Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Föstudaginn 19. maí 1989

     Eggert Haukdal:
    Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir afgreiðslu málsins. Ég hefði að sjálfsögðu viljað að hún hefði tekið fullkomlega undir frumvarpið og mælt með því, en eigi að síður er þetta nokkur afgreiðsla. Í nefndarálitinu segir:
    ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið í stjórnarsáttmála sínum að koma í veg fyrir víxlhækkun verðlags og lánskjara.`` Í þessu hefur blessaðri ríkisstjórninni gengið illa til þessa. En ég undirstrika næstu setningu hv. nefndar: ,,Það verður ekki gert nema með afnámi lánskjaravísitölu að ná þessu markmiði.`` Þarna eru stór orð sett fram af merkum þingmönnum á hv. Alþingi og ég vil undirstrika þá skoðun þeirra sem þarna kemur fram. Þeir eru sumir, þessir blessaðir menn, í stjórnarliði og er þess að vænta að þeir fylgi því eftir að ríkisstjórnin afnemi lánskjaravísitölu.
    Hæstv. forsrh. hefur margsagt um það mál sem hér liggur fyrir að það sé eitt hið merkasta mál sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Ég undirstrika þessi orð hans og vona að hann og stjórnarliðið taki til óspilltra málanna.
    Frá því að þetta frv. var lagt fram í fyrra og endurflutt nú hefur það haft mjög góð áhrif og það hefur verið unnið eftir því nánast að hluta frá því að það var lagt fram. Það er í 4. gr. lagt til að taka upp gengistryggingu sparifjár. Það hefur verið heimild í Ólafslögum allt frá því að þau voru sett að þetta yrði notað. Það var ekki framkvæmt fyrr en með reglugerðarákvæði hæstv. viðskrh. Jóns Sigurðssonar, ekki fyrr en eftir að þetta frv. var lagt fram. Á þessu vil ég vekja athygli.
    Ég þakka nefndinni og endurtek þakkir fyrir afgreiðslu málsins. Ég vona að hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórn taki nú til hendinni í þessu máli og afnemi lánskjaravísitölu.