Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1291 frá meiri hl. fjh.- og viðskn.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund til viðræðna um málið Jóhannes Nordal seðlabankastjóra, Bjarna Braga Jónsson aðstoðarseðlabankastjóra, Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, Lárus Ögmundsson, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, og Guðlaug Stefánsson frá Landssambandi iðnaðarmanna.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt. Nefndin sem heild flytur hins vegar á sérstöku þingskjali, 1292, fjórar breytingartillögur.`` Og ég ítreka það að nefndin stendur sem heild að þeim breytingartillögum sem á þskj. 1292 eru.
    Fyrsta breytingin sem þar er lögð til er við 4. gr. frv. og felur í sér að fleiri tollskrárnúmer verði undanþegin vörugjaldi en í sjálfu frv. er. Önnur breytingin varðar tekju- og eignarskattslögin og felur í sér þá breytingu að við álagningu eignarskatts skuli skipta eignarskattsstofni eftirlifandi maka sem situr í óskiptu búi og reikna eignarskatt hans eins og hjá hjónum væri næstu fimm ár eftir lát maka. Þriðja breytingin er vegna síðastnefndu breytingarinnar og felur í sér að ákvæðin skuli koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1989, þ.e. það er ætlan nefndarinnar að við álagningu 1989 komi þessar breytingartillögur til framkvæmda vegna tekna og eigna á árinu 1988, en ekki lengra aftur í tímann. Fjórða breytingin er bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að við gildistöku laganna verði fjmrh. heimilt að fella niður vörugjald og jöfnunargjald á aðföngum til fiskeldis- og loðdýraræktar.
    Stefán Valgeirsson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti því sem ég hef mælt hér fyrir, en undir þetta álit rita Páll Pétursson, Matthías Bjarnason með fyrirvara, Ragnar Arnalds, Jón Sæmundur Sigurjónsson og Guðmundur G. Þórarinsson.