Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Eftir niðurstöðum nefndarinnar, sem endurskoðaði lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og komst að þeirri niðurstöðu að leggja sjóðinn niður, var ekki farið af fyrrv. ríkisstjórn og ekki heldur af þessari ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir því, ekki einu sinni heldur tvisvar, að ein deild þessa Verðjöfnunarsjóðs sem ekkert á til, á ekki bót fyrir rassinn á sér, taki 1150 millj. kr. að láni með ábyrgð fjmrh. Með þessu er auðvitað talað um að sjóðurinn starfi áfram. Ég er ekki að tala um hvaða skoðun menn hafa á því. Sjútvrh. hefur fullt leyfi til að hafa þessa skoðun og aðrir þingmenn einhverja aðra eða sömu skoðun og fjmrh. Ég er að tala um af hverju ekki sé hægt að ræða þessa tillögu fyrst stjórnarliðarnir í nefndinni tóku þessa afstöðu. Við tókum hana ekki. Ég þvældist fyrir lengi vel, en gekk að lokum til samkomulags. Það sem ég gagnrýni er að ganga þannig á rétt okkar og fótumtroða þingræðið. Það er eins og sumir þingmenn líti á sig, eftir að þeir eru kosnir, sem vinnumenn hjá ákveðnum ráðherrum í ríkisstjórn. Áður töluðu menn um húsmenn. Nú er sú stétt lögð niður. Nú er farið að tala um húsbréfa-Jóhönnu o.s.frv. Þannig er það.
    Ég ætla svo að lokum, virðulegi forseti, að segja að það hefur enginn heimild til þess að semja fyrir mína hönd um að mál komi ekki til umræðu. Ég hef hvorki heyrt formann þingflokks né aðra segja mér að hann hafi samið um að þetta mál mætti ekki koma til umræðu og fá lýðræðislega umfjöllun. Og ég tek því ekkert með þökkum ef einhverjir menn, þó þeir séu í mínum flokki, séu að semja fyrir mína hönd. Ég sem fyrir mig sjálfur.