Byggðastofnun
Föstudaginn 19. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu og sérstaklega vegna þess að hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason flutti ræðu sem ég get tekið undir í einu og öllu og fer ekki að endurtaka á þessum kvöldfundi það sem hann sagði. Hins vegar er mitt erindi í ræðustól að minna á að það var ásetningur hæstv. ríkisstjórnar að mál stæðu með öðrum hætti en nú er. Það var ásetningur, og raunar meira en ásetningur, það var fyrirheit, að raunvextir væru komnir niður í 6% fyrir áramót. Þeir eru nú á bilinu 7,25% og upp í 9,25% í bönkunum og því miður er allt útlit fyrir að vextir fari nú enn hækkandi.
    Ég vil líka minna á að í mörgum byggðarlögum er þannig ástatt að það hefur ekki verið hægt að leysa þau mál þannig að ef ekkert verður frekar að gert eru taldar líkur fyrir því að einhvers staðar á milli 7 og 14 fyrirtæki verði gjaldþrota. Þetta finnst mér alveg óviðunandi. Ég ætla aðeins að minnast á að á fundi sem hæstv. forsrh. mætti á í Kópavogi að ég hygg í fyrstu viku apríl er haft eftir honum að það séu ekki nema 2--3 mánuðir til stefnu til að taka á þessum málum. Ég mun hafa tekið undir þessi orð hæstv. forsrh. sem munu hafa komið í fjölmiðlum. Ég verð að segja að ég finn nú mjög og heyri hljóðið í mörgum íbúum þessa lands, sérstaklega úti á landsbyggðinni, sem eru að verða örvinglaðir og sumir segjast ekki geta unnið fyrir áhyggjum og gera ekkert annað en reyna að bjarga málum dag frá degi.
    Ég vænti þess að áður en þessir þrír mánuðir eru liðnir verði tekið á málum og ég vil minna á að t.d. loðdýrabændur sem fóru út í þann atvinnurekstur að áeggjan stjórnmálamanna sjá fram á það nú ef ekki verður frekar að gert á næstu tveimur árum að þeir verði gjaldþrota og verði að hætta sínum rekstri. Það er alveg óviðunandi að slíkt gerist.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en ég árétta það hér og nú að það er að verða stutt eftir af hinum þremur mánuðum.