Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill upplýsa að hér er alvarlegur misskilningur á ferð. Til þess var forseti að tilkynna um frestun að unnt væri að ná atkvæðamagni til að leita afbrigða um að vegáætlun verði tekin á dagskrá. Var hugmyndin að fresta um stund þessari umræðu, leita afbrigðanna og halda henni síðan áfram. ( SkA: Til þess að hv. þm. gætu farið heim og lagt sig og sloppið við að fylgjast með?) Forseti getur ekki haldið mönnum með handafli í húsinu. En eftir reynslu heils þings hlýtur forseti að óttast það nokkuð að menn kunni að fara heim. Þess vegna telur forseti vissara að leita afbrigða meðan til er nægur atkvæðafjöldi í húsinu þannig að hér held ég að geti ekki verið mjög mikið við forseta að sakast.