Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég sakna þess ráðherra sem ber ábyrgð á því frv. sem hér er til umræðu og óhjákvæmilegt er að fá hingað í salinn. Ummæli hans í gær gáfu að vísu tilefni til þess að undir venjulegum kringumstæðum hefði ég farið fram á að það yrði gert hlé á þessari umræðu til þess að hægt væri að kalla til fulltrúa frá hlutabréfasjóði og Fiskveiðasjóði og athuga að nýju hvernig atvinnumálin standi eins erfið og sú staða er. Ég tala nú ekki um að fá hingað stjórnarformann Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina sem hefur að sögn málgagns forsrh. staðið sig vel í því að kveða upp þunga dóma, 20 dauðadóma á einum degi yfir fyrirtækjum. Það er ekki mikið. ( Forseti: Ég hef óskað eftir því að hæstv. forsrh. komi, en hann mun vera í augnablikinu bundinn í nafnakalli í Nd.) Það er þá kannski hægt að taka fyrir næsta mál á dagskrá og ég geri hlé á ræðu minni. ( For seti: Það mun verða orðið við beiðni hæstv. ræðumanns.)