Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 1250 sem borin er fram af meiri hl. heilbr.- og trn. og ég les þá tillöguna upp, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við 10. gr. 1. tölul. fyrri mgr. hljóði svo:
    Tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skal gjaldið nema 2500 kr. á hvern gjaldanda. Fjárhæð gjaldsins skal breytast árlega í samræmi við breytingar er kunna að verða á byggingarvísitölu, í fyrsta skipti við álagningu á árinu 1990, miðað við breytingu á byggingarvísitölu frá 1. des. 1988 (124,9 stig) til 1. des. 1989. Gjaldið skal fyrst lagt á við álagningu 1989.
    Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn sem nemur 530.196 kr. eða lægri á tekjuárinu 1988. Tekjuviðmiðun þessi skal breytast árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á persónuafslætti skv. 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og innheimtuhlutfalli viðkomandi staðgreiðsluárs samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Skattstjóri skal fella gjald þetta niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
    Við álagningu og innheimtu gjalds þessa skulu gilda sömu reglur og um álagningu og innheimtu tekjuskatts og eignarskatts samkvæmt lögum nr. 75/1981, með síðari breytingum, eftir því sem við á. Í stað tíu gjalddaga skal þó gjalddagi vera einn, 1. ágúst ár hvert. Dragist framlagning álagningarskrár fram yfir 1. ágúst færist gjalddagi til 1. dags næsta mánaðar eftir framlagningu álagningarskrár.``