Starfslok efri deildar
Laugardaginn 20. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd okkar þingmanna í Ed. vil ég þakka fyrir góðar óskir virðulegs forseta í okkar garð. Mig langar til að fá fyrir okkar hönd að þakka virðulegum forseta fyrir sanngjarna og réttláta fundarstjórn í vetur og fyrir það ánægjulega samstarf sem við höfum átt við virðulegan forseta, við þingmenn Ed. Virðulegur forseti hefur alla tíð komið vel fram og sýnt okkur mikið umburðarlyndi hvort sem um var að ræða þingmenn í stjórnarandstöðu eða þingmenn stjórnarliða.
    Þá langar mig til að fá að nota þetta tækifæri og enn fremur fyrir okkar hönd þakka starfsliði Alþingis sem hefur átt mjög annamikla daga upp á síðkastið og orðið nánast að leggja nótt við dag til að aðstoða okkur við að koma málum hér fram. Mig langar til að fá að ítreka góðar óskir til forseta og óska honum og fjölskyldu hans allra heilla og vonast til að við hittumst öll heil að hausti komanda.
    Mig langar til að biðja hv. þingdeildarmenn rísa á fætur og staðfesta þessi orð með mér. --- [Deildarmenn risu úr sætum.]