Starfslok neðri deildar
Laugardaginn 20. maí 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Nú þegar komið er að lokum þessa síðasta fundar deildarinnar á þessu þingi vil ég færa þingmönnum deildarinnar alúðarþakkir fyrir ágætt og ánægjulegt samstarf á þessu þingi. Það hefur verið mér alveg sérstök ánægja að mér hefur fundist þetta samstarf hafa tekist mjög vel. Þið þingmenn deildarinnar hafið sýnt mér tillitssemi í starfi mínu sem forseti og oftar en ekki greitt fyrir því að störfin gætu gengið greiðlega fyrir sig, svo greiðlega að ég hlýt að láta í ljós sérstakt þakklæti í því sambandi, einkum eins og á stendur um valdahlutföll í deildinni.
    Ég vil líka leyfa mér að þakka sérstaklega þeim ýmsu oddvitum flokkanna sem hafa verið mjög til halds og trausts og samráðs um skipulag á starfi deildarinnar. Það hefur verið mér ómetanlegt hversu greiðlega hefur gengið að starfa með þeim og sjá til þess að mál fengju hér eðlilega umfjöllun og allt gæti gengið snurðulaust fyrir sig.
    Ég vil líka sérstaklega þakka varaforsetum mínum tveimur fyrir það hversu liprir þeir hafa reynst við að aðstoða mig við stjórn deildarinnar og verið fúsir til starfa. Fyrir það er ég mjög þakklátur. Ég þakka líka riturum mínum fyrir samviskusamlegt starf og aðstoð við stjórn fundanna svo og þeim ýmsu sem kvaddir hafa verið til til að hlaupa í skarðið fyrir ritarana þegar þannig hefur staðið á.
    Ég hlýt að þakka sérstaklega skrifstofustjóra og öllu starfsliði Alþingis fyrir gott starf á liðnu þingi og einkanlega þeim ýmsu starfsmönnum þingsins sem hafa verið mér sem forseta innan handar og veitt mér aðstoð við að stjórna starfi deildarinnar. Ég flyt þeim alúðarþakkir fyrir það.
    Ég ítreka svo þakkir mínar til ykkar allra samþingsmanna minna hér í deildinni fyrir mjög ánægjulegt samstarf og mikla lipurð við mig sem forseta. Bestu þakkir.