Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að auðvitað þurfum við að fara að hugsa lengra fram í tímann. Ég hélt að hún mundi nefna lengra fram í framtíðina. Aldamótaáætlunin er alveg greinilega komin á borðið hjá Vegagerðinni. Ég tek undir með henni að það er sannarlega tími til kominn að fara að hugsa hærra og lengra en við höfum gert kannski í vegamálum almennt.
    Ég vil aðeins nefna nokkur atriði í sambandi við þessa vegáætlun og ég ætla að nefna það í leiðinni vegna þess sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði áðan eins og margt sem hann sagði ágætt að auðvitað er það leitt hvað langan tíma hefur tekið að koma saman þessari niðurstöðu í vegáætlun, en ég vil aðeins nefna það í leiðinni að ég held að það sé leitun að því að vegáætlun hafi verið samþykkt á Alþingi fyrr en komið er fram í maí. Ég leit lauslega yfir það fyrir nokkru og ég sá það að síðasta verkefni Alþingis hafði yfirleitt verið vegáætlun. Oft hefur það verið í maímánuði án þess að ég sé að draga það fram hér sem afsökun fyrir þessari tímasetningu nú. En ég held að það sé líka ástæðulaust annað en draga það strax hér fram að meðferð vegáætlunar nú er með sérstæðum hætti eins og hv. þm. nefndi hér. Það hefur aldrei áður skeð að ríkisstjórn hafi tekið svo stóra ákvörðun að ákveða að taka af þeim tekjustofnum sem Vegasjóður hefur, ákveðið strax í upphafi að taka af því fé tæpar 700 millj. kr. Þetta hefur sérstöðu og í sambandi við meðferð vegáætlunar nú miklu alvarlegri en nokkurn tímann áður. Það var þess vegna ekki að undrast að þeir flokkar sem standa að þessari ríkisstjórn voru í miklum vanda staddir hvernig þeir ættu að standa að þessari vegáætlun og eins og kom fram við fyrri umr. um vegáætlunina var ljóst að það var ágreiningur uppi um það meðal annars t.d. hvort það ætti að taka 200 millj. kr. af óskiptu eftir niðurskurðinn og láta það í stórverk við Ólafsfjarðarmúla sem ekki hafði verið gert ráð fyrir að fjármagna í vegáætlun 1988.
    En af því að ég var að nefna hv. 2. þm. Norðurl. v. vil ég segja að það var svo sem ekkert leyndarmál að það var ágreiningur meðal stjórnarsinna, sem kom fram strax við fyrri umr. vegáætlunar, um það hvernig við ættum að vinna að þessu atriði. Hefur farið talsverður tími í það. Það er ekkert leyndarmál. En niðurstaðan varð sú að það varð samstaða um þrátt fyrir allt að fá inn í Vegasjóð 320 millj. og þar af 220 af því sem Vegasjóður átti inni hjá ríkissjóði og hafði ekki verið skilað og ekki gert ráð fyrir í vegáætluninni eins og hún lá fyrir þegar hún var lögð fram að því fé yrði skilað. Ég fagna þeirri samstöðu sem tókst um það atriði og ætla ekki að fara fleiri orðum um það. Ég vil líka geta þess í leiðinni að skiptitölur í kjördæmi lágu fyrir strax þegar vegáætlun var lögð fram og vegamálaskrifstofan eða vegamálastjóri gerðu grein fyrir því strax við fyrstu umræður í fjvn.
    En ég vil sérstaklega taka undir með hv. 2. þm. Norðurl. v. að ég tel að það sé æskilegt markmið að

það verði hægt að vinna þannig að vegáætlun að öll nefndin standi saman um afgreiðslu hennar. En sú sérstaða sem kom upp vegna ákvörðunar nýrrar ríkisstjórnar að taka svona stóran hluta af mörkuðum tekjustofnun Vegagerðarinnar setti okkur í meiri hl. vissulega í mikinn vanda, hvernig við gætum náð lendingu sem væri a.m.k. þannig að við gætum fellt okkur við. Nóg um það, en ég vona að til þessa komi ekki aftur.
    Ég vil þá í leiðinni taka undir þá hugmynd sem minni hl. hefur sett fram í sínu áliti að taka til athugunar að breyta innheimtu þungaskatts sem ég er ekki í nokkrum vafa um að er ákaflega hörð skattheimta eins og er í dag og kannski óvissa um skil á þeim skatti eins og fram hefur komið. Væri eðlilegt að skoða það í tíma hvaða tillögur væri hægt að gera til að ná því markmiði.
    Mig langar aðeins til að rifja eitt upp í sambandi við þessa vegáætlun sem kemur að sjálfsögðu inn í þessar umræður núna vegna þess að við erum í raun og veru að tala um vissa stefnubreytingu í vegamálum miðað við þá langtímaáætlun sem hefur verið unnið eftir í vegamálum allt frá árinu 1981 þegar þetta var lagt fram á hv. Alþingi og hefur raunar verið notað sem leiðsaga um hvernig vegáætlun er unnin upp á hverju tímabili. Eins og menn vita var þetta tólf ára tímabil sem var sett upp og við erum núna komnir að síðasta tímabili í þessari langtímaáætlun. Eins og menn muna voru sett upp ákveðin markmið í sambandi við þetta, í fyrsta lagi að vegir hafi fullt burðarþol, 10 tonn allt árið, vegir séu byggðir upp úr snjó eftir því sem unnt er, bundið slitlag sé lagt á vegi þar sem gera má ráð fyrir að umferð verði meiri en 100 bílar á dag og að tekið sé tillit til umferðaröryggis við uppbyggingu veganna. Þetta hefur verið markmið sem Vegagerðin hefur reynt að vinna eftir og hún hefur náð með hagkvæmni og góðum vinnubrögðum mjög langt að því er varðar þriðja markmiðið, þ.e. bundið slitlag, þannig að það hefur tekist að vera á undan áætluninni hvað þetta varðar.
    Ég vil líka rifja það upp eins og kemur fram í fylgiskjölum með vegáætluninni frá vegamálaskrifstofunni eða vegamálastjóra að það eru 1153 km af stofnbrautum landsins sem eru innan við það burðarþol sem gert er ráð fyrir sem markmið númer eitt, þ.e. 10 tonna öxulþunga. Þetta finnst mér mjög alvarleg staða og ég get ekki lýst því öðruvísi en að mér finnst það vera
alvarleg staða að við skulum enn vera svo langt frá að ná þessu meginmarkmiði og þess ber að gæta að stór hluti af þessum 1153 km eru raunverulega í öllum kjördæmum landsins dýrustu kaflarnir sem er eftir að byggja upp. Hvers vegna er ég að rifja þetta upp hér nú? Ég geri það vegna þess að við erum að leggja til núna að fara í stórverkefni sem ég er að sjálfsögðu hrifinn af. Það er mál til framtíðar og ég fagna alveg sérstaklega því, sem ég veit að öll fjvn. stendur einhuga að, að það hefur tekist samstaða um að leggja ákveðið til að endurskoðun á langtímaáætluninni hefjist strax á þessu ári og það

verði haft að markmiði að ná fram þeirri stefnu sem tekin var upp 1981 bæði í stofnbrautum og þjóðbrautum. Það þarf ekki að rifja upp að þetta var nokkuð sem ég lagði áherslu á við fyrri umr. vegáætlunar og ég tel að það sé mjög mikilvægt að hafa til hliðsjónar þegar við erum að hefja stórverkefni næstu ára. Það er ekkert leyndarmál einnig að í þessum málum höfum við verið langt á eftir að sinna því stórverkefni sem er höfuðborgarsvæðið. Það er ljóst að Reykjavík hefur verið að þenjast út en hefur aldrei svarað til þessa kröfum um úrbætur á því ófremdarástandi í umferðarmálum á svæðinu sem núna blasir við sjónum allra sem koma til Reykjavíkur.
    Hér verður að taka til höndum. Þess vegna er mjög gott að taka þessi mál öll saman og gera úr því stefnu, hvort sem það heitir stórverkefni eða annað, og setja það upp í áætlun sem síðan er unnið eftir.
    En það er mitt álit og ég endurtek það hér að ég held að um leið og við gerum slíka langtímaáætlun um stærstu verkefni í vegagerð verði menn að gera sér blákalt grein fyrir því að við náum ekki þessum verkefnum fram á eðlilegum verktíma, þar á ég við jarðgöng, stórbrýr og annað slíkt, með því að reikna einvörðungu með þeim tekjum sem Vegasjóður kemur til með að hafa eins og hann er uppbyggður, öðruvísi en að taka til þessa framkvæmdalán t.d. til 20 ára eða 30 ára. Ég held að menn eigi ekki að dylja þetta atriði vegna þess að það kemur að því að menn sjá að það fer enginn að bíða í átta ár eftir að bora í gegnum heiðar á Vestfjörðum, eftir að byrjað er á verkinu. Það verður að hafa miklu meiri hraða á því og sama er á Austfjörðum og sama er á stórverkum í sambandi við brýr yfir firði og annað slíkt. Ég er alveg viss um að það verður að gera ráð fyrir langtímalánum til þessara verka. Ef það er ekki gert óttast ég að framhaldið á almennum verkefnum og þjóðbrautum verði út undan miðað við þann hraða sem þarf að hafa í þessum stórverkum. Mér finnst nauðsynlegt að láta þetta koma fram strax. Það er ekki af því að ég sé að draga úr því að vera bjartsýnn og ráðast í þessi stóru verk, en ég vil bara vera raunsær og horfast í augu við það í upphafi að það er ekki hægt að gera þetta með 4--5 milljarða árlegum tekjum Vegasjóðs á næstu árum öðruvísi en gera ráð fyrir að þessi stórverk verði fjármögnuð að verulegu leyti með langtímalánum. Á það vil ég sérstaklega leggja áherslu. Það getur vel verið, af því að hæstv. ráðherra er hér í salnum og næstæðsti maður Vegagerðar, Helgi Hallgrímsson, til staðar, að það verði í þessu tilfelli að taka til athugunar hvort það sé ekki kominn tími til að breyta forminu á Vegagerð ríkisins þannig að hún hafi heimild til lántöku og þá jafnframt að hún fái beint inn þá tekjustofna sem ætlaðir eru vegagerð miðað við núverandi ástæður einnig, verði B-hluta stofnun.
    Mig langar til, virðulegur forseti, að koma aðeins inn á örfá atriði í viðbót, ég skal reyna að hraða máli mínu, en það er í sambandi við veginn um Gilsfjörð. Ég get ekki látið hjá líða að nefna það hér. Hann er

ekki á þessari vegáætlun á því tímabili sem við erum hér að ræða um öðruvísi en að vera í undirbúningi undir næstu stórverk. En mig langar til að nefna það hér, vegna þess að ég veit að það á eftir að verða mikil umræða á því svæði um þetta mál, að þegar ákveðið var að fá sveitarfélög í Austur-Barðastrandarsýslu til þess að sameinast í eitt sveitarfélag og einnig þegar var verið að vinna að því að fá sveitarstjórnarmenn í Dalasýslu til þess að sameinast í eitt sveitarfélag eða tvö var aðaláhyggjuefni hjá þeim og áhugamál vegurinn um Gilsfjörð. Þessi svæði hafa sameiginlega þjónustu á ýmsum sviðum og þau gætu verið eitt atvinnusvæði. Þetta eru frekar veik svæði, en þau settu fram strax í sambandi við þessa sameiningu að það yrðu gefnar yfirlýsingar um að það yrði unnið að því að hraða þessari framkvæmd. Ég nefni hér að ég tel að það þurfi að liggja alveg ljóst fyrir að það þarf að hraða þessari rannsókn, hún er dýrari en menn áttu von á, og það verði að gera ráð fyrir því að þessi framkvæmd verði a.m.k. fljótlega ákveðin sem næsta stórverk á þessu svæði. Ég gæti vitnað til hæstv. forsrh. um þetta mál og raunar fleiri þingmanna Vestfjarða sem gáfu þessi vilyrði og raunar höfum við þingmenn Vesturlands gert það allir í hóp. Þess vegna er þetta ekkert smámál og ég minni hæstv. samgrh. á það og ég veit að hann gerir sér grein fyrir því að það verður mjög hörð krafa um að þessari rannsókn ljúki og það liggi fyrir hvernig tillaga verður um þetta verkefni mjög fljótlega þannig að það sé hægt að undirbúa það á eðlilegan máta.
    Það hefur oft verið rætt um stöðu stofnbrauta og þjóðbrauta og sérverkefna og að það sé nauðsynlegt að flýta þeim framkvæmdum. Það hefur oft verið nefnt að það sé ákaflega óeðlilegt að fólk skuli ekki komast um á farartækjum um láglendið þar sem þessir vegir liggja, en því miður er þetta þannig að við
eigum þarna eftir stór verkefni.
    Eitt vil ég einnig nefna og það kom fram hjá formanni nefndarinnar og það eru sýsluvegirnir. Það var einnig í sambandi við verkaskiptingarmálin hjá sveitarfélögum mjög hörð krafa um að um leið og þessi þáttur færist yfir til ríkisins algjörlega og Vegagerðarinnar verði séð um það þegar verkaskipting er ákveðin að það framlag sem hefur komið frá sýslum eða raunar sveitarfélögunum komi þá inn til viðbótar við það framlag sem ríkið hefur lagt til á undanförnum árum. Þarna er eyða á næsta ári 1990 og eins og formaður fjvn. sagði réttilega í sinni ræðu er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að þetta verður að leysa fyrir næsta ár þannig að það komi ekki upp það mál í sambandi við stöðu sveitarfélaga að þau hafi verið skilin þarna eftir. Þarna er um að ræða fjárhæð upp á 50--60 millj. kr.
    Eitt mál sem hefur verið í umræðunni og kemur fram í mál. meiri hl. er í sambandi við það sem Vegasjóður á enn inni. Ég verð að segja það fyrir mína parta að mér finnst það alltaf fagnaðarefni ef Vegasjóður á örugglega inni tekjustofna sem hann er ekki búinn að fá inn en er ljóst að hann á heimtingu

á. Þar á ég við, eins og kemur fram í skýrslu frá Ríkisendurskoðun, um 219 millj. kr. sem eru óinnheimtar, aðallega af þungaskatti við sl. áramót. Nú hefur meiri hl. lagt til að 50 millj. kr. af því komi til skipta sem þegar er búið að setja inn í skiptingu. Að sjálfsögðu kemur meira til. Ég er í engum vafa um að stór hluti af þessum útistandandi skuldum í sambandi við þungaskattinn næst inn smátt og smátt. Að sjálfsögðu mun það koma inn í Vegasjóð jafnóðum og það innheimtist.
    En það var eitt mál sem kom upp einmitt út frá skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það var í sambandi við dráttarvextina. Það kom fram í skýringum Ríkisendurskoðunar úr ríkisbókhaldinu að það hafa verið innheimtar 70 millj. kr. í dráttarvexti af þungaskatti á árinu 1988 og er álitamál hvort Vegasjóður á ekki þessa fjárhæð. Ég taldi það skynsamlega ákvörðun sem tekin var í fjvn. eftir tillögu meiri hl. að fá óyggjandi úrskurð um það hvernig ráðstöfun á þessu fjármagni er og það liggi þá fyrir hvort Vegasjóður á ekki að fá þetta fjármagn óskipt.
    Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég held að það sé líka ástæða til að fagna því að núverandi ríkisstjórn og hæstv. samgrh. hefur lagt það fram sem ákveðna stefnu í þessari vegáætlun að tekjur Vegasjóðs samkvæmt lögum verði eftirleiðis ekki skertar við gerð fjárlaga. Er náttúrlega gott að fá strax hjá ríkisstjórn sem taldi sig neydda til að taka þetta fjármagn vegna ástands efnahagsmála á sl. ári skýrt fram um þetta. Ég held að þetta sé eitt grundvallaratriði sem verður að fylgja eftir. Það er í raun og veru tilgangslaust að tala um vegáætlun og framkvæmd hennar með nýjum framtíðaráætlunum og áformum ef ekki verður staðið við þetta atriði. Annars hefur vegáætlunin a.m.k. minna gildi en nauðsynlegt er. Ég treysti því að með vegáætlun nú sé endanlega tryggt að framvegis megi vegagerð á Íslandi fá það fjárhagslega öryggi sem fylgir þessum tekjustofnum um leið og ég endurtek það, sem ég sagði fyrr, að ég tel að það sé ekkert vafaatriði að við verðum að reikna með því að það þurfi að taka langtímalán til að ná því markmiði sem ákvörðun um stórverkin gera ráð fyrir. Um það erum við að sjálfsögðu, allir þingmenn, sammála því að ég þarf ekki að rifja upp, sem við höfum oft sagt hér, að við getum ekki hlaupið frá þeirri skyldu sem ekki síst var sett sem markmið í langtímaáætluninni sem fólkið í landinu fagnaði og við höfum lofað, sem höfum setið á Alþingi, að vinna eftir þessari langtímaáætlun með það að markmiði að allir aðalvegir landsins, ekki síst stofnbrautir, verði þannig úr garði gerðar að venjulegir flutningabílar geti farið um þá með nokkru öryggi allt árið. Það þarf ekki að endurtaka hvaða þýðingu vegakerfið á landinu hefur að þessu leyti til. Það er ekki búandi við annað.
    Ég vil svo að lokum þakka ágætt samstarf í fjvn. um þessi mál og ég endurtek það, sem ég sagði áðan varðandi ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v., að auðvitað er æskilegt að nefndin standi saman að afgreiðslu á svona áætlunum eins og um vegagerð sem er

þýðingarmikil og að því þarf að vinna. En aðstæður voru þannig að það var ákaflega erfitt að koma því við, a.m.k. á vissu tímabili meðan stjórnarsinnar voru að ná samkomulagi við ríkisstjórn og samgrh. um lendingu í þessu máli sem var ásættanleg miðað við þessar aðstæður.
    Ég vil einnig sérstaklega þakka samstarfið við vegamálastjóra og starfsmenn hans. Það hefur ekki brugðist, sem ávallt hefur verið viðurkennt, að Vegagerðin er sú stofnun sem kemst næst því að hafa alltaf á reiðum höndum þær upplýsingar sem maður þarf á að halda og hefur byggt upp upplýsingakerfi og rannsóknakerfi sem er til fyrirmyndar þó að það megi alltaf bæta þar um. En þetta hefur gífurlega mikla þýðingu í vinnu að vegáætlun og hefur sýnt sig að jafnvel með hverju ári þarf minni tíma til að koma formlegheitunum á en áður hefur verið og það er miklu aðgengilegra, eins og við sem vinnum að þessum málum þekkjum, en við flestar aðrar áætlunargerðir við framkvæmdir hér á landi. Þetta er þakkarvert og ber að viðurkenna.
    En ég vil segja að það sem mér finnst vanta í öll þessi mál er að það væri
hægt að vinna að stærstu verkum í vegagerð sem eru svo mikilvæg á þann hátt að það væri hægt að hafa þar stærri áfanga sem væri þá hægt að brúa með lántökum, bæði gegnum verktaka og aðrar aðgerðir. Það er orðið miklu meira mál að átta sig á því hvernig það er hægt en við höfum staðið frammi fyrir áður.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður lengur, en ég vildi láta þessi atriði koma fram við lokaumræðu.