Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég vil fyrst geta þess að það má vera að ég hafi ekki að öllu leyti verið sanngjarn í umsögn minni um það álit minni hlutans að það mætti skilja á þann veg að þeir vildu ekki leggja áherslu á þjóðbrautirnar fyrr en búið væri með stofnbrautirnar, en ætlunin var nú ekki að þreyta menn mjög mikið af þeirri umræðu.
    En ég vildi taka það fram að það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra ef hann lítur svo á að ég sé þeirrar skoðunar að það eigi að taka upp veggjald. Ég átti við það eitt að þeir tekjustofnar sem nú eru rynnu beint til Vegagerðarinnar sem sjálfstæðs aðila, alveg eins og Póstur og sími hefur sína beinu tekjustofna og fleiri B-hluta stofnanir. Ég er sammála hæstv. ráðherra í þeim efnum að vegakerfið er og verður sameign íslenskrar þjóðar og þannig hygg ég að flestir Íslendingar hugsi. En það sem mér blöskrar í þessari stöðu og fer ekki dult með það er að ég tel að þær lausnir sem við notum við framkvæmdirnar með því að gera þetta í jafnsmáum stykkjum og við erum að gera séu allt of dýrar verkfræðilega séð. Ég tel að það væri hægt að ná kostnaðinum verulega niður, minnst 25% sagði ég, gagnvart stofnbrautunum ef þetta væri unnið í miklu stærri áföngum. Það er ekki hægt nema með lántökum. Þá yrði að sjálfsögðu að meta hvað þær skiluðu skjótt aukinni umferð og þar með auknum tekjum. Þetta er áætlunar- og útreikningsdæmi sem ég teldi rétt að menn skoðuðu og hvet ráðherra eindregið til að boða til ráðstefnu um þessi mál þar sem hann mundi láta ýmsa aðila leiða saman hesta sína og meta hvað þetta gæti þýtt.
    Ég vil svo þakka hæstv. ráðherra fyrir hans undirtektir á ýmsum málum varðandi þessa vegáætlun.