Byggðastofnun
Föstudaginn 19. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að svara nokkru af því sem hér hefur komið fram.
    Ég vil í fyrsta lagi taka undir það, sem kom fram fyrst hjá hv. 1. þm. Vestf. Matthíasi Bjarnasyni og einnig hjá hv. síðasta ræðumanni, að staða dreifbýlisverslunar er mikið áhyggjuefni. En ég vek athygli á því að hæstv. viðskrh. skipaði á sl. vetri nefnd einmitt til að gera úttekt á stöðu dreifbýlisverslunar og gera tillögu um hvernig þar mætti úr bæta og leitaði þá m.a. samstarfs við Byggðastofnun sem ég efa ekki að hv. síðasti ræðumaður þekkir til því að hann situr í stjórn þeirrar stofnunar. Sú niðurstaða mun liggja fyrir mjög fljótlega og verður þá tekin fyrir.
    Ég vil hins vegar segja að mér hefur stundum þótt undarlegt hvað Byggðastofnun hefur haft lítið frumkvæði að ýmsum mikilvægum málum sem gætu orðið til að snúa við byggðaþróun. Ég hef farið yfir fundargerðir Byggðastofnunar og þar er margt gott, mikið af lánum samþykkt o.s.frv., en ég lít svo á að Byggðastofnun eigi sjálf að hafa frumkvæði á hverju því sviði sem stjórn Byggðastofnunar telur að snúa megi hlutunum til betri vegar. Það eigi ekki að þurfa í öllum tilfellum ákvörðun ráðherra eða ríkisstjórnar.
    Ég vil taka undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e. að fjármagnskostnaðurinn er gífurlega mikið áhyggjuefni og ég hef sagt áður og segi enn að á þeim málum þarf að taka. Það hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar og mörgum mönnum í bankaráðum sem því eru fylgjandi að þvinga niður vexti. En það hefur ekki nægilegur árangur náðst. Það er hárrétt. Og maður spyr: Hvenær fara bankarnir að hugsa um að ná saman sínum endum öðruvísi en að hækka útlánsvexti? Af hverju má ekki lækka innlánsvexti eða draga úr kostnaði? Það eru sum fyrirtæki í landinu að gera það í erfiðleikunum og með stórkostlegum árangri. Þau hafa sagt upp mönnum og leitað allra leiða til að draga úr rekstrarkostnaði. Þetta eiga bankarnir vitanlega að gera líka og ég vil beina því til hv. þm., sem ég veit að sem formaður bankaráðs Búnaðarbankans hefur lagt hart gegn því að þar hækki vextir, að hann leggi nú lóð sitt á vogarskálina og þvingi þann banka til að verða fyrirmynd í sparnaði og ná saman endum á þann máta. Ég held nefnilega að það sé ýmislegt sem þingmenn og bankaráðsmenn og fleiri geta gert í þessu sambandi.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um byggðamálin. Ég sagði í upphafi að ég hefði gjarnan viljað ræða byggðamálin langtum ítarlegar en hér er tækifæri til. Ég nýt að vísu þess umfram aðra þingmenn sem ekki eru í Framsfl. a.m.k. að ég nýt góðra ráða frá hv. síðasta ræðumanni sem heldur okkur við efnið og segir okkur hvernig eigi að leysa þau mál. M.a. sannfærði hann mig um að ég ætti að fylgja þriðja stjórnsýslustiginu svo að hans orð hafa varla átt við mig í þessu sambandi.
    En við bíðum nú eftir lokaskýrslu Byggðastofnunar sem hún vann að að ósk fyrrv. hæstv. forsrh. um

þróun byggðamála og um tillögur til úrbóta. Við erum búnir að fá það sem er eins konar drög að þeirri skýrslu. Við höfum rætt það í ríkisstjórninni og munum ræða það ítarlega mjög fljótlega. Ég vil segja hins vegar strax að mér þóttu þær tillögur sem fylgja með ná afar skammt og ekki taka á þessum vanda. En við munum alveg tvímælalaust leita eftir samstarfi við Byggðastofnun um að taka á þessum málum á væntanlega nýjan máta sem nauðsynlegt er eins og þróun þessara mála er orðin upp á síðkastið. Ég tek undir hvert orð sem hér er sagt um alvarlega þróun byggðamála í landinu.