Framhaldsskólar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. 1. minni hl. menntmn. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. menntmn. á þskj. 1270. Eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. nefndarinnar, hv. 4. þm. Norðurl. v., er hér um mál að ræða sem ástæða hefði verið til að kynna sér og athuga dálítið betur, en menntmn. þessarar hv. deildar fékk ekki nema rúman klukkutíma í morgun til að fjalla um málið og verður að segja að það var hvergi nærri upplýst, þetta mál, og ýmis vafaatriði varðandi framkvæmd þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Það er með öllu ófært og ég vil ítreka það sem allt of oft er sagt á hv. Alþingi að málsmeðferð hinna þýðingarmiklu mála er fyrir neðan allar hellur. Mál þetta var mjög seint fram komið og síðan er ekki gefinn nema klukkutími til að fjalla um málið þegar það er knúið út úr nefnd.
    Ég vek líka athygli á því að hæstv. menntmrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu. Mér er kunnugt um að hann er ekki í bænum og ég geri ekki kröfu til þess að hann verði viðstaddur þessa umræðu og hann veit það, en ég bendi þó á hversu mikið flýtisverk er hér á ferðinni að knýja þetta mál fram hvað sem það kostar á þeim stutta tíma sem eftir lifir þingsins.
    Undir álit 1. minni hl. ritar auk mín hv. 3. þm. Reykv. Ragnhildur Helgadóttir og ég vil leyfa mér að lesa álitið upp:
    ,,Á sl. vori voru sett heildarlög um framhaldsskóla. Á bak við þá lagasetningu var mjög mikil vinna ótal aðila svo árum skipti. Það hafði því verið mikið vandaverk að samræma sjónarmið og laða menn til samstarfs, svo ólíkar skoðanir sem uppi eru og hafa raunar alltaf verið uppi um stefnu í skólamálum og framkvæmd hennar, verkaskiptingu milli skólastiga og milli skóla á sama skólastigi og loks milli ríkis og sveitarfélaga. Það gat því enginn búist við því að allir yrðu að öllu leyti ánægðir með framhaldsskólalögin. Á hinn bóginn er vafalaust að sú skoðun sé yfirgnæfandi meðal skólamanna að nauðsynlegt sé að látið verði á þau reyna áður en þeim er breytt, en óráðlegt að hlaupa til nú með hvatvíslegar breytingar þó svo að nýr maður hafi sest í stól menntmrh. sl. haust. Það sýnir best hvílíkt flýtisverk frumvarpið er að það var fyrst í þriðju prentun sem ráðherra hafði gert upp við sig hver endanleg gerð þess yrði. Þá er ósamræmi í texta 7. gr. frv. og greinargerðar sem ekki hefur verið skýrt.
    Lögin um framhaldsskóla byggjast á margvíslegum málamiðlunum sem mjög erfitt var að ná. Það er þess vegna í senn ótraustvekjandi og lýsandi fyrir vinnubrögðin að þess skuli hvergi getið hver samdi frv. né hvernig það er undirbúið. Hitt liggur ljóst fyrir að með frv. er dregið úr sjálfstæði skólanna og horfið frá þeirri stefnu, sem hvarvetna hefur gefist vel, að láta sveitarstjórnir skipa meiri hluta skólanefnda og treysta þannig samstarf skólanna við borgarana.
    Frv. kom seint fram og hefur ekki hlotið þá faglegu umfjöllun í nefnd sem nauðsynleg er. Nefndin fjallaði um málið á einum fundi sem stóð í rúman klukkutíma. Enginn fulltrúi kennara hefur fjallað um

málið og sagt álit sitt á því og er þó ljóst að með frv. er verið að breyta verulega réttarstöðu kennara að því er snertir ráðningu þeirra. Stefnt er að því að að fella niður setningu í störf og gera skipun að undantekningu. Aðalreglan verði hins vegar ráðning, en samkvæmt stjórnarfarsrétti er það mun laustengdara samband milli ríkis og starfsmanna en skipun og jafnvel setning. Það er vítavert að slík grundvallarbreyting sé samþykkt án nokkurs samráðs við samtök kennara. Þá hefur komið fram að Samband ísl. sveitarfélaga hefur lýst andstöðu við 4. gr. frv.
    Þá er og ljóst að mjög eru skiptar skoðanir um flest aðalefnisatriði frv. og alls ekki hafa fengist skýringar á þeim atriðum.
    Með hliðsjón af framansögðu leggur 1. minni hl. til að frv. verði afgreitt með svohljóðandi rökstuddri dagskrá:
    Þar sem ekki hefur fengist reynsla af lögum um framhaldsskóla og frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur hvorki fengið nægilegan undirbúning né þá faglegu umfjöllun sem ætlast er til af þingnefndum er frv. vísað frá og næsta mál tekið á dagskrá.``
    Við 1. umr. þessa máls gerði ég mjög ítarlega grein fyrir þeim efnisatriðum sem fjallað er um í þessu frv. og afstöðu minni til þeirra efnisatriða og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem ég sagði þá í langri og ítarlegri ræðu. Ég vil hins vegar benda á að það er ljóst að það hafa orðið mikil sinnaskipti hjá ýmsum stjórnmálaflokkum varðandi þetta mál. Þannig hafa Alþfl. og Framsfl. kúvent í afstöðu sinni til mikilvægra þátta í sambandi við framhaldsskóla með því að samþykkja frv. sem hér liggur fyrir og Alþb. er mjög á reiki um sína stefnu. Það kom reyndar glögglega í ljós á þinginu í fyrra að það var flutt sérstakt frv. um framhaldsskóla sem hv. 4. þm. Norðurl. v., frsm. meiri hl. nefndarinnar, var 1. flm. að og þær brtt. voru fluttar að miklu leyti hér í Nd. Síðan voru fluttar aðrar brtt. í Ed. sem gengu í allt aðrar áttir þannig að það er ljóst að Alþb. á mjög erfitt með að fóta sig í þessum mikilvæga málaflokki þar sem eru framhaldsskólar og framhaldsskólalög.
    En ég vil að lokum ítreka og leggja alveg sérstaka áherslu á það að nú á
þessum viðkvæma tíma þegar kjarasamningar kennara hafa staðið yfir alveg þar til í gær hefur því verið alfarið neitað að fá kennara til viðtals um þetta mál, þ.e. framhaldsskólakennara. Að vísu var fulltrúa þeirra gefinn kostur á að koma á fundinn í morgun, en þar sem mjög er annasamt í skólunum eftir langt verkfall tókst ekki að fá fulltrúa kennara til viðtals. En auðvitað hefði ekki átt að afgreiða þetta mál öðruvísi en ræða um það við kennara og ekki síst vegna þess að í þessu frv. er veruleg breyting á réttarstöðu kennara. Ég vek sérstaklega athygli á því. Það er verið að hverfa frá því að um setningu í stöðu geti verið að ræða og því jafnframt lýst yfir á nefndarfundi í morgun eins og sjá má í greinargerð að skipun í stöður mun heyra til undantekninga eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt, en hins vegar tekið upp það sem kallað er ráðning og hana munu

skólameistarar framkvæma, en við vitum að á þessu er verulegur munur. Ég vil í þessu sambandi vitna í Ólaf Jóhannesson í hans stjórnarfarsrétti þar sem hann skýrir hvað átt er við þegar fjallað er um það í lögum um opinbera starfsmenn að starfsmenn geti ýmist verið skipaðir, settir eða ráðnir í störf. Hvert þessara orða hefur sína sjálfstæðu og ákveðnu merkingu. Nú er sem sagt verið að hverfa að því að kennarar verði ráðnir af framhaldsskólum, þ.e. það verði um mun laustengdari samskipti að ræða milli ríkisins og viðkomandi starfsmanna, væntanlega þá með ráðningarsamningum sem verða þá gerðir milli hvers einstaklings og viðkomandi skóla eða ráðuneytisins. Það hefur heldur ekki fengist upplýst.
    Nú kann vel að vera að það geti verið skynsamlegt að flytja að þessu leyti valdið frá ráðuneytinu yfir í skólana og segja má að kannski hafi skólarnir fyrst og fremst unnið að því að fá til kennara en ráðuneytið sett á það sinn stimpil, en að gera slíka grundvallarbreytingu á réttarstöðu heillar stéttar án þess að gefa henni kost á að fjalla um málið og segja sitt álit á því hér fyrir Alþingi held ég að sé algert einsdæmi og vítaverð vinnubrögð á þessum viðkvæma tíma nú daginn eftir að kjarasamningar hafa verið gerðir við þessa stétt. Þetta vil ég sérstaklega leggja áherslu á.