Stjórnarráð Íslands
Laugardaginn 20. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Mér urðu það mikil vonbrigði að ekki hefur tekist að afgreiða á þessu þingi frv. um umhverfismál, bæði frv. á þskj. 417 og það sem hér er nú til umræðu. Ég tel afar mikilvægt að við skipum þeim málum á markvissan og ákveðinn hátt.
    Þegar mér varð ljóst að erfiðlega mundi ganga að ná samstöðu um umhverfismálafrv. féllst ég á fyrir mitt leyti að áhersla yrði lögð á að afgreiða frv. um Stjórnarráð Íslands, enda felur það í sér að þar með er ákveðið að stofna umhverfisráðuneyti. Hitt hefði þá beðið til haustsins að skipa málum innan þess ráðuneytis og flytja á milli ráðuneyta sem að sjálfsögðu er töluvert viðkvæmara mál í mörgum tilfellum og þarf sannarlega ítarlega skoðun. Það er ekki svo að sú skoðun hafi ekki átt sér stað því hún hefur satt að segja verið í gangi í meira en áratug eða á annan áratug. Engu að síður tel ég þetta vera viðunandi lausn. Því miður hefur þetta ekki heldur tekist. Mér er hins vegar ljóst, og hygg ég öllum, að á hinu háa Alþingi er mikill meiri hluti fyrir stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Ég mun því strax að þingi loknu skipa nefnd til að undirbúa þetta mál sem vandlegast fyrir haustþingið og þá vona ég að ég valdi ekki hv. Kvennalistanum, ef ég má orða það svo, vonbrigðum. Það skal standast að hér verði lagt fyrir strax í upphafi haustþings frv. um umhverfismál. Ríkisstjórnin mun jafnframt gera ráð fyrir því í frv. til fjárlaga að fjármagn verði veitt til slíks ráðuneytis á árinu 1990.