Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Um það hefur verið spurt til hvaða starfsemi sláturhúsa og mjólkurbúa undanþága aðstöðugjalda nái. Það er mín skoðun að það sé ekki gert ráð fyrir breytingum frá því sem verið hefur á framkvæmdinni að því er varðar undanþágur á sláturhúsum og mjólkurbúum nema áréttað er að undanþágan nái einungis, eins og fram kemur í brtt. eins og hún kemur í Nd., til framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða. Ég taldi nauðsynlegt að fá það skýrt fram vegna þessarar fyrirspurnar sem fram kom hvernig framkvæmdin hefur verið á þessu hingað til að því er varðar undanþágur hjá sláturhúsum og mjólkurbúum á að greiða aðstöðugjöld. Túlkun á framkvæmdinni liggur fyrir og hef ég fengið hana frá Ævari Ísberg ríkisskattstjóra og hún er í þessa veru, með leyfi hæstv. forseta: Að því er varðar sláturhúsin hefur undanþágan náð til hefðbundinnar starfsemi sláturhúsa. Hafi annar rekstur verið í húsnæði sláturhúsanna, t.d. kjötvinnsla, hefur viðkomandi aðili skilað sérstöku aðstöðugjaldsuppgjöri og þá verið lagt á hann aðstöðugjald í samræmi við það.
    Varðandi mjólkurbúin hefur það sama átt við. Undanþágan hefur einungis náð til mjólkur og mjólkurafurða. Ágreiningur hefur reyndar komið upp um hvort telja eigi ís mjólkurafurð. Með hæstaréttardómi nr. 101/1964 var úrskurðað að svo væri. Ávaxtagrautar, ávaxtasafi og brauðgerð hafa hins vegar verið aðstöðugjaldsskyld. Þetta er áréttað enn frekar í brtt. meiri hl. félmn. og fram kemur á þskj. 1194. Í þessu sambandi er rétt að vísa til 6. gr. reglugerðar um aðstöðugjald nr. 81/1962 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nú hefur gjaldandi margþættan atvinnurekstur eða starfsemi þannig að rekstrarútgjöld hans falla undir fleiri en einn gjaldflokk samkvæmt 10. gr. eða ef einhverjir þættir starfseminnar eru undanþegnir aðstöðugjaldi, sbr. 5. gr., og skal hann þá senda með skattframtali sínu fullnægjandi grg. um hvaða útgjöld hans tilheyri hverjum einstökum gjaldflokki er sveitarstjórn hefur ákveðið og hvað sé vegna gjaldfrjálsrar starfsemi. Ef slík greinargerð fylgir ekki framtali eða ef hún er í verulegum atriðum röng eða ófullnægjandi skal skattstjóri áætla skiptinguna ef unnt er, annars ákveða gjaldið í þeim gjaldflokki sem hæstur er. Nú eru einhver útgjöld sameiginleg fyrir fleiri gjaldflokka, svo sem yfirstjórn fyrirtækis, skrifstofuhald o.s.frv., og skal þá skipta slíkum kostnaði í hlutfalli við sérkostnað hvers þáttar starfseminnar.``
    Ég tel að það sé alveg skýrt hvernig framkvæmdin hefur verið á þessu og hef ég vitnað til túlkunar vararíkisskattstjóra í því sambandi og vona ég að þessi niðurstaða skýri og taki af allan vafa um hver er skilgreiningin á þessu máli að því er undanþágurnar varðar hér.