Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal spurði um hlutafjársjóðinn, hvað tefði afgreiðslu hans. Hlutafjársjóður auglýsti eftir umsóknum um aðstoð sjóðsins. Þær bárust frá 31 aðila. Hlutafjársjóðurinn fór vandlega í gegnum þær umsóknir og úrskurðaði stjórn hans að 15, e.t.v. 16 fyrirtæki gætu fallið undir ákvæði laga um hlutafjársjóðinn að vera meginstoð atvinnulífs á viðkomandi stað eða uppistaða í viðkomandi atvinnurekstri á landinu. Hlutafjársjóðurinn hefur síðan unnið yfirlit yfir þessi fyrirtæki, sem mér hefur verið sýnt sem trúnaðarmál, og metið hve mikil breyting skulda í hlutafé þurfi að vera hjá sérhverju fyrirtæki. Hlutafjársjóðurinn hefur gert tillögur um nokkur fyrirtæki sem má segja að hafi legið hvað beinast við að unnt væri að aðstoða á þennan máta og m.a. hafa a.m.k. tvö og líklega þrjú slík fyrirtæki verið til meðferðar hjá viðkomandi viðskiptabanka og Fiskveiðasjóði. Eitt er ekki sjávarútvegsfyrirtæki. Því er ekki að neita að viðbrögð Fiskveiðasjóðs hafa verið heldur neikvæð. En ég held að það sé réttara að hæstv. sjútvrh., sem hefur m.a. átt í viðræðum við Fiskveiðasjóð út af afskiptum hans af þessum málum, geri þá betur grein fyrir því á eftir.
    Ég tek undir það út af fyrir sig að þær tafir eru slæmar sem hafa orðið á afgreiðslu vegna þess að það stendur ekki á hlutafjársjóði. Það stendur ýmist á eigendum fyrirtækjanna að geta lagt fram fjármagn á móti eða skuldheimtuaðilum að vilja breyta í hlutafé. Mér er ekki kunnugt um að bankaeftirlitið hafi gert athugasemd við hugsanlega aðild viðkomandi viðskiptabanka að þessari breytingu. Ég hef átt viðræður við bankastjóra Landsbankans um þetta og hef ekki orðið var við að þeir gerðu ráð fyrir að þar væri neitt slíkt til fyrirstöðu. Í hverju tilfelli þarf bankinn að meta hvort hann fellst á að taka B-hluta skírteini frekar en A-hluta skírteini. Það er mat sem í sumum tilfellum er nokkuð erfitt.
    Hlutafjársjóðurinn hefur sett sér þá reglu að eignast ekki meiri hluta í viðkomandi fyrirtæki og eins og ég sagði áðan er í mjög mörgum tilfellum þannig ástatt að hann mundi nánast eignast fyrirtækið ef svo miklum skuldum væri breytt í hlutafé í gegnum sjóðinn sem nauðsynlegt er til að viðkomandi fyrirtæki hafi starfsgrundvöll að mati hlutafjársjóðsins. Því hefur verið lögð mikil vinna í að athuga hvort unnt er að aðstoða eigendur fyrirtækisins með fjárútvegun og helst talið réttast að hagræðingardeild Atvinnutryggingarsjóðs komi að þeim málum. En þarna eru enn þá ýmsir erfiðleikar, einkum þeir að margir eigendur fyrirtækjanna eru ekki með veð til að taka lán úr þeim sjóði. Annað sem augljóslega veldur vandræðum í þessu sambandi er að víða, þegar um sameiningu fyrirtækja er að ræða, fæst af því engin hagræðing nema viðkomandi fyrirtæki geti selt eitthvað sín á milli.
    Hv. þm. þarf ekki að hlæja að þessu. Ég get nefnt honum fjölmörg tilfelli. Þú sameinar skuldir eins og eignir og þú færð ekki betri stöðu fyrirtækisins í mörgum tilfellum nema þú getir ,,realiserað`` eignir.

Þetta hélt ég að hv. þm. ætti að skilja. Svona er það t.d. á Ólafsfirði, því miður. Það er margt sem bendir til þess að sú sameining sé skynsamleg ef unnt er að selja eignir og grynnka þannig á skuldum. Það er víðar sem ég gæti nefnt dæmi um að þannig er ástandið. Það sýnir að það þyrfti víðtækari möguleika til að selja slíkar eignir og þar hefur í einstökum tilfellum Atvinnutryggingarsjóður hlaupið undir bagga og keypt eignir. Það þarf líka að athuga betur.
    Ég tek undir það með öðrum hv. þm. að þetta tekur of langan tíma. En staðreyndin er sú að staða þessara 15 fyrirtækja þegar saman er dregið er miklu verri en menn gera sér grein fyrir. Skuldir hafa safnast upp í gegnum árin og því miður oft verið um framkvæmdir að ræða sem ekki hafa verið skynsamlegar, vantað afla í frystihúsin í landi af því meira hefur verið unnið úti á sjó o.s.frv. Vandamálið er því mjög mikið. Það mun vanta fyrir þessi 15 fyrirtæki að breyta í hlutafé í kringum 2,5 milljörðum kr.