugsuð og siðferðilega röng. Hún felur í sér mismunun sem ég hélt að ekki mundi verða samþykkt á Alþingi og sýnir
hræsnina sem býr oft í fagurgalanum hjá þeim sem telja sig mæla á vegum hinna svokölluðu félagslegu afla eða félagshyggju hvað sem það nú þýðir. Það er sennilega þessi grautur sem ríkisstjórnin núna samanstendur af.
    Ég held að velferðinni sé miklu betur borgið með því að viðurkenna og koma til móts við þá sem sjálfir leggja eitthvað af mörkum í því að búa sjálfa sig og meðbræður sína og systur undir ellina með sjálfboðaliðastarfi, með vilja og vinnu og þeirri hugsun að þeir vilji sem minnst upp á hið opinbera vera komnir, enda hafa þeir þann skilning á því að svo tröllaukin verða verkefni hins opinbera á þessu sviði á næstu áratugum að lögum að svona skipulagsbreytingar og hólfaskiptingar og hvaða nefnd gerir hvað leysir ekki það mál. Það þarf að virkja vilja og getu allra góðviljaðra manna í þessu skyni og ekki einungis stofnanir hins opinbera.
    Það eina sem segir í 27. gr. frv. til skýringar á þessu ákvæði er þetta, með leyfi hæstv. forseta: ,,Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um þátttöku vistmanna í greiðslu dvalarkostnaðar, m.a. um hækkun viðmiðunartekna.`` Það eru viðmiðunartekjurnar sem menn hafa fyrst og fremst í huga. En hvað þá með hina þættina? Hvað þá með þá sem þurfa að rísa undir ýmsum kröfum samfélagsins sem ekki eru orðaðar í lögum en eiga við fólk almennt, ekki síst þá

sem eiga stórar fjölskyldur, hvort sem þeir eru inni á stofnun eða ekki, og leggja stolt sitt í að geta risið undir vissum óbeinum kröfum eða eigin áhuga á að sinna ýmsum af sínum nánustu? Slíkt kostar auðvitað fé.
    Ég legg enn áherslu á þetta atriði í 27. gr. vegna þess að mér virðist það vera ljóst í greinargerðinni að þar séu skýringar sem geta valdið misskilningi, geta gert þetta ákvæði miklu sakleysislegra en það er í raun og veru. Í greinargerð frv. á bls. 8 segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Önnur meginbreyting frv. felst í fyrirkomulagi greiðslu vegna dvalar á öldrunarstofnunum.
    Þrátt fyrir ákvæði gildandi laga um málefni aldraðra er enn við lýði sú regla að aldraðir greiði hlutdeild í dvalarheimiliskostnaði hafi þeir lífeyrissjóðstekjur umfram frítekjumark. Þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en bætur almannatrygginga fá ákveðna fjárhæð á mánuði frá Tryggingastofnun ríkisins og stofnunin annast greiðslu vistkostnaðar með svokallaðri elliheimilisuppbót.
    Þetta fyrirkomulag hefur sætt mikilli gagnrýni af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi sökum þess að þeir sem hafa lífeyrissjóðstekjur og greiða dvöl sína sjálfir hætta því ef heilsa versnar og þeir flytjast yfir á þyngra og dýrara þjónustustig. Þá tekur sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins við greiðslu hjúkrunarkostnaðar og lífeyrissjóðstekjur renna óskertar til hins aldraða. Í öðru lagi`` --- ég er enn hæstv. forseti að lesa upp úr greinargerðinni --- ,,hefur gagnrýnin beinst að því að það skuli eingöngu vera lífeyrissjóðstekjur sem með þessum hætti hafa áhrif á hvort hinn aldraði greiði fyrir dvalarheimilisdvöl. Aldraður einstaklingur, sem hefur engar lífeyrissjóðstekjur en e.t.v. verulegar skattfrjálsar eignatekjur, sætir ekki sömu meðferð. Hann heldur eignatekjum sínum óskertum og Tryggingastofnun ríkisins greiðir dvalarheimilisdvöl hans að fullu auk þess sem hann fær mánaðarlega ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun ríkisins.``
    Hér lýkur þessari tilvitnun minni, hæstv. forseti. Hvernig ætlar svo hæstv. ríkisstjórn að bæta úr því misrétti sem hér er greint frá? Er það með því að létta einhverju af greiðsluskyldunni hjá þeim sem hafa greitt í lífeyrissjóð? Nei, það er nú ekki aldeilis þannig heldur á að stækka þann hóp sem rukkaður er með svipuðum hætti og líka þann hóp sem er með það sem í frv. er kallað ,,verulegar skattfrjálsar eignatekjur``. Það hlýtur þá að teljast verulegt þó að það sé skattfrjálst, þó að það sé ekki hærra en svo. Annars er engin skýring á því. Það er því ljóst að breytingin sem í frv. er eykur á misréttið en dregur ekki úr því. Hún eykur á misréttið á þann veg að hún stækkar þann hóp aldraðra sem beittur er misrétti að því leyti til sem svo er ástatt um að hann greiðir dvölina, en af því að hann hefur aðrar tekjur en tekjur Tryggingastofnunar skal hann ekki fá þá fyrirgreiðslu sem þeir fá sem einungis hafa tryggingastofnunartekjur, þ.e. ekki vasapeningana. Ég sé ekki að lögin heimili það óbreytt. Þessu tel ég að

sé nauðsynlegt að breyta og ég treysti því að hæstv. ráðherra sjái um það í velvilja sínum og get ekki ímyndað mér annað en að allar breytingar til bóta mundu frekar flýta fyrir frv. en hitt. En aðalatriðið er að auðvitað er engin ástæða til að hraða í gegnum þingið frv. svona seint fram komnu sem aðeins á að taka gildi að því er hina nýju skattlagningu varðar. Það er bara það atriði sem á að taka gildi. Hitt á hvort sem er að liggja til áramóta.
    Auðvitað veit ég að það er skrautfjöður fyrir hæstv. ráðherra að geta sagt: Nýtt frv. um málefni aldraðra kom í gegn. Þetta hljómar vel. En ég held að sú fjöður yrði til meiri prýði ef gætt væri að því að færa þau ákvæði sem við höfum hér bent á í áttina til meira réttlætis.
    Ég hef lokið þessu máli, herra forseti.