Félagsmálaskóli alþýðu
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. 2. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hl. félmn. á þskj. 1215 og brtt. á þskj. 1216. Félmn. hefur rætt þetta frv. og kallaði, eins og fram hefur komið, fulltrúa á sinn fund frá ASÍ, VSÍ, menntmrn., Verslunarskólanum og Fjárlaga- og hagsýslustofnun.
    Meiri hl. nefndarinnar hefur mælt með því að frv. verði samþykkt óbreytt, en 2. minni hl. sem sú sem hér stendur stendur að, leggur til brtt. við frv.
    Það vekur líka furðu mína eins og hv. 17. þm. Reykv. sú setning sem kemur fram í nál. meiri hl. um að margar athyglisverðar ábendingar hafi komið fram sem ekki sé ástæða til að fjölyrða um. Ein af þeim ábendingum sem komu fram var sú sem kemur fram í brtt. á þskj. 1216 þar sem talað er um að þessi skóli muni falla undir menntmrn. En frv. felur í sér að sett verði lög um Félagsmálaskóla alþýðu sem hefur starfað á vegum Alþýðusambands Íslands frá því árið 1975. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, sem var stofnað árið 1969, hefur farið með málefni skólans og hefur verið unnið mikilvægt og gott starf á vegum hans. Hann hefur gefið fólki úr röðum ASÍ tækifæri til að fara í gegnum nám sem eflir sjálfstraust þess og öryggi og til þess að fjalla af öryggi um ýmis þau mál sem stéttarfélög þurfa að fást við. Kennslan hefur farið fram í námskeiðum um félagsmál, verkalýðsmál og þjóðmál. Skólinn hefur í mörgum tilfellum ýtt undir að fólk hefji nám að nýju eftir margra ára hlé þannig að þessi skóli hefur unnið mjög mikilvægt og merkilegt starf og vil ég síst af öllu draga úr því hversu mikilvægt það starf er sem þarna hefur farið fram. Þó ég ætli nú ekki að fara að vitna í það beint langar mig að benda á grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 4. maí sl. þar sem Árni Johnsen lýsir því starfi sem þar fer fram og hefur rætt við fjölmarga þeirra sem hafa þar verið á námskeiði. Kemur mjög vel fram í þeirri grein hversu mikilvægt það starf sem fram fer er þeim sem þar hafa stundað nám. Þessi skóli hefur gert mjög margt gott.
    Ég efast samt um að það þurfi endilega að vera skólanum til góðs að setja lög um skólann. En aðstandendur skólans telja að það skipti mjög miklu máli og langar mig til að vitna í það sem fram kemur í máli Tryggva Þórs Aðalsteinssonar í greininni í Morgunblaðinu frá fimmtudeginum 4. maí, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Lögbundinn skóli gæti boðið upp á mun breiðara nám fyrir fólk sem af ýmsum ástæðum fór ekki í frekara nám að loknu skyldunámi.``
    Þeir telja sem sagt að þessi skóli mundi verða betri og gefa meiri möguleika ef hann væri lögbundinn. Þó að ég sjái ekki alveg hvernig það muni gerast hef ég ekki talið eðlilegt að vera á móti því að lög verði sett um skólann.
    Eins og segir í athugasemd við frumvarpið hefur nú tekist samvinna milli ASÍ og BSRB um skólann. Samkvæmt frumvarpinu er miðað við að starf skólans verði tvíþætt. Annars vegar fræðsla eins og hingað til hefur verið veitt um hina íslensku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og viðfangsefni hennar og hins vegar kennsla í almennum greinum. Því virðist vera

stefnt að því að stofnaður verði eins konar lýðháskóli þar sem nemendur geta jafnhliða fræðslu sem tengist starfi í verkalýðshreyfingunni notið fjölbreyttrar kennslu sem geti að hluta eða öllu leyti verið hliðstæð námi í öðrum skólum og metin til jafns við það. Þetta er í samræmi við það sem kom fram í grein Árna Johnsen í Morgunblaðinu þar sem aðstandendur skólans telja að þeir geti boðið upp á fjölbreyttara nám ef um lögbindingu verður að ræða þó að ég skilji ekki tenginguna þar á milli.
    Eðlilegt er að skólinn lúti almennum reglum um skólahald svo sem skóli þjóðkirkjunnar í Skálholti, Verslunarskóli Íslands og Samvinnuskólinn. Það kom fram í máli þeirra sem komu á fund nefndarinnar að þeir teldu þetta að öllu leyti eðlilegt. M.a. kom það fram í máli fulltrúa ASÍ sem kom til fundar við nefndina, sem var Helgi Guðmundsson. Hann sagði að hann teldi eðlilegt að skólinn lyti almennum reglum um skólahald þó hann hefði að vísu lýst sig andvígan því að þessi skóli félli undir menntmrn.
    Frv. gerir hins vegar ráð fyrir því að skólinn heyri undir félmrn. og eins og ég sagði áðan hafa engar viðhlítandi skýringar eða haldbær rök fengist fyrri slíkri tilhögun. Að mínu mati er eðlilegt að þessi skóli heyri undir menntmrn. eins og stefnan hefur verið um flesta skóla hér á landi. Eftir því sem mér er kunnugt eru það eingöngu búnaðarskólarnir sem ekki falla undir menntmrn. Sterk rök eru fyrir því að yfirstjórn skólamála falli undir eitt og sama ráðuneytið. Það skapar í senn betri tengsl milli skóla og gerir samvinnu milli þeirra auðveldari. Slík skipan tryggir líka mun betur en ella rétt nemenda gagnvart hinu almenna skólakerfi og að námsáfangar í félagsmálaskólanum falli að námi í öðrum skólum og fái viðurkenningu.
    Þetta kom m.a. fram hjá Sólrúnu Jensdóttur í menntmrn. sem kom á fund nefndarinnar. Hún taldi einnig að það fjármagn sem til skólans verður varið nýttist betur ef skólinn væri tengdur hinu almenna skólakerfi og að auðveldara yrði fyrir skólann að koma á námskeiðum úti um land. Talaði hún þar sérstaklega um nýtingu á skólahúsnæði úti á landi og fleiri atriði sem mundu verða miklu hagkvæmari ef þarna yrði um samvinnu og samnýtingu að ræða.
    Ég hef því flutt brtt. sem koma fram á þskj. 1216 þar sem lagt er til að
menntmrn. taki að sér það hlutverk sem félmrn. er falið samkvæmt frumvarpinu.
    Í 1. lið er talað um að í 3. gr. frv. muni síðasta málsgreinin hljóma þannig ef breytingin verður samþykkt, með leyfi forseta: ,,Nánari ákvæði um námsefni og námstilhögun skulu sett í reglugerð sem menntmrh. setur að fenginni tillögu skólanefndar og þá í stað félmrh.``
    Í 5. gr. er aftur talað um að félmrh. skipi sjö manna nefnd, en að öðru leyti kemur félmrh. ekki við sögu í þessu frv.
    Það hefði kannski verið eðlilegra að kveða ákveðnar á um þetta atriði og segja hreint út að skólinn heyrði beint undir menntmrn., en t.d. í lögum

um Skálholtsskóla, sem voru höfð til hliðsjónar við samningu þessa lagafrumvarps, er tekið fram að skólinn heyri undir menntmrn. en ekki kirkjumrn. sem hefði þá kannski verið eðlilegt ef sama stefna ætti að vera uppi og fram kemur í þessu frumvarpi.
    En ég tel að brtt. í 1. tölul. og 3. tölul. muni taka af öll tvímæli og tel það vera svo ótvírætt að það ætti að vera ljóst að þessi skóli heyrði þá undir menntmrn.
    Í 3. tölul. brtt. er síðan lagt til að í stað félmrn. sem á að ákveða námsframboð og reglugerðir verði það menntmrn. sem það muni gera.
    Ég tel þó ekki óeðlilegt að félmrh. eigi aðild að skólanefndinni. En í 5. gr. frv. er fjallað um hverjir skipa skólanefndina og er talað um að það verði sjö manna skólanefnd. Skulu fjórir nefndarmenn tilnefndir af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, einn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands og einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Í greininni er ekki gert ráð fyrir að menntmrn. eigi neina aðild að skólanefndinni þannig að þó að lagt sé til í 5. gr. að í stað orðsins ,,félagsmálaráðherra`` komi: menntamálaráðherra tel ég ekki óeðlilegt að félmrn. eigi aðild að þessari skólanefnd og hef því lagt til að félmrh. tilnefni einn í skólanefndina, en að Menningar- og fræðslusamband alþýðu tilnefni eingöngu þrjá nefndarmenn í stað fjögurra eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu til þess að talan sjö haldist þannig að skólanefndin verði áfram sjö manna eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Ég hef ekki talið ástæðu til að breyta því.
    Þar eð rekstrarkostnaður verður að fullu greiddur úr ríkissjóði ef þetta frv. verður að lögum telur 2. minni hl. sjálfsagt og gerir ráð fyrir að skólinn verði öllum opinn. Þetta er í samræmi við það sem kemur fram í nefndaráliti félmn. og var öll nefndin sammála um að þetta atriði væri sjálfsagt ef af þessari breytingu verður. Það er mjög óeðlilegt, ef ríkissjóður kostar til þessa skóla á sama hátt og annarra skóla, að hann sé ekki öllum opinn. En það mætti lesa út úr 1. gr. þar sem talað er um að á vegum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja starfi þessi skóli að hann sé ekki opinn öðrum þó svo að 2. gr. taki kannski af öll tvímæli, en þar segir: ,,Hlutverk skólans er að mennta fólk úr samtökum launafólks.`` Ég lít svo á að þarna verði um víða túlkun að ræða þannig að það séu ekki eingöngu félagsmenn úr þessum tvennum fyrrnefndu launþegasamtökum sem hafa aðgang að skólanum.
    Í frumvarpinu er ekki talað um skilyrði fyrir skólavist. Í lögum um Skálholtsskóla, sem ég hef minnst á og eru sögð vera höfð til hiðsjónar, er tekið fram hverjir geta fengið skólavist og er ekki takmörkuð innganga í skólann. Það er eingöngu aldurstakmark og að nemendur hafi lokið skyldunámi, en það eru ekki aðrar takmarkanir svo sem eins og það að vera í þjóðkirkjunni eða eitthvað þess háttar þó svo þetta sé skóli kirkjunnar. Þess vegna verður að túlka þetta þannig að skólinn verði öllum opinn eins og meiri hl. nefndarinnar gerir í sínu nál.
    Jafnframt verður að líta svo á að um stofnkostnað

kennsluhúsnæðis gildi sömu reglur um þennan skóla og aðra skóla á framhaldsskólastigi varðandi kostnaðarskiptingu þegar lög um framhaldsskóla koma til framkvæmda. Þetta er eitt af þeim atriðum sem voru rædd í nefndinni. Þetta ákvæði kemur fram í 8. gr.: ,,Þó skal framlag ríkissjóðs samkvæmt stöðlum A og B hér að framan miðast að hámarki við kostnað í ríkisskólum á framhaldsskólastiginu.`` Þetta er svipað og gildir um Skálholtsskóla, Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann þar sem sams konar ákvæði eru í lögum. Vegna þess að þetta var til umræðu í nefndinni var farið að líta aðeins á þetta og talið ótvírætt að um þennan skóla ættu að gilda sömu reglur og um aðra.
    Í lögum um framhaldsskóla sem samþykkt voru á Alþingi 9. maí 1988 er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði 60% kostnaðar og í 37. gr. laganna segir, þar sem talað er um Verslunarskólann og Samvinnuskólann, að ,,um fjárveitingar úr ríkissjóði gilda sömu ákvæði og um aðra framhaldsskóla varðandi rekstrar- og stofnkostnað, sbr. 3. og 32. gr., enda hafi menntmrn. samþykkt áætlun um rekstur skólanna og fé verið veitt á fjárlögum fyrir stofnkostnaðinum. Framlög ríkisins samkvæmt þessari grein miðast við að skólar þessir starfi í samræmi við meginstefnu þessara laga og samkvæmt námsskrá og reglugerðum sem settar verða.``
    Mér er ekki alveg ljóst hvernig þetta mun koma út þar sem ekki er talað um
menntmrn. í þessu lagafrv., en í 38. gr. laganna um framhaldsskóla segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ákveður framlag ríkissjóðs til skóla á framhaldsskólastigi sem stofnaðir eru af einkaaðilum eða samtökum með hliðstæðum hætti og nú er um Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann, enda uppfylli þessir skólar sams konar skilyrði um námsframboð og kennsluskipan og hafa hlotið starfsleyfi menntmrn. Ekki eiga einkaskólar kröfu til styrks af almannafé.``
    Ég lít þess vegna svo á þar sem vitnað er svo mikið til greinargerðar um Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann að þetta sé sambærilegt.
    Ég fjölyrði ekki svo mikið um þetta nú eingöngu vegna þess að ég lít svo á, eins og fram hefur komið, að þessi skóli eigi að falla undir menntmrn., ekki síst með tilliti til þeirra breytinga sem virðast eiga að fara fram á skólanum. Talað er um að hann muni breyta um starfssvið og verða eins konar lýðháskóli og þá væntanlega taka upp kennslu á miklu víðara sviði en hann hefur gert. Þá tel ég að það sé mjög mikilvægt fyrir nemendur þegar þeir fara í slíkan skóla að þeir geri sér grein fyrir sínum rétti og viti á hvern hátt námið sem þeir eru að fara í er metið til áfanga í framhaldsnámi. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þessi skóli lúti sömu reglum og aðrir skólar og falli undir menntmrn.
    Mig langar í þessu sambandi til að benda á eitt mál sem kom fram á 108. löggjafarþingi um fullorðinsfræðslu sem tengist þessu máli á vissan hátt. Sérstaklega hef ég þá í huga þá breyttu skipan sem

þarna virðist eiga að vera á Félagsmálaskólanum. Ég er þá ekki að tala um það starfsform sem núna er heldur það sem virðist eiga að taka upp. Það er till. til þál. um fullorðinsfræðslulög en 1. flm. var Guðrún J. Halldórsdóttir sem hefur starfað mjög mikið að þessum málum. Hún hefur lýst yfir, og ég tek mjög undir það, ánægju sinni með þennan skóla sem ASÍ hefur starfrækt og telur hann vera mjög mikilvægan sem hluta af fullorðinsfræðslu. Mig langar aðeins til að minna á þetta í þessu sambandi án þess að ég ætli að fara nánar út í þetta og benda á að í tillögum sínum hafði hún gert ráð fyrir að hluti af fullorðinsfræðslu væri félagsleg menntun í tengslum við atvinnulífið m.a. og í samvinnu við heildarsamtök launþega. Hún er mjög hlynnt því starfi sem þarna er unnið og sem við reyndar erum allar kvennalistakonur, en við teljum varhugavert að kljúfa þetta frá hinu almenna menntakerfi. Það er það sem ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á.
    Ég ítreka að ég er mjög hlynnt því starfi sem þarna fer fram og hef þar af leiðandi talið eðlilegt að styðja frv. þó að mér sé ekki alveg ljóst af hverju það er svo mikilvægt fyrir þennan skóla að hafa lög. Það er ekki svo að ég telji að það muni verða honum til trafala. En ég efast því miður um að þetta verði honum til eins góðs og virðist vera talið af þeim sem að þessum skóla standa og kom fram m.a. í þeirri blaðagrein sem ég vitnaði til áðan.
    Mig langaði að lokum, herra forseti, að vekja athygli á því að þær athyglisverðu ábendingar sem komu fram á fundum nefndarinnar voru flestallar í þá átt að á frv. þyrfti að gera verulegar breytingar. Því miður taldi meiri hl. félmn. sér ekki fært að gera það af einhverjum ástæðum sem ég skal ekki fara út í hér. Þeir geta sjálfir skýrt það. Því miður er það oft þannig að við erum neydd til að afgreiða mál sem kannski meiri hluti nefndar telur að væru betur komin á annan hátt án þess að vera á neinn hátt á móti þeim sem slíkum.