Hlutafélög
Laugardaginn 20. maí 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir hvert orð af því sem hv. framsögumaður nefndarinnar í heild sagði áðan og raunar líka flest það sem hv. síðsti ræðumaður nefndi.
    Saga löggjafar á Íslandi um félög er hin merkasta. Í upphafi aldarinnar byrjuðu menn að fikra sig áfram til stofnunar ýmiss konar félaga. Raunar hafði það gerst fyrir aldamót líka og var þar um tvö meginfélagsform að ræða. Annars vegar voru það hlutafélög og hins vegar samvinnufélög.
    Mjög gjarnan héldust í hendur lagabreytingar um þessi tvö félagsform og þegar þau kepptu innbyrðis voru menn gjarnan sammála um að endurskoða löggjöf þessara félaga með ákveðnu millibili. Síðan bjuggum við óslitið nokkurn veginn við sömu löggjöf frá 1921 til 1978 og löggjöfin sjálf kom ekki í veg fyrir að hér væru stofnuð opin og öflug félög. Merkasta dæmið var raunar áður en þessi lög voru endanlega sett í þetta form 1921, um atvinnurekstur, og ekki eins ítarleg. Það var einmitt þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað, raunar var það stofnað 1913 og 1914 fór fram hlutafjársöfnun, sem er kannski eitt merkilegasta almenningshlutafélag í sögu þessa lands og þó við leitum til annarra landa. Hins vegar voru margar aðstæður sem réðu því að það félag varð varla nefnt almenningshlutafélag þegar fram í sótti.
    En um hlutafélagalög hefur verið reynt að samræma sjónarmið og voru t.d. á 7. og 8. áratugnum gerðar mjög ítarlegar tilraunir til að ná einhverri samstöðu um hlutafélagalöggjöf á Norðurlöndum, en hún er sitt með hverjum hætti í hverju einstöku Norðurlandanna. Þessar tilraunir fóru út um þúfur og Íslendingar sneru sér að því að setja sín eigin hlutafélagalög og unnu að því hinir hæfustu og menntuðustu menn sem við höfðum og höfum enn yfir að ráða. Á árunum 1977 og 1978 fjallaði Alþingi mjög ítarlega um nýja hlutafélagalöggjöf og mér er minnisstætt hve góð samvinna ríkti þar meðal fulltrúa allra flokka. Gjarnan voru haldnir sameiginlegir fundir nefndanna í báðum deildum. Einkum er mér minnisstætt og ég vil gjarnan geta þess að okkar ágæti forseti sem hér stýrir nú fundum vann gífurlegt starf við að kynna sér hlutafélagalög, ýmiss konar mismunandi tillögur og sjónarmið sem ríkjandi voru. Ég held að það hafi endað með því að hér í þinginu hafi verið fluttar eitthvað í kringum 70 brtt. og þær allar eða flestar efnismiklar, sem enn þá var endurbót við það starf sem unnið hafði verið á einum tveimur áratugum sem að vísu bar ekki árangur í samvinnu við hin Norðurlöndin vegna þess að þau fóru að ýmsu leyti aðrar leiðir, og við hölluðumst að því að reyna að sameina evrópskan rétt ef svo má segja eða rétt Norðurlanda, taka ýmiss konar sjónarmið þar, en að vinna úr engilsaxneskum rétti það sem merkast var þar og þá komu inn ýmiss konar ákvæði og nýsmíðar orða eins og t.d. margfeldiskosning og ýmislegt það sem til bóta horfði og það var von okkar sem að þessu stóðu úr öllum flokkum að þetta mundi verða

upphaf þess að hér mundu rísa öflug almenningshlutafélög sem mundu styrkja efnahag þjóðarinnar. Sú von hefur að vísu að miklu leyti brugðist, en lögin eru enn þá við lýði og ég leyfi mér að halda því fram að þarna sé kannski um að ræða eina merkustu löggjöf í félagarétti í veröldinni vegna þess að þarna var gerð tilraun til að taka það besta úr Evrópurétti og bandarískum rétti og engilsaxneskum. Sú löggjöf er þess vegna mjög merk.
    Hitt er annað mál að auðvitað verður á breyttum tímum að laga lög að breyttum aðstæðum. Í upphafi árs 1984 var skipuð nefnd hinna mætustu manna til að endurskoða hlutafélagalöggjöf og betrumbæta. Hún skilaði sínu áliti og merkri greinargerð með því og brtt. Þetta frv. var síðan rætt a.m.k. á þremur síðustu þingum og mjög mikið rætt í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar í fyrra og hittifyrra en án þess þó að menn fengju sannfæringu fyrir því að heppilegt væri að breyta lögunum á því stigi.
    Það er alveg rétt, sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Ágústssonar, að það eru í sumum löndum tvenns lags lög um mismunandi form hlutafélagsins, ein lög fyrir stór félög, almenningshlutafélög, önnur lög fyrir minni félög, fjölskyldufyrirtæki, lokuð félög. En hitt er líka rétt, sem hv. frsm. gat um, að núna eru miklar hræringar, miklu meiri, í öllum viðskipta- og félagsréttarmálum í Evrópu en við höfum lifað. Það fer ekki hjá því að Evrópubandalagið mun samræma löggjöf sína mjög mikið og EFTA er að leita eftir nánara samstarfi við Evrópubandalagið.
    Nú er sjálfsagt enginn maður ákveðnari andstæðingur þess að gerast aðili að Evrópubandalaginu en ég. Ég held að það væri fásinna. Við skulum ekki fara út í þá umræðu hér. Hún gæti enst allan daginn og marga daga nákvæmlega eins og umræður um landhelgismál gætu gert. Það verður engu þingi slitið í dag og kannski ekki næstu viku ef menn færu að sveigja inn á slíkar brautir að blanda öllum mögulegum stórpólitískum málum inn í þetta. En hitt er staðreynd að nú er unnið í öllum Vestur-Evrópuríkjum að því að reyna að samræma sem mest það sem er í félagalögum og ýmiss konar viðskiptalögmál eru að breytast. Þess vegna er brýn nauðsyn að Íslendingar fylgist með þessum málum og geri það sjálfkrafa, ekki síst ef við höfum forustu í EFTA í viðræðum við Evrópubandalagið næsta hálfa árið, en þá verða þessi mál auðvitað í
brennidepli. Því hygg ég að það hafi verið rétt ákvörðun nefndarinnar að leggja til að frv. öðlaðist ekki gildi fyrr en 1. mars á næsta ári þannig að svigrúm gæfist til að skoða einmitt þær nýju hræringar sem gætu hugsanlega leitt til þess að einhvers konar meginhlutafélagalöggjöf yrði hin sama í allri Evrópu. Því hef ég síður en svo á móti. Þó að ég vilji ekki ganga í Evrópubandalagið hljótum við að samræma sjónarmið okkar þeim sem ríkjandi verða í viðskiptamálum í bæði EFTA-löndum og Evrópubandalagslöndum.
    Ég er að gera mér vonir um að meginatriði

hlutafélagalaga verði í öllum hinum vestræna heimi og frjálsa heimi kannski mjög svipuð eftir fá ár alveg gagnstætt því sem nú er þar sem hvergi eru sömu meginreglur gildandi í tveim löndum, engum tveimur. Sjónarmiðin hafa verið svo mismunandi.
    Þetta er gamalt félagsform allt frá 16. og 17. öld og hefur bæði borið ríkulegan ávöxt en líka hafa orðið þar mikil mistök eins og allir menn þekkja.
    Út í það ætla ég ekki að fara, en taldi þó rétt að vekja aðeins athygli á þessu um leið og ég lýsi stuðningi mínum við frv. með þeirri brtt. sem flutt er.