Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að óvirða störf forseta eða gera honum erfiðara fyrir að stjórna fundum, en vegna ummæla hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, formanns þingflokks Sjálfstfl., vek ég athygli hans á því að sú breyting hefur á orðið síðan samkomulag var gert milli formanna þingflokkanna að hér stendur upp hæstv. forsrh. og deilir hart á Byggðastofnun. Ég tel að með því háttalagi hafi hæstv. forsrh. breytt þeim forsendum sem á var byggt.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, orðlengja þetta frekar, en ég vek athygli á því að þegar litið er á skýrslu Byggðastofnunar er um að ræða upphæðir sem skipta hundruðum milljóna. Eftir því sem ég best veit og þekki til úr þeirri atvinnugrein sem hefur notið best starfa og starfsemi Byggðastofnunar, sem er hraðfrystiiðnaðurinn, hafa verið gerðar ráðstafanir af hálfu þessarar stofnunar á sl. ári varðandi fjölda fyrirtækja, tugi fyrirtækja sem nema tugum milljóna á hvert fyrirtæki, þ.e. á hvert frystihús. Að deila á stofnunina fyrir að hafa gert ráðstafanir sem felast í fjárhagslegri endurskipulagningu með þeim hætti er mér gersamlega óskiljanlegt. Það að hæstv. forsrh. skuli ætla að kenna Byggðastofnun um að hún hafi ekki staðið sig í sínu hlutverki tel ég alrangt og ámælisvert. ( Forseti: Má ég biðja hv. þm. að hefja ekki efnisumræðu.) Já, ég skal ljúka máli mínu, en ég undirstrika það, virðulegi forseti, að í þessari skýrslu komu fram efnisatriði sem eru þess eðlis að ég tel ámælisvert að hæstv. forsrh. skuli hafa deilt þannig á þessa stofnun sem er rekin á hans ábyrgð með þeim hætti sem hér hefur fram komið. Þess vegna hefði ég óskað eftir, virðulegi forseti, eins og ég gerði áðan og fleiri þingmenn hafa gert, að þetta mál fengi ítarlega umfjöllun með sérstöku tilliti til þess og þeirrar vondu stöðu sem íslenskur hraðfrystiiðnaður er enn í og fjöldi fyrirtækja í strjálbýlinu.