Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að metast á um það hvaða mál eru grundvallarmál eða stærstu mál þingsins. Ég get látið í ljós þá skoðun að bæði skýrsla Byggðastofnunar og vegáætlun eru með veigameiri málum sem koma fyrir Alþingi. En ég bið menn um að slíðra sverðin. Við höfum unnið að því í sæmilega góðu samkomulagi, formenn þingflokka og forsetar þingsins, og haft um það það samráð sem við höfum getað við þingflokkana að reyna að ljúka þingstörfum með sæmilegum hætti skulum við segja. Við getum haft uppi gagnrýni á hvernig mál hafa þokast áfram. En það er einu sinni svo að það hefur verið tekin ákvörðun um það af þessum hópi manna og hæstv. ríkisstjórn, sem ræður því í raun og veru hvenær þingi skuli ljúka, að stefnt skuli að þinglausnum kl. 2 á morgun. Ég held að það hafi allir gert sér grein fyrir því að það kunni að þýða kvöld- og næturfund í þinginu. Því er hins vegar ekki að neita að það hefur dregist úr hófi að hefja umræðu um bæði skýrslu Byggðastofnunar og vegáætlun. Við höfðum gert okkur vonir um að hægt yrði að hefja umræðu um vegáætlunina þegar kl. 6 í dag, en af því gat ekki orðið af því að fundir í deildum tóku lengri tíma, sérstaklega í Nd., en menn höfðu ætlað.
    Ég legg eindregið til að við reynum að gera þetta með sæmilegum hætti að ljúka þingstörfum þó að við þurfum að vera hér fram eftir nóttu jafnvel og ég sé í sjálfu sér ekkert athugavert við það þótt leitað sé afbrigða fyrir því að vegáætlun eða tillögur sem liggja fyrir vegna hennar megi koma fyrir. Þótt það sé kannski ekkert sérstaklega gott til afspurnar er það nú einu sinni svo að menn hafa kannski misjafnlegan áhuga á þessum málum þótt stór séu og hafa ekki áhuga á að vera hér við þá umræðu, en ég hlýt að vona að þeir séu nægilega margir til þess að vera við því búnir að greiða fyrir því að þessi mál megi halda áfram og séu nægilega margir hér í þinghúsinu til þess að hægt sé að veita afbrigði ef þörf er á.
    Það er kannski vegna þess að ég hef átt hlut að þessu samkomulagi sem ég mælist eindregið til þess að menn bindist samtökum um að reyna að standa við það þannig að við getum lokið þingi á morgun.