Stjórnarráð Íslands
Laugardaginn 20. maí 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, en ég get ekki orða bundist þegar hér er verið að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, þegar hæstv. forsrh. kemur og gerir grein fyrir því að þrátt fyrir að frv. um umhverfismál verði ekki samþykkt á Alþingi, þrátt fyrir að í frv. um breytingu á Stjórnarráði Íslands segi að við 1. mgr. 4. gr. bætist orðið ,,umhverfisráðuneyti``, skuli samt sem áður við fjárlagagerð fyrir árið 1990 vera gert ráð fyrir fjármunum til umhverfisráðuneytis.
    Ég vil gjarnan vekja athygli á því að þetta er ekki stjórn eftir þeim stjórnlögum sem gilda í þessu landi. Það eru lög sem segja til um hvernig fjárlagafrv. skuli samið, en við fáum á lokadegi þings að hlusta á ráðherra koma í ræðustólinn og segja: Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir hitt mun fjárlagagerð fyrir næsta ár gera ráð fyrir þessu og hinu sem hér hefur ekki verið nema til 1. umr. og þaðan af síður að menn fengju að segja álit sitt á hlutunum. Ég hugsa að þessi vinnubrögð séu algert einsdæmi.
    Hv. 2. þm. Austurl. lýsti þeirri von sinni, að sjálfsögðu í framhaldi af ræðu hæstv. forsrh., að hann vonaðist til þess að hann sæi það þegar Alþingi kæmi saman í haust að fjárlagafrv. tæki mið af þessum hlutum. Eigum við að standa í ræðustólnum á síðasta degi þings og lýsa yfir því hverju við óskum að fjárlagafrv. taki mið af þegar það birtist á Alþingi á hausti komanda? Það segir alveg skýrt um hvernig eitt fjárlagafrv. skuli samið og tillit til hvers þar skal tekið. Það er hvergi talað um að í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir útgjöldum til hugsanlegra ósamþykktra útgjalda. Þaðan af síður að það taki tillit til breytinga á Stjórnarráði Íslands. Það er hvorki meira né minna en verið að gera ráð fyrir breytingum á Stjórnarráði Íslands.
    Þetta vildi ég láta koma fram, auk þess sem ég vildi svara hv. 2. þm. Austurl. þegar hann sagði að sjálfstæðismönnum hefði tekist að stöðva þetta. Við áttum orðræður á þingi fyrr í vetur þegar 1. umr. um frv. til laga um stjórn umhverfismála fór hér fram, og við ræddum einmitt þá hvað hefði gerst þegar þessi hv. þm. sat í ríkisstjórn, þá voru samin frumvörp, ekki eitt heldur tvö, og ekkert gekk, og þegar flokksbræður hans sátu áður í ríkisstjórn og ekkert gekk.
    Einu frumvörpin sem hafa sést, eina tilraunin sem gerð hefur verið til að reyna að ná fram samræmdri stjórn á umhverfsimálum er frá sjálfstæðismönnum komin. Við skulum svo gera okkur grein fyrir því að hér flytur ríkisstjórnin frv. um umhverfisráðuneyti.
    Það sem hv. 1. þm. Vestf. benti á er ekki spurning um hvort stofnað er umhverfisráðuneyti heldur hvort hægt er að ná samkomulagi um stjórn þessara mála og það er vissulega ástæða til þess að það sé reynt. Yfirgnæfandi umsagnir um umhverfisráðuneytisfrv. voru neikvæðar. Frv. var náttúrlega svo úr garði gert að það var nánast einsdæmi í sögunni þegar á það var bent að ætlað var að þetta ákveðna umhverfisráðuneyti sæi um framkvæmd fjölmargra laga sem löngu voru orðin ógild. Jafnvel frv. um samræmda stjórn sem sent

var til umsagnar fyrir nefnd sem fékk málið til meðferðar byggðist þó nokkuð á gagnrýni og hefði vissulega verið meiri ástæða til að skoða það og átta sig á því með hvaða hætti hægt hefði verið að samræma hlutina. Ef menn ætla eftir það sem hér gerist í dag, þ.e. framlagningu nál. varðandi frv. til laga um breytingu á Stjórnarráði Íslands, að meta einhvern vilja þessarar hv. deildar, þá segi ég: Það er ekki mögulegt að gera. Þessi mál verður að skoða og ekki er hægt að ætla sér að koma inn um bakdyrnar þegar menn ná ekki samkomulagi, þegar menn geta ekki komið fram þeim lagabálki sem þyrfti að samþykkja áður en búið er að breyta lögunum um Stjórnarráð Íslands.