Stjórnarráð Íslands
Laugardaginn 20. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það er ljóst þegar við ræðum frv. sem hér er á dagskrá að það verður ekki afgreitt á þessu þingi né heldur það frv. um umhverfismál sem liggur í allshn. þingsins. Þetta er mjög dapurleg niðurstaða miðað við hversu brýnt það er að koma sæmilegri skipan á stjórnsýslu í þessum málum. Þó það leysi ekki allan vandann er það samt það sem snýr að Alþingi Íslendinga, að marka þann farveg og tryggja að framkvæmdarvaldið haldi á málum með þeim hætti og sé þannig skipað hvað þetta snertir að það sé líklegt til árangurs. Sjálfstfl. hefur tekist einn ganginn enn, eitt þingið í viðbót, eitt árið í viðbót kannski, að seinka þeim breytingum í sambandi við skipan umhverfismála sem eru löngu orðnar knýjandi nauðsyn í okkar stjórnkerfi. Því miður tókst ekki um það samkomulag á Alþingi á síðustu dögum að lengja starfstíma þingsins um nokkra daga, kannski viku eða tíu daga, til að taka á þessum málum og tryggja framgang löggjafar sem yfirgnæfandi meiri hluti er fyrir á Alþingi Íslendinga að ég vona.
    Ég skil ekki hvað mönnum liggur á að slíta þingi þegar slík nauðsynjamál liggja enn fyrir þinginu sem vel væri hægt að afgreiða og lögfesta á ekki löngum tíma og ræða jafnframt ýmis mál sem hafa fengið of litla umræðu á þinginu, þar á meðal byggðamálin sem minnst var á í ræðu hv. síðasta ræðumanns. En þannig var skammtað í þeim efnum að þau voru á dagskrá með mörgum öðrum málum í Sþ. sl. nótt og ég, sem hefði kosið að segja margt um þau efni, féll þar frá orðinu til að standa við það samkomulag sem gert hafði verið um að ljúka þingi á þessum degi. Það er ekki vegna þess að mér sé ekki allmikið niðri fyrir í sambandi við þann málaflokk ekki síður en í sambandi við umhverfismál.
    Hæstv. forsrh. hefur gefið yfirlýsingar fyrir hönd ríkisstjórnar og stuðningsflokka hennar, að ég vænti, um að frv. til laga um umhverfismál og breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands komi fram á fyrstu dögum eða fyrsta degi komandi þings. Ég ætla sannarlega að vona að við það verði staðið og er út af fyrir sig ekki að draga í efa að sá hugur búi að baki hjá hæstv. forsrh. sem hefur fyrir sitt leyti ýtt á eftir þessu máli. Ég tel það mikilvægt í þessu samhengi að fjárlagagerðin, sem nú er hafin fyrir komandi ár, taki einnig mið af þeim vilja og samþykktum ríkisstjórnar sem snúa að stofnun sérstaks ráðuneytis umhverfismála. Það mun þá birtast okkur við framlagningu þess máls sem væntanlega verður fyrsta mál komandi þings.
    Núv. hæstv. ríkisstjórn gengur undir próf á komandi mánuðum á mörgum sviðum. Eitt þeirra varðar umhverfismálin og ég ætla að vona að stjórnin standist það próf. Þau eru hins vegar fleiri sem hafa verið nefnd í þessari umræðu og tengjast umhverfismálum í landinu kannski með öðrum hætti en felst í því orði einu saman eins og er algengt að nota það. Spurningin er um að varðveita byggðina í landinu, að fólk búi þar sem byggilegt er á Íslandi í sátt við umhverfi sitt.

    Ég óska ríkisstjórninni alls hins besta á sumarmánuðunum og umfram allt að það verði unnið ötullega að þeim málum sem hafa náð of skammt fram á þessu þingi sem nú er að ljúka. Umhverfismálin eru þar eitt af forgangsmálunum og við skulum vona að árið líði ekki áður en þau mál verða komin í skikkanlegt horf.