Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað mér að svara nokkrum orðum atriðum í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v., frsm. minni hl., þar sem hann ræddi um vinnubrögð í fjvn., en hv. 6. þm. Suðurl. hefur að nokkru tekið af mér það ómak með því að gera grein fyrir því af hvaða ástæðu hann kaus að skrifa undir nál. það sem hv. 2. þm. Norðurl. v. mælti fyrir með fyrirvara. Get ég því nokkuð stytt mál mitt frá því sem ég hugðist ella flytja.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v., frsm. minni hl., vitnaði í ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar frá árinu 1977 og gerði þau orð sem hv. þm. Geir Gunnarsson lét þar falla um vinnubrögð í fjvn. að sínum. Í þeim tilvitnuðu orðum var m.a. sagt að þannig hafi meiri hl. fjvn. haldið á málum að hann hafi sniðgengið minni hl., bæði í skiptingu milli framkvæmdaflokka og skiptingu milli kjördæma, unnið það verk einn án afskipta minni hl. og kynnt síðan niðurstöður sínar fyrir minni hl., lagt þær fram til samþykkis. Hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði að þannig hefði hátturinn einnig verið hafður nú. Það er ósatt.
    Skipting milli framkvæmdaflokka í vegáætlun kom þegar fram í till. til þál. um vegáætlun sem lögð var fram af ríkisstjórninni hér á hinu háa Alþingi. Þessi skipting útgjalda er á bls. 2 í þeirri tillögu. Meiri hl. og fjvn. fóru yfir þessa tillögu til skiptingar á sínum fyrsta fundi. Þar kom m.a. fram tillaga um skiptingu á einstaka verkefnaflokka. Þeim tillögum hefur meiri hl. fjvn. í engu breytt. Við höfum haldið fast við þær tillögur sem þegar voru kynntar í till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1989--1992. Það er því ósatt með öllu að þarna hafi meiri hl. fjvn. sniðgengið minni hl. og ákveðið skiptingar á þessa verkefnaflokka án samráðs við hann. Það eina sem gerðist í meðferð fjvn. --- og þá legg ég áherslu á: nefndarinnar allrar --- á þessum málum var eins og kom fram í ræðu minni fyrr í kvöld að ákveðið var að afla 100 millj. kr. tekna með hækkun bensíngjalds um 1,25 kr. til þess að ráðstafa því fé í snjómokstur og í annan stað að ákveðin var hækkun á tekjuhlið þáltill. með 220 millj., 170 millj. fyrst, 50 millj. svo, sem ráðstafað var af fjvn. allri, ekki meiri hl., til framkvæmda við almenn verkefni. Það er því ósatt og rangt frá skýrt að meiri hl. nefndarinnar hafi afgreitt þessi mál án þess að láta minni hl. neitt með því fylgjast, af því vita eða hafa áhrif á og er þetta ein skýring á því hvers vegna hv. 6. þm. Suðurl. ritar undir nál. minni hl. með fyrirvara.
    Í annan stað voru þau tilvitnuðu orð sem hv. 2. þm. Norðurl. v. vitnaði í þau að hvað varðar skiptingu milli kjördæma hafi meiri hl. einnig sniðgengið minni hl. og tekið ákvörðun um skiptiprósentuna án afskipta minni hl. í fjvn. Þetta er rangt. Það vill svo til að þau plögg sem voru notuð til grundvallar þeirri skiptingu eru öll dagsett. Fyrsta plaggið er frá 14. mars og heitir ,,Skipting fjármagns milli kjördæma`` og var lagt fyrir fjvn. alla á hennar fyrsta fundi eftir að hún hafði fengið vegáætlunina til meðferðar. Næsta plagg er dags. 12. apríl. Það var einnig lagt fram á fyrsta fundi

fjvn. eftir að vegáætlun hafði verið lögð fram. Hún heitir ,,Skipting fjárveitinga til stofnbrauta 1989--1992. Hugmynd I. Forsendur.`` Næsta plagg er dags. 17. apríl. Það heitir ,,Þjóðbrautir. Skiptihlutfall á milli kjördæma.`` Sú tillaga var kynnt fjvn. á fundi þann 18. síðasta mánaðar, fyrir um það bil einum mánuði. Jafnframt var kynnt fyrir nefndinni hugmynd um skiptingu fjárveitinga til stofnbrauta.
    Öll þessi atriði lágu því fyrir og voru lögð fyrir fjvn. á hennar fyrsta og öðrum fundi um vegáætlun. Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu með því að tína þau plögg öll til. Ég er með þau öll hér. Þar voru einnig lögð fram öll undirgögn um þetta, svo sem eins og arðsemisútreikningar, kostnaðarútreikningar, útreikningar á burðarþoli o.s.frv. sem voru grundvöllur að tillögu Vegagerðar ríkisins um prósentuskiptingu milli kjördæma. Þetta var allt lagt fram og kynnt á fyrsta fundi fjvn. um vegáætlun og ég treysti því að allir fjárveitinganefndarmenn án undantekninga kynni sér þau gögn sem fyrir nefndina eru lögð. Það kom aldrei nein athugasemd, hvorki frá meirihlutamönnum né minnihlutamönnum, við þessar hugmyndir sem meirihlutamenn og minnihlutamenn sáu sama dag. Aldrei allan þennan mánuð, þennan heila mánuð, virðulegi forseti, sem menn höfðu þessar tillögur og þær hugmyndir um skiptiprósentu sem á þeim byggðust og þær forsendur sem þær voru byggðar á til meðferðar, komu fram, hvorki frá meiri hl. né minni hl., neinar beiðnir, hugmyndir eða ábendingar um breytingar þar á. Skiptingin milli kjördæma var afgreidd af nefndinni allri en ekki samkvæmt tillögu meiri hl. eins. Það er því ósatt, virðulegi forseti, að með mál hafi þannig verið farið af hálfu meiri hl. varðandi skiptingu milli kjördæma að hann hafi sjálfur ákvarðað þetta án afskipta minni hl. og vitneskju hans. Það er ósatt. Þau tilvitnuðu orð sem hv. 2. þm. Norðurl. v. viðhafði í ræðu sinni hér áðan frá hv. þm. Geir Gunnarssyni frá árinu 1977 eiga ekki við um þau vinnubrögð sem tíðkuð voru í fjvn. nú. (Gripið fram í.) Það er með öllu óréttmætt.
    Eins og ég sagði áðan er ég hér einnig með ýmsar þær upplýsingar sem lagðar
voru fyrir fjvn. og þær voru svo margar og ítarlegar, virðulegi forseti, að fjárveitinganefndarmenn komust ekki yfir að kynna sér þær allar, þurftu iðulega að spyrja einu sinni og jafnvel tvisvar um upplýsingar sem fyrir nokkru höfðu verið kynntar í nefndinni og lagðar til þeirra á vélrituðum skjölum. Þannig fengu fjárveitinganefndarmenn upplýsingar um stöðuna gagnvart ríkissjóði, um samskipti ríkissjóðs og Vegasjóðs. Ríkisendurskoðun vann sérstakar upplýsingar í þessu sambandi, sömuleiðis ríkisbókhald. Flestallar þær upplýsingar sem fjárveitinganefndarmenn báðu um voru unnar. En vitaskuld voru ýmsar sem ekki vannst tími til að vinna og m.a. þess vegna var tekin sú ákvörðun í fjvn., einnig einróma, ekki bara af meiri hluta heldur einróma, að fjvn. mundi mælast til þess að endurskoðun langtímaáætlunar mundi hefjast þegar á þessu ári m.a. til þess að leita eftir upplýsingum sem ekki var hægt að gefa í fjvn. um

stöðu í framkvæmdum þjóðbrauta og um líklegar horfur varðandi bæði stofnbrauta- og þjóðbrautaframkvæmdir að loknu því áætlunartímabili sem hér stendur yfir.
    Eins og hv. 1. þm. Vesturl. skýrði mjög glögglega áðan, varaformaður fjvn., ríktu mjög sérstæðar aðstæður nú við vinnuna í fjvn. og við skjótum okkur að sjálfsögðu ekkert undan gagnrýni á þeim vinnubrögðum sem óhjákvæmileg voru í kjölfar þeirra aðstæðna. Sú gagnrýni er vissulega réttmæt. En sú fjarstæða varðaði fyrst og fremst umfang vegaframkvæmdanna, þ.e. hversu mikið fé ætti að vera til ráðstöfunar, en ekki neitt af því sem ég hef vitnað í áðan. Þegar það lá loks fyrir hvernig ætti að gera upp innistæður vegna óskilaðra tekna Vegasjóðs frá síðustu árum og þegar lá fyrir að það var samstaða um það í ríkisstjórn og stjórnarflokkum að afla sérstakra tekna vegna snjómoksturskostnaðar voru þær niðurstöður lagðar fyrir fjvn. eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði áðan réttilega þann 6. þ.m. Þar var bætt við 270 millj. 100 millj. voru settar í snjómokstur, 170 var lagt til af Vegagerðinni og vissulega meiri hl. að ráðstafað yrði til annarra verkefna en stórverkefna. Jafnframt lýstum við því yfir sem í meiri hl. sátum að það væri ekki endanlega búið að ljúka samkomulagsgerð um umfang vegáætlunar því eftir væri að fjalla um eftirstöðvar þungaskatts frá fyrra ári, en það væri ljóst að meginkjarni málsins væri útkljáður og þar sem enginn ágreiningur hefði verið í nefndinni í næstum því heilan mánuð sem þær upplýsingar hefðu legið fyrir um skiptihlutfall milli kjördæma, skiptingu milli einstakra verkefna o.s.frv. sæjum við ekkert því til fyrirstöðu að hægt væri að fara á þessu stigi málsins með vegáætlunina inn í kjördæmin og óska eftir því að kjördæmisþingmenn tækju að sér að skipta upp sínum hlut á einstök verkefni, með þeim fyrirvörum þó að það gæti verið að það kæmi eitthvert viðbótarfé, sem aldrei yrði þó mikið, inn til framkvæmda til viðbótar og að þingmenn kjördæmanna væur þá reiðubúnir að skipta því fé sem fengist. Með þetta fór Vegagerðin á vit þingmannahópanna og ég veit ekki til þess að nokkur þingmannahópur nokkurs kjördæmis hafi neitað að vinna sitt verk á þessum grundvelli heldur þvert á móti. Þingmannahóparnir fóru í þetta verk strax eftir 6. maí og unnu það vel og skiluðu niðurstöðum og höfðu meiri tíma til að skoða það mál en mjög oft áður. Þeir höfðu t.d. mun meiri tíma til að skoða það mál en við aukaendurskoðunina á sl. ári.
    Þegar síðan hafði náðst samkomulagið um þær 50 millj. sem út af stóðu og varla hefur það getað staðið mjög mikið í vegi fyrir mönnum, 50 millj. kr. af tæplega 3 1 / 2 milljarði sem til vegagerðarverkefna er varið, og ætti það varla að vera stór kökkur í hálsi manna, að 50 millj. kr. standi í vegi fyrir afgreiðslu vegáætlunar, voru bæði meirihlutamönnum og minnihlutamönnum jafnsnemma, í sömu andránni, á sömu mínútunni kynntar tillögur Vegagerðar ríkisins um hvernig skyldi skipta þeim 50 millj. kr. Ekki

heldur þarna var minnihlutamönnum stillt upp frammi fyrir gerðum hlut í sambandi við skiptingu milli kjördæma heldur tóku þeir fullan þátt í því. Það var síðan lagt í vald þingmanna hvers kjördæmis hvernig þessu viðbótarfé yrði í hverju kjördæmi skipt á milli stofnbrauta og þjóðbrauta.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að láta mér þetta nægja og ekki segja mikið meira um þetta mál. Ég hefði sjálfsagt getað rakið öll þau gögn sem fyrir fjvn. hafa verið lögð. Þau eru mikil, hefðu sjálfsagt mátt vera meiri og sjálfsagt líka að sumu leyti menn mátt gefa sér meiri tíma til þess að fara í gegnum þau, bæði á fundum nefndarinnar og utan funda. Ég vil aðeins segja að það er ekki réttmæt sú ásökun, sem kom fram gagnvart meiri hl. fjvn., að hún hefði haldið minni hl. utan við þessi störf með þeim hætti sem hv. 2. þm. Norðurl. v. ræddi um í ræðu sinni áðan, enda kom í ljós þegar einn úr minni hl. greindi frá því á hverju hann byggði þá ákvörðun sína að skrifa undir nál. minni hl. með fyrirvara.