Stjórnarráð Íslands
Laugardaginn 20. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Það er óþarfi að hafa mörg orð um þetta. Ég hef lýst minni skoðun á því frv. um umhverfismál sem var hér til umræðu, en sem einu gildir er það látið bíða haustsins. Ég tek undir með hv. þm. Kristínu Halldórsdóttir að aðalmálið er að hægt sé að ná sáttum við fólkið í landinu um það frv. sem verður lagt fram í haust eins og hæstv. forsrh. er búinn að tilkynna. Ég vil hér og nú fara fram á að þau samtök sem ég er fulltrúi fyrir geti tilnefnt mann í þá nefnd til þess að þau sjónarmið sem liggja að baki því sem ég sagði um þessi mál á þingi í vetur en er ástæðulaust að endurtaka, og hef ég ekki tíma til að fara út í það frekar, komi fram. Ég ítreka að það er samkvæmt heiti sem gefið var í því efni þó að ég verði að segja að það heit hafi ekki staðið nema að litlu leyti.