Ályktunarfær þingfundur
Föstudaginn 19. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það var síst ásetningur minn að vefengja úrskurð forseta. Hann var hárréttur að öllu leyti. Það voru 20 sem greiddu brtt. félmn. atkvæði sem er meira en það lágmark sem tilskilið er og brtt. þannig samþykkt. Það var aðeins sú umræða sem fram fór á eftir þar sem það flaug fyrir að unnt væri að afgreiða ályktun frá Alþingi með einu jákvæðu atkvæði ef allir aðrir, nógu margir, 31 þm. hið minnsta sæti hjá við þá atkvæðagreiðslu. Það var þetta sem varð til þess að ég óskaði eftir að minna á þessi ákvæði þingskapanna. Það þarf minnst 17 samkvæmt mínum skilningi á þessari grein til þess að þessi ályktun sé afgreidd af hálfu þingsins jákvætt. Það gerðist hér og ég vefengi ekkert af því sem forseti úrskurðaði um þetta efni. Það var allt rétt.