Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna síðustu orða vil ég aðeins fá tækifæri til að leiðrétta að bréfið sem ég las áðan var raunar ekki til Ríkisendurskoðunar heldur til hæstv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar. En það kann að vera hárrétt hjá hv. 4. þm. Vestf. að við hefðum átt að senda skriflegt erindi til Ríkisendurskoðunar. Það gerðum við að vísu ekki. Ég svaraði hæstv. fjmrh. með þessu bréfi og lagði þá í hans hendur hvernig hann héldi þessu máli áfram. En það kann vel að vera að það hefði verið rétt að leggja á það áherslu með öðru bréfi að forseti teldi þetta ekki vera gerlegt á þennan veg sem um var beðið.