Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Mér þykir leitt ef það fara að koma upp einhverjar neikvæðar umræður um þetta góða mál sem hér er á dagskrá, en ég get samt ekki látið hjá líða að leiðrétta að það var fjarri því að ég væri að tala um að einhverju hefði verið smyglað inn í þetta frumvarp. Ég sagði aðeins að okkur hefði yfirsést og ég stend við það. Ef ég fyrir mitt leyti hefði áttað mig á að þarna væri um tvísköttun að ræða hefði ég látið það koma fram í mínum athugasemdum á meðan málið var til umfjöllunar í deildinni. Það er reginmunur á því að yfirsjást eitthvað eða smygla einhverju. Ég tek undir það með hv. 9. þm. Reykn. að ég held að okkur öllum hljóti að vera ljós sú neyð sem er í málefnum aldraðra. Við erum væntanlega öll sammála um að það þarf að gera miklu, miklu stærra átak í þeim málum en nú er gert. Þetta erum við áreiðanlega öll sammála um. Ég skildi það heldur ekki svo þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir staðgreiðslukerfinu á sínum tíma og þessir nefskattar eða mörkuðu tekjustofnar voru felldir inn í staðgreiðslukerfið að hann hefði gert það með því hugarfari að hann væri að minnka fjármagn í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég held að það sé þvert á móti að það hafi verið talið tryggt þrátt fyrir að þetta væri fellt inn í staðgreiðslukerfið. Það finnst mér vera meginmálið að hann hefur áreiðanlega eins og hv. 9. þm. Reykn., flokksbróðir hans, verið með þetta í huga. Ég vildi láta koma fram að það væri enginn misskilningur hér á ferðinni.