Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Erindi mitt hingað upp í ræðustól var að taka mjög eindregið undir orð hv. 4. þm. Reykn. Það er mjög algengt að menn greini hér á og það harkalega um einstök atriði, atriði sem kannski varða afgreiðslu mála framkvæmdarvaldsins gagnvart tilteknum fyrirtækjum eða einstaklingum eða hvernig beri að skilja hina og þessa hluti sem frá stjórnarflokkum, stjórnarandstöðu eða ríkisstjórn koma eða handhöfum framkvæmdarvalds. Ég tel að það sé nokkuð alvarleg þróun, sem hefur orðið hér á síðustu dögum og vikum, þegar þingmenn hafa hneigst til þess að kalla til Ríkisendurskoðun í slíkum deilum til að brúka hana sem nokkurs konar hæstarétt um slík ágreiningsmál sem oft kunna að vera þannig vaxin að það er ógerningur að leggja mat á hvort einhver hlutur hafi verið gerður með ,,eðlilegum hætti`` eða ekki. Þetta er mjög varhugavert og við eigum ekki, alþingismenn, að draga Ríkisendurskoðun, sem er stofnun á vegum Alþingis, inn í slíkar deilur í þinginu.
    Það vill svo til, virðulegur forseti, að ég er ekki með íslensku útgáfuna af þingsköpum heldur þá dönsku. Ég verð að notast við hana því að hina hef ég einhvers staðar lagt frá mér. En í 30. gr. þingskapalaganna, sem ég býst við að sé sú sama á íslensku og í dönsku útgáfunni, segir: Níu þingmenn geta óskað skýrslu ráðherra um opinbert málefni. Skal beiðnin vera skrifleg o.s.frv. Hér er um það að ræða að alþingismenn níu talsins geta krafið handhafa framkvæmdarvalds um skýrslu um opinbert málefni. Ég tel að það þurfi að skoða og það mjög vandlega hvort rétt sé að opna fyrir það að slíkar kröfur um skýrslur sé hægt að gera til Ríkisendurskoðunar og fela henni að senda hingað inn á Alþingi kannski ótölulegan grúa af skýrslum um málefni sem eru deilumál á milli flokka eða einstaklinga hér í þinginu þar sem menn hneigjast til að nota þessa stofnun, Ríkisendurskoðun, sem einhvers konar hæstarétt eða dómara í slíkum deilum. Ég held að það hafi aldrei, virðulegi forseti, verið hugmyndin með starfi Ríkisendurskoðunar á vegum löggjafarstofnunarinnar og ég held að við ættum ekki að skapa þá hefð vegna þess að þingsköpin gera ekki ráð fyrir því að slík framkvæmd sé möguleg.