Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Það vekur undrun mína að 5. málið á þessari dagskrá sé tekið út af dagskrá.
    Ég ásamt fleirum flutti frv. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í Nd. Við vildum afgreiða það í sjútvn. deildarinnar, þrír af nefndarmönnum, en formaður nefndarinnar, hv. þm. Árni Gunnarsson, vildi vísa þessu máli frá með þeim hætti að Alþingi kysi fyrir þinglok fimm manna nefnd til að endurskoða lögin nr. 72, um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Til samkomulags gengum við þrír nefndarmenn í sjútvn. inn á þessa tillögu vegna þess að við trúðum því að það væri ásetningur flutningsmanna, stjórnarliðanna, að fá tillöguna samþykkta. Með þessu var tekin ákvörðun af heilli nefnd, sjö manna nefnd í Nd., um að flytja þessa tillögu, sem ég hefði kosið að hefði verið afgreidd með öðrum hætti, og ég trúði því að hér væri alvara á ferðum. En þá bregður svo við að hæstv. sjútvrh., sem hefur látið undir höfuð leggjast að endurskoða þessi lög, gengur hér á veggina í þinghúsinu --- það þarf ekki alltaf dyr að ganga í gegnum --- og hefur tekið bæði flokkssystkini sín og fleiri í gegn fyrir að þetta sé vantraust á sig sem eðlilegt er að hann geri því að vitaskuld höfðu nefndarmenn ekki traust á því að sjútvrh. tæki þessi nauðsynlegu og mikilvægu lög til endurskoðunar.
    En nú er komið að sögu þingmanna, hvernig þeir bregðast við. Þegar heil þingnefnd tekur ákvörðun eins og þessa er virðing Alþingis í veði. Og þá er spurningin: Er virðing sjútvrh. eins, sem hefur trassað þetta mál, meira virði en virðing sjö alþingismanna sem taka þessa ákvörðun?
    Fyrsti flm. og höfundur þessarar tillögu hvarf úr þingi. Hann gufaði upp hreinlega og hefur ekki sést síðan ( Gripið fram í: Hann kemur bráðum.) og sennilega sést hann ekki. Það eru þá síðustu forvöð að sjá hann. Einn þingmaður stjórnarliðsins veit ég til að hefur reynt að tefja fyrir þessu máli. En svo kom fyrir tveimur dögum flokksbróðir formanns sjútvn. Nd., 3. þm. Vesturl., og stóð í ræðustól og óskaði eftir að þessu máli yrði frestað eða ekki tekið fyrir. Það sjá allir í hvaða tilgangi þessi þingmaður viðhafði þetta. Það var auðvitað að gera lítið úr frumkvæði flokksbróður síns Árna Gunnarssonar, í þeim eina tilgangi að eyðileggja málið. Mér er hjartanlega sama hvort þessi nefnd er kjörin eða ekki eða þessi þáltill. samþykkt. En mér er ekki sama um að fjórir stjórnarliðar úr hv. Ed. séu að gabba okkur hina. Það er mér ekki sama um. Og mér er heldur ekki sama um, þó að hæstv. sjútvrh. gangi á veggina í þinghúsinu, að hann gangi yfir þingmenn almennt. Hér er einu sinni enn komið að því að fótumtroða þingræði og lýðræði sem hefur verið stutt á milli þessa síðustu daga í hv. Alþingi.
    Nú hefur hæstv. forseti sameinaðs Alþingis kórónað skömmina með því að taka málið út af dagskrá. Ég varð því að neyta þess að ræða um þingsköp til að koma fram sjónarmiði mínu og skýra fyrir þingheimi óheilindin sem eru á bak við þetta. Virðing þeirra þingmanna sem þannig starfa vex ekki af þessu máli.