Hlutafélög
Laugardaginn 20. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu frsm. geri ég fyrirvara á nál., en ég skrifa engu að síður undir það þar sem ég er sammála því að málið sem slíkt hafi í sér ýmsar réttarbætur og vil ekki tefja framgang þess.
    Þegar málið var lagt fyrir Ed. fyrir ári gerði ég þrjár athugasemdir við frv., þ.e. þegar það var lagt fram á síðasta þingi. Það var í fyrsta lagi að ég vildi hafa stofnfjárhæðina hærri en mælt er fyrir í frv., í öðru lagi taldi ég ekki ástæðu til að fækka félagsmönnum í hlutafélögum úr fimm í tvo og í þriðja lagi vildi ég að það væri kveðið skýrar á um ábyrgðir stjórnarmanna í hlutafélögum.
    Ég rökstuddi þetta með því að því miður hefur það gerst hjá okkur að stofnuð hafa verið mörg gervifélög og þess vegna hefði mér fundist að það ætti að kveða skýrar á um það í lögum um hlutafélög að menn gætu ekki tíðkað þá iðju að stofna jafnvel hlutafélag til þess eins, eins og því miður hefur gerst, að fría sig ábyrgð.
    Í þessu frv. eru hins vegar mjög góðar reglur og þá vil ég sérstaklega benda á reglur um slit hlutafélaga sem koma fram í ákvæði til bráðabirgða, en það hefur vantað að hlutafélögum sem lögð hafa verið niður hefur ekki verið með góðu móti hægt að slíta nema skipa skilanefnd og það er bæði kostnaðarsamt og tekur langan tíma. Önnur ákvæði í frv. eru mjög til bóta og af þeim sökum hef ég ekki viljað stöðva framgang frv. Ég tel samt sem áður að hér sé frekar um fræðilega útfærslu að ræða eða lögfræðilega og svo hvað endurskoðendur hafa til málsins að leggja en hér sé ekki tekið á hinum raunverulega vanda sem er í þjóðfélaginu og hvernig hlutafélög hafa verið misnotuð eða hlutafélagaformið réttara sagt. Ég veit að í viðskrn. er verið að vinna að því að takmarka það að menn geti stofnað gervifélög og ég vona að sú vinna leiði til frv. og það verði lagt hér fram á næsta þingi og það verði einmitt tekið á þeim þætti að ekki skuli ganga að menn fríi sig ábyrgð með því að stofna slík félög.
    Að mörgu leyti, eins og ég sagði, er gengið skref til góðs, en það er einn hængur á lögunum um hlutafélög. Þau ná yfir öll hlutafélög hér á landi, sama hve stór þau eru, andstætt því sem er t.d. í Danmörku og Þýskalandi þar sem gert er ráð fyrir minni hlutafélögum og stærri. Tel ég að það muni verða þróunin hér síðar meir og sérstaklega þegar Evrópubandalagið hefur sett sínar reglur um hlutafélög að við tökum upp tvenns konar hlutafélagaform, annars vegar fyrir stærri hlutafélög og hins vegar fyrir minni. Ég held að sú þróun sé nú í Evrópu að svo verði.
    Það var því miður ekki tími í hv. fjh.- og viðskn. til þess að kalla fyrir aðila til að fara yfir frv. Ég hef kosið að fá bæði lögfræðinga, hagfræðinga og viðskiptafræðinga til að fara yfir þetta með mér, en ég skil vel að tími er orðinn naumur og þetta frv., þó að það sé kannski ekki tekið á þeim vanda sem ég lýsti áðan, er nauðsynlegt að verði samþykkt á þessu þingi þó svo gildistaka sé ekki fyrr en á næsta ári.