Framhaldsskólar
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds):
    Herra forseti. Eftir að 2. umr. um þetta frv. lauk var á það bent að missagnar gætti í frv. eins og það lá fyrir. Í þeim frumvarpsgreinum sem samþykktar voru við 2. umr. var gert ráð fyrir að kennarar við framhaldsskólana væru ekki lengur settir og skipaðir eins og verið hefur um langt skeið heldur yrðu þeir framvegis ýmist skipaðir eða ráðnir af skólastjórum og rektorum. Þarna er um formbreytingu að ræða þannig að ráðning kemur í staðinn fyrir setningu. Þetta hefur verið samþykkt við 2. umr.
    Þá var á það bent að annars staðar í frv. væri minnst á setningu þegar um orlof kennara væri að ræða. Því þykir óhjákvæmilegt að leiðrétta þetta og menntmn. flytur á þskj. 1313 brtt. þess efnis að orðinu ,,ráðinn`` verði bætt við þannig að greinin eigi við kennara sem ýmist eru ráðnir, settir eða skipaðir. Það er full eining um þessa tillögu í menntmn.