Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Ég stend að nál. minni hl. fjvn. með fyrirvara. Fyrirvari minn við nál. er einkum vegna þess að ég tek ekki undir þá gagnrýni á vinnubrögð meiri hl. fjvn. sem nokkur áhersla er á lögð í nál. Að vísu hef ég ekki reynslu af vinnubrögðum sem tíðkast hafa um afgreiðslu vegáætlunar í fjvn. frá fyrri árum. En miðað við aðra hefðbundna afgreiðslu mála í fjvn. við undirbúning fjárlaga, bæði fyrir árið 1989 sem og 1988, finnst mér ekki vera hér um svo sérstakt tilefni til hneykslunar eða gagnrýni að ræða að verulega sé orð á gerandi.
    En um þetta mál, till. til þál. um vegáætlun 1989--1992, hafa allir alþingismenn svo sem venja hefur verið einmitt fremur tækifæri en í flestum öðrum málum hvað fjárveitingar varðar að koma að athugasemdum, tillögum og ábendingum á fundum þingmannahópa kjördæmanna. Ég vil raunar koma því atriði að í því sambandi að ég tel að einmitt þann þátt þessa máls, skiptingu á einstök verk, mætti gjarnan taka úr höndum þingmanna og færa í hendur annarra fulltrúa héraðsmanna og þá helst sveitarstjórnarmanna þannig að einungis gróf skipting í þessari áætlunargerð færi fram á Alþingi. Raunar er þessi þróun þegar orðin í embættismannakerfinu hvað þetta áhrærir. Umdæmisverkfræðingar á landsbyggðinni koma suður með upplýsingar sínar og tillögur og eftir þeim er vitaskuld að langmestu leyti farið.
    Borgfl. hefur lagt áherslu á að raunhæf skref væru stigin til þess að flytja verkefni og ákvörðunarvald heim í héruð svo sem lagt var til og raunar ákveðið um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í löggjöf sem hér var samþykkt fyrr í kvöld. Hér er hins vegar eitt veigamikið verkefni sem taka mætti sömu tökum.
    Eins og fram kemur í nál. minni hl. stendur minni hl. að sameiginlegum brtt. nefndarinnar með hefðbundnum fyrirvara þannig að í sjálfu sér er ekki ágreiningur um þann þátt þessa máls. Sömuleiðis lýsir minni hl. fylgi við þá meginnýbreytni sem þessi vegáætlun hefur í för með sér. Þar á ég við þær framkvæmdir sem áætlaðar eru um nýjar stórframkvæmdir. Sú nýskipan er þrískipt í áætluninni eins og mönnum er kunnugt, í jarðgöng, stórbrýr og aðkallandi stórverk á höfuðborgarsvæði. Hins vegar er meginágreiningur minni hl. fjvn. við meiri hlutann um skiptingu tekna Vegasjóðs fyrir árið í ár svo sem einnig kom berlega í ljós við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga fyrir árið 1989. Veitingu 682 millj. kr. af mörkuðum tekjum Vegasjóðs beint í ríkissjóð er sterklega mótmælt, ekki síst þegar haft er í huga að sum kjördæmi standa svo höllum fæti í þessu efni að þau hafa þegar unnið fyrir nánast alla fjárveitinguna sem verður á þessu ári.
    Ég fagna því hins vegar að áætlunin gerir ráð fyrir að tekjur Vegasjóðs verði óskertar þrjú seinustu ár áætlunartímabilsins og mun vafalaust ekki af veita við þau stórverkefni sem hvarvetna blasa við, hvort sem er á sviði jarðganga, stórbrúa ellegar á höfuðborgarsvæðinu, sem og að halda áfram samkvæmt langtímaáætluninni við stofnbrautir og

þjóðbrautir. En í áliti minni hl. fjvn. er það einmitt tekið fram, sem raunar kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl. og honum þótti ekkert sérlega mikið til koma, að við teljum að nauðsynlegt sé að hefja þegar endurskoðun langtímaáætlunar og leggjum áherslu á að þegar langtímaáætluninni lýkur 1994 verði lagt aukið fé í þjóðbrautir sem legið hafa eftir meðan aðaláherslan hefur beinst að stofnbrautunum. Það er auðvitað svo að þetta verður að vera með þeim hraða sem tekjur hrökkva til.
    En ég vil að lokum, hæstv. forseti, minna á eitt atriði í nál. minni hl. fjvn. sem ég tel afar þýðingarmikið og hv. 2. þm. Norðurl. v. lagði einnig áherslu á í sínu máli, en það er sú skoðun, sem lögð er áhersla á nokkuð aftarlega í álitinu, að við teljum einnig tímabært að fella niður álagningu þungaskatts á dísilbifreiðar sem hefur gengið úr hófi fram. Við teljum að það sé vænlegt að taka þess í stað upp skattlagningu á dísilolíu. Ég tel að þrennt mundi vinnast með þessum hætti. Í fyrsta lagi mundi dreifing verða meiri á tekjum og á þann hátt yrði kostnaðurinn léttbærari fyrir gjaldendurna. Í annan stað tel ég að skilin yrðu öruggari og undanskot yrði minna en nú er. En í þriðja og seinasta lagi tel ég að tekjurnar fyrir Vegasjóð yrðu meiri og mun eins og ég áður greindi sjálfsagt ekki af veita.
    En fyrir minn hlut þakka ég fyrir samstarf í fjvn., bæði við meiri hl. og minni hl., og hef svo ekki meira að segja að sinni.