Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 217 . mál.


Ed.

384. Frumvarp til laga



um friðun hreindýra og eftirlit með þeim.

(Lagt fram á Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    Með lögum þessum er stefnt að því að tryggja eftir föngum tilvist hóflegs fjölda hreindýra í landinu og kveða á um nytjar af hreindýrastofninum eftir því sem stærð hans leyfir.
    Hreindýr skulu vera friðuð fyrir hvers konar veiðum með þeim undantekningum sem greinir í 6. gr. laga þessara.

2. gr.

    Menntamálaráðuneytið hefur yfirumsjón þeirra mála sem lög þessi taka til.

3. gr.

    Við dýrafræðideild Náttúrufræðistofnunar Íslands skal stofna stöðu umsjónarmanns með hreindýrastofninum. Skal umsjónarmaður hafa eftirlit með friðun og veiði hreindýra eftir því sem fyrir er mælt í lögum þessum. Í stöðuna skal skipa líffræðing eða mann með sambærilega menntun.
    Umsjónarmaður skal vera búsettur á Austurlandi.
    Umsjónarmaður gerir tillögur um framkvæmd hreindýraveiða og skipun eftirlitsmanna. Hann stjórnar og rannsóknum á hreindýrastofninum.

4. gr.

    Menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn nefnd fimm manna, hreindýranefnd, og fimm til vara. Hreindýranefnd skal vera ráðgefandi um framkvæmd laganna og annast þau störf sem henni eru falin í lögum þessum.
    Búnaðarfélag Íslands, Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Skotveiðifélag Íslands tilnefna hvert einn aðalmann og einn varamann til setu í nefndinni. Náttúruverndarráð tilnefnir tvo aðalmenn og tvo varamenn. Aðalmenn í hreindýranefnd skulu allir vera búsettir á Austurlandi.
    Umsjónarmaður með hreindýrum skv. 3. gr. skal sitja fundi nefndarinnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.
    Menntamálaráðherra ákveður þóknun nefndarmanna.

5. gr.

    Menntamálaráðuneytið ræður að fengnum tillögum umsjónarmanns eftirlitsmann í hverju sveitarfélagi þar sem hreindýr ganga.
    Eftirlitsmenn skulu starfa undir stjórn umsjónarmanns og vera honum til aðstoðar við framkvæmd laganna.
    Menntamálaráðuneytið greiðir þóknun eftirlitsmanna að fengnum tillögum hreindýranefndar.

6. gr.

    Menntamálaráðuneytið getur ákveðið, að fengnum tillögum umsjónarmanns, að fella megi ákveðinn fjölda hreindýra á ári hverju, en hreindýranefnd ákveður þann fjölda dýra sem fella má í hverju sveitarfélagi. Veiðitími skal auglýstur og sá fjöldi dýra sem heimilt er að fella hverju sinni. Aldrei má heimila veiðar á tímabilinu frá l5. september til 1. ágúst.
    Umsjónarmaður getur hvenær sem er heimilað að fella megi sjúk eða særð dýr. Einnig dýr, sem eru í svelti eða sjálfheldu og dýr til rannsókna. Þá getur umsjónarmaður heimilað að fella þau dýr sem valda verulegum spjöllum ef ekki verður komið í veg fyrir þau með öðrum hætti.
    Menntamálaráðuneytið getur, að fengnum tillögum umsjónarmanns, heimilað að handsama megi dýr til eldis, handa dýragörðum, til að nema ný lönd eða í öðrum áþekkum tilgangi.

7. gr.

    Sveitarfélag, þar sem hreindýr ganga, á rétt til veiða á þeim dýrum sem hreindýranefnd ákveður að fella megi hverju sinni í því sveitarfélagi.
    Sveitarstjórn skipuleggur veiðar í sínu sveitarfélagi og eru veiðar þar óheimilar án samþykkis hennar.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. getur sveitarfélag ekki skipulagt veiðar í eignarlöndum og afréttum, sem háðir eru einstaklingseignarrétti, án samþykkis eiganda eða annarra rétthafa.
    Menntamálaráðuneytið getur, að fengnum tillögum umsjónarmanns, bannað veiðar á afmörkuðum svæðum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. getur umsjónarmaður heimilað sveitarfélagi, sem rétt á til veiða skv. ákvörðun hreindýranefndar, veiðar í öðru sveitarfélagi, enda gangi hreindýr að jafnaði ekki í fyrrnefnda sveitarfélaginu á veiðitímabilinu.

8. gr.

    Umsjónarmaður gefur út veiðileyfi til sveitarstjórna þegar fyrir liggur ákvörðun hreindýranefndar skv. 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. Umsókn um veiðileyfi skal vera skrifleg. Óski sveitarstjórn ekki eftir leyfi til að fá að veiða öll þau dýr sem hreindýranefnd heimilar að veiða megi í því sveitarfélagi má umsjónarmaður leyfa öðrum sveitarfélögum veiðar á þeim dýrum sem umfram verða.
    Heimilt er sveitarstjórn að endurselja veiðileyfi samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fengnum tillögum hreindýranefndar.
    Menntamálaráðuneytið setur reglur um gjaldtöku fyrir veiðileyfi og felld hreindýr að fengnum tillögum hreindýranefndar.
    Tekjum af sölu veiðileyfa, sem hreindýranefnd úthlutar, skal varið til að standa undir kostnaði við framkvæmd laganna þar á meðal til rannsókna og eftirlits með hreindýrastofninum samkvæmt reglugerð sem menntamálaráðherra setur. Andvirði felldra dýra og tekjur af endursölu veiðileyfa renna í sveitarsjóð og ákvarðar sveitarstjórn meðferð fjárins eftir reglum sem hún setur. Í þeim reglum skal gert ráð fyrir að þeir aðilar fái sérstakar greiðslur sem verða fyrir mestum ágangi hreindýra á lönd sín.

9. gr.


    Þeir einir mega veiða hreindýr sem að mati eftirlitsmanns hafa til þess næga skotfimi og kunnáttu í meðferð skotvopna. Skulu þeir hafa leyfi til að eiga og nota skotvopn, sbr. lög nr. 46/1977 og reglugerð nr. 16/1978, sbr. reglugerð nr. 174/1979.

10. gr.

    Eftirlitsmaður í því sveitarfélagi þar sem hreindýr eru veidd eða leiðsögumaður á hans vegum skal vera með í sérhverjum veiðileiðangri. Hann skal ganga úr skugga um að veiðimenn hafi tilskilin leyfi og kunnáttu og búnað til veiðanna og synja um veiðiferð ef á það skortir.
    Veiðimönnum er skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanns um allt er veiðarnar varðar.
    Sá er heimild hefur til veiða greiðir veiðieftirlitsmanni þóknun vegna veiðiferðar samkvæmt gjaldskrá sem hreindýranefnd setur.

11. gr.

    Til veiða á hreindýrum má einungis nota:
a.     Riffla cal. 243 eða stærri með minnst 100 „grain“ kúlu.
b.     Kúlur sem þenjast eða fletjast út er þær lenda í veiðibráð.
    Sjálfvirkir rifflar eru bannaðir við hreindýraveiðar.

12. gr.

    Sá sem særir dýr er skyldur til að gera allt hvað hann getur til að aflífa það. Reynist það ekki framkvæmanlegt er honum skylt að tilkynna það eftirlitsmanni og aðstoða hann við að aflífa dýrið.

13. gr.

    Hvorki má skjóta hreindýr úr vélknúnu farartæki né nota það til að smala hreindýrum á ákveðinn veiðistað.

14. gr.

    Þeim sem fá heimild til að veiða hreindýr er skylt að virða lög og reglur um náttúruvernd og umferð, m.a. að aka ekki utan vega og vegslóða.

15. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða, ef sök er mikil, varðhaldi allt að þremur mánuðum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál út af brotum á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

16. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 28 frá 12. febrúar 1940, um friðun hreindýra og eftirlit með þeim, sbr. lög nr. 72 frá 24. apríl 1954 og 2. mgr. 7. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849.
    Kostnaður við framkvæmd laganna greiðist úr ríkissjóði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Með bréfi dagsettu 25. janúar 1985 skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, fimm manna nefnd er semja skyldi ný lög um friðun
hreindýra og eftirlit með þeim. Skyldu þau koma í stað laga nr. 28/1940, sbr. lög nr. 72/1954 um sama efni. Í nefnd þessari áttu sæti Valtýr Sigurðsson héraðsdómari, formaður, Bogi Nilsson sýslumaður, Jón Pétursson héraðsdýralæknir, Magnús Þorsteinsson bóndi, og Sverrir Scheving Thorsteinsson jarðfræðingur. Með nefndinni starfaði sem sérfróður ráðgjafi Skarphéðinn Þórisson líffræðingur.
    Nefnd þessi skilaði drögum að frumvarpi haustið 1986, en tveir síðasttaldir nefndarmenn gerðu fyrirvara varðandi viss atriði í frumvarpinu. Frumvarpsdrögin voru því næst send eftirtöldum aðilum til umsagnar: Sýslumönnum í Norður-Múlasýslu, Suður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu, héraðsdýralæknum á Egilsstöðum, Breiðdalsvík og Höfn í Hornafirði, Búnaðarsambandi Austurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Búnaðarfélagi Íslands, sauðfjárveikivörnum, dr. Gauki Jörundssyni prófessor.
Eftirtaldir aðilar fengu frumvarpsdrögin til kynningar: Náttúruverndarráð, Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, oddvitar á Austurlandi, sveitarstjórar á Austurlandi, bæjarstjórar á Seyðisfirði og Eskifirði, hreindýraeftirlitsmenn á Austurlandi.
Umsagnir eða athugasemdir bárust frá eftirgreindum aðilum: Búnaðarsambandi Austurlands, bæjarráði Eskifjarðar, dr. Gauki Jörundssyni prófessor, hreppsnefnd Búðahrepps, hreppsnefnd Jökuldalshrepps, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarráði, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Skotveiðifélagi Íslands, sýslumanni Suður-Múlasýslu.
    Ýmsar athugasemdir bárust frá umsagnaraðilum og í framhaldi af þessu fól þáverandi menntamálaráðherra, Birgir Ísleifur Gunnarsson, þeim Friðgeiri
Björnssyni, yfirborgardómara í Reykjavík, og Þorgeiri Örlygssyni, settum prófessor, að endurskoða frumvarpsdrögin með tilliti til þeirra athugasemda sem borist höfðu varðandi fyrrgreind frumvarpsdrög og nokkrar breytingar hafa síðan verið gerðar eftir ábendingar frá þingflokkum.

II.


Þróun löggjafar um hreindýraveiðar á Íslandi.


    Í umsögn dr. Gauks Jörundssonar prófessors um frumvarpsdrög þau, sem áðurgreind fimm manna nefnd samdi, er m.a. rakin söguleg þróun löggjafar hér á landi um hreindýr og veiðar þeirra. Þar segir: „Á síðari hluta l8. aldar voru flutt hingað til lands hreindýr frá Finnmörku og þeim sleppt á nokkrum stöðum hér á landi. Ráðagerðir voru um það í upphafi að alfriða hreindýrin, en ekki munu slík ákvæði hafa verið sett. Hins vegar virðist hafa verið á því byggt að veiði hreindýra væri óheimil, sbr. konungsúrskurð 19. maí 1790.
    Þegar hreindýrum fór að fjölga hér á landi fór að gæta þeirrar skoðunar að þau yllu verulegu tjóni á gróðri og spilltu með því m.a. beit fyrir sauðfé. Þetta viðhorf var orðið áhrifamikið í byrjun 19. aldar og fór svo að lokum að takmarkanir á veiði hreindýra voru afnumdar í veiðitilskipuninni frá 20. júní 1849. Var þar svo kveðið á að hreindýr mætti veiða hvar sem væri. Var byggt á því að hreindýr yllu miklum spjöllum á gróðri og því bæri að stuðla að veiði þeirra.
    Með lögum nr. 6/1882 voru á ný tekin upp ákvæði til verndar hreindýrum. Skyldu þau vera friðhelg frá 1. janúar til 1. ágúst ár hvert. Hreindýrum fækkaði samt á þeim harðindaárum sem í hönd fóru. Var gripið til þess ráðs með lögum nr. 42/1901 að friða hreindýr algjörlega fyrir veiðum í 10 ár frá 1. janúar 1902 að telja. Jafnframt var með lögum þessum numið úr gildi fyrrgreint ákvæði veiðitilskipunarinnar frá 1849 að hreindýr („hreina“) mætti veiða hvar sem væri. Verður að líta svo á að síðastgreint ákvæði hafi verið fellt úr gildi fyrir fullt og allt, enda þótt friðun samkvæmt lögum nr. 42/1901 væri út af fyrir sig tímabundin. Þar með var úr sögunni sú heimild sem verið hafði til að stunda hreindýraveiðar í eignarlöndum og löndum í afréttareign án leyfis landeiganda eða afréttareiganda. Friðunartími samkvæmt lögum nr. 42/1901 var framlengdur með lögum nr. 45/1911 og lögum nr. 49/1917. Samkvæmt lögum nr. 32/1927 áttu hreindýr að vera friðuð hvarvetna fyrir skotum og öðrum veiðivélum til 1. janúar 1935, en heimilt skyldi þó að handsama þau til eldis. Eigi var þess gætt að setja friðunarákvæði fyrr en með lögum nr. 49/1937. Samkvæmt þeim lögum skyldi friðunartíminn ná fram til 1. janúar 1945, en að öðru leyti voru ákvæði laganna sama efnis og lög nr. 33/1927.
    Ný lög voru samþykkt á Alþingi í árslok 1939, lög nr. 28/1940, um friðun hreindýra og eftirlit með þeim. Eru þau enn í gildi, en var breytt nokkuð með lögum nr. 72/1954, sbr. einnig lög nr. 75/1982. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1940 nutu hreindýr upphaflega algjörrar friðunar, en ráðherra var þó heimilt að láta veiða hreintarfa, ef sérstök ástæða virtist til, og enn fremur að veita mönnum leyfi til að handsama dýr til eldis. Þessu ákvæði var breytt nokkuð með fyrrnefndum lögum nr. 72/1954 og undanþáguheimildin rýmkuð. Getur ráðherra nú heimilað veiðar ef eftirlitsmaður hreindýra telur að þeim hafi fjölgað svo að stofninum stafi ekki hætta af veiðum. Ráðherra á að setja reglur um veiðarnar að fengnum tillögum hlutaðeigandi sýslumanna og eftirlitsmanna. Einnig á ráðherra að kveða á um hvert sá hagnaður á að renna, sem kann að verða af veiðunum.
    Reglur hafa verið settar um hreindýraveiðar samkvæmt lögum nr. 28/1940, sbr. lög nr. 72/1954 um breytingu á þeim lögum. Þar hefur verið tilgreind sú tala hreindýra, sem leyft er að veiða, og þeim skipt milli nafngreindra hreppa, sbr. t.d. 3. gr. reglna nr. 110/1956, um hreindýraveiðar í Múlasýslum árið 1956, 3. gr. reglna nr. 263/1960, um hreindýraveiðar í Múlasýslum og nú síðast 2. gr. reglna nr. 317/1987, um hreindýraveiðar árið 1987. Framan af var einnig heimilað að selja veiðifélögum og síðar einnig einstaklingum leyfi til að veiða dýr til viðbótar eða dýr sem hreppar nýttu sér ekki, sbr. t.d. 4. gr. reglna nr. 110/1956 og 5. gr. reglna nr. 263/1960. Um ráðstöfun arðs af veiðum hefur þeirri meginreglu verið fylgt að hann renni til viðkomandi hreppa. Hver sveitarstjórn á að skipta fénu innan síns umdæmis. Skal sveitarstjórn láta þá bændur sem fyrir mestum ágangi verða af hreindýrum á beitilönd sín fyrst og fremst njóta arðs af veiðunum, en síðan sveitarsjóð, enda greiði hann nú þóknun þeim mönnum sem eru hreindýraeftirlitsmönnum til aðstoðar við veiðarnar, sbr. t.d. 5. gr. reglna nr. 110/1956, 5. gr. reglna nr. 263/1960, 4. gr. reglna nr. 209/1973 og 4. gr. reglna nr. 317/1987. Síðustu ár hefur verið tekið fram að taka megi tillit til þess við skiptingu arðs af hreindýraveiðum ef hreindýr valda spjöllum eða gera átroðning á eyðijörðum, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. reglna nr. 317/1987. Ýmis önnur fyrirmæli um veiðarnar hafa verið settar í reglum þessum“.

III.


Markmið frumvarps þessa.


    Hreindýr setja sérstakan svip á náttúru- og dýralíf landsins. Þau halda sig nær eingöngu á Austurlandi, en þar hafa þau á síðustu árum breytt mjög
háttum sínum. Aðalsumarhagar þeirra voru til skamms tíma í nágrenni Snæfells, en þaðan leituðu þau út heiðar og niður til byggða, er vetra tók. Síðustu 10–15 árin hefur æ stærri hluti hreindýrahjarðarinnar tekið sér bólfestu í Austfjarðafjallgarðinum og dölunum inn af Austfjörðum, allt frá Borgarfirði í norðri til Hornafjarðar í suðri.
    Bændur og sveitarstjórnir á þessu svæði munu líta þetta landnám hreindýranna misjöfnum augum, enda vill það bera við að hreindýr valdi gróðurspjöllum, einkum að vetrarlagi.
    Með lögum þessum er, svo sem segir í 1. gr. þeirra, að því stefnt að tryggja eftir föngum tilvist hóflegs fjölda hreindýra í landinu, friðun þeirra og kveða á um nytjar af stofninum eftir því sem stærð hans leyfir. Með lögunum eru felld úr gildi lög nr. 28 frá 12. febrúar 1940, sbr. lög nr. 72 frá 24. apríl 1954 og 2. mgr. 7. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er lýst markmiðum frumvarpsins. Í 2. mgr. kemur fram sú meginregla sem frumvarpið byggir á, þ.e. að hreindýr séu friðuð með þeim undantekningum sem í lögunum greinir. Er því áfram fylgt sömu friðunarstefnu og mörkuð var m.a. með lögum nr. 28 12. febrúar 1940, um friðun hreindýra og eftirlit með þeim, sbr. lög nr. 72 24. apríl 1954, og reglum um hreindýraveiðar.

Um 2. gr.


    Samkvæmt ákvæðum 12. tölul. 10. gr. auglýsingar nr. 96 frá 31. desember 1969, um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, fer menntamálaráðuneytið með mál er varða friðun hreindýra og eftirlit með þeim. Til samræmis við ákvæði þeirrar greinar er svo ákveðið í 2. gr. frumvarps þessa að menntamálaráðuneytið fari með yfirstjórn þeirra mála er lögin taka til.

Um 3. gr.


    Hreindýraeftirlitsmaður Fljótsdalshrepps hefur nú aðalumsjón með hreindýrum svo og umsjón með störfum annarra hreindýraeftirlitsmanna sem eru 31 talsins. Þessi skipan byggir á ákvæðum í reglum þeim sem menntamálaráðuneytið setur um hreindýraveiðar á ári hverju, nú síðast reglur
nr. 366/1988. Nauðsynlegt þykir hins vegar að stofna sérstaka stöðu umsjónarmanns með hreindýrum sem hafi það hlutverk m.a. að vera tengiliður milli menntamálaráðuneytisins og þeirra ýmsu aðila er telja sig málefni hreindýra varða.
    Hlutverki umsjónarmanns er lýst í 3. gr. Með hliðsjón af því að umsjónarmaður á m.a. að stjórna rannsóknum á hreindýrastofninum þykir eðlilegt að gera þær kröfur til umsjónarmanns að hann hafi líffræðimenntun eða sambærilega menntun.
    Hagkvæmt þykir að umsjónarmaður sé starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, en þar er að finna þann tækjabúnað og þekkingu sem umsjónarmaður þarf að hafa aðgang að. Eðlilegt er að umsjónarmaður sé búsettur á Austurlandi.

Um 4. gr.


    Lagt er til að skipuð verði sérstök nefnd fimm manna, hreindýranefnd, er hafi með höndum það hlutverk að vera ráðgefandi um framkvæmd laganna og annast þau störf sem henni eru í lögunum falin. Gert er ráð fyrir að í nefndinni eigi sæti fulltrúar þeirra aðila er þessi mál varða mest. Eðlilegt þykir, þar sem um er að ræða friðunarlöggjöf, að Náttúruverndarráð tilnefni tvo nefndarmenn.
    Það ákvæði að nefndarmenn skuli vera búsettir á Austurlandi er til þess fallið að auðvelda störf nefndarinnar auk þess sem þetta fyrirkomulag er talið eðlilegt á meðan hreindýr ganga eingöngu á Austurlandi. Hins vegar þykir ekki ástæða til þess að sömu reglur um búsetu nái til varamanna.
    Ljóst er að náið samstarf þarf að vera milli hreindýranefndar og umsjónarmanns og því er lagt til að umsjónarmaður sitji fundi nefndarinnar og hafi þar málfrelsi og tillögurétt.

Um 5. gr.


    Með grein þessari er lagt til að lögfest verði að meginstefnu til það fyrirkomulag um skipun hreindýraeftirlitsmanna sem hingað til hefur gilt samkvæmt reglum menntamálaráðuneytisins um hreindýraveiðar.
    Lagt er til að menntamálaráðuneytið ráði hreindýraeftirlitsmenn í öllum sveitarfélögum þar sem hreindýr ganga og umsjónarmaður geri tillögur um þær ráðningar.
    Störf eftirlitsmanna eru samkvæmt frumvarpinu aðallega tvíþætt. Annars vegar er um að ræða eftirlitsstörf undir stjórn umsjónarmanns og hins vegar
eftirlit í einstökum veiðiferðum. Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins er lagt til að handhafar veiðileyfa greiði þóknum til eftirlitsmanna vegna eftirlits í veiðiferðum, en samkvæmt þessari grein er lagt til að þóknun vegna almennra eftirlitsstarfa greiði menntamálaráðuneytið að fengnum tillögum hreindýranefndar.

Um 6. gr.


    Í grein þessari koma fram þær undantekningar, sem lagt er til að gera megi frá friðunarákvæðum 1. gr.
    Með reglum, er gefnar hafa verið út árlega, hefur menntamálaráðuneytið ákveðið þann fjölda dýra er veiða hefur mátt ár hvert. Einnig hefur veiðitími verið ákveðinn með sama hætti.
    Lagt er til að þetta fyrirkomulag verði lögfest óbreytt að mestu. Þó myndi samkvæmt greininni nægja að auglýsa fjölda þeirra dýra er veiða má og veiðitíma í fjölmiðlum, en nauðsynlegt kann að reynast að breyta veiðitíma með stuttum fyrirvara vegna ástands stofnsins og framgangs veiðanna. Byggir frumvarpið á því að menntamálaráðuneytið ákveði þann heildarfjölda dýra sem fella má hverju sinni, en hreindýranefnd ákveði skiptinguna innbyrðis milli sveitarfélaga.
    Í greininni eru sérstakar heimildir til handa umsjónarmanni til þess að taka ákvörðun um að fella megi dýr í sérstökum tilvikum utan hins reglulega veiðitíma. Þá er og gert ráð fyrir því að fella megi dýr sem valda verulegum spjöllum ef ekki verður komið í veg fyrir þau með öðru móti. Mat á því hvort öðrum úrræðum verði komið við er lagt í hendur umsjónarmanni.
    Gert er ráð fyrir því að menntamálaráðuneytið geti heimilað flutning á hreindýrum til annarra landsvæða, enda standi ákvæði laga eða samþykkta sveitarstjórna ekki í vegi fyrir slíkum flutningum.

Um 7. gr.


    Grundvallarregla íslensks réttar um veiði er sú að veiði fylgi eignarrétti að landi, sbr. 1. gr. veiðitilskipunarinnar frá 20. júní 1849, 2. gr. laga nr. 33/1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun og 2. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.
    Sú tilhögun sem gerð er tillaga um í 1. mgr. 7. gr. frumvarps þessa varðandi hreindýraveiðar felur í sér nokkurt frávik frá þessari meginreglu.
    Aðalregla frumvarpsins er sú að hreindýr skuli friðuð, en veiðar á þeim heimilar að vissu marki samkvæmt ákveðnu skipulagi. Til þess að auðvelda
friðunina og skipulagningu hinna takmörkuðu veiða þykir hentast að rétturinn til veiða á hreindýrum og arðurinn af þeim tilheyri þeim sveitarfélögum þar sem hreindýr ganga, en fylgi ekki eignarrétti að landi. Telja verður að löggjafinn hafi heimild til þess að ákveða slíka tilhögun. Kemur þar til að hreindýr hafa að meginstefnu til verið friðuð um langa hríð og veiði þeirra ekki verið tengd veiðirétti landeigenda eða rétthafa beitarréttinda og veiðirétturinn ekki verið fémætur í höndum landeigenda.
    Þótt rétturinn til veiða og arðs af veiðum tilheyri sveitarfélögum skv. 1. mgr. 7. gr. og sveitarstjórnir skuli skv. 2. mgr. 7. gr. skipuleggja veiðarnar í sínu sveitarfélagi er við það miðað að sveitarfélög geti ekki skipulagt veiðar í eignarlöndum án samþykkis eigenda þeirra. Verða veiðar því ekki stundaðar í eignarlöndum án samþykkis eigenda eða annarra rétthafa, sbr. ákvæði 3. mgr. 7. gr.
    Hvað viðvíkur ákvæðum 4. mgr. 7. gr. um heimild til þess að leyfa sveitarfélagi veiðar utan marka sinna skal þess getið að nokkuð mun um það í einstaka sveitarafélögum, einkum í lágsveitum, að hreindýr gangi þar mest allt árið, en þó ekki á veiðitíma. Þykir því sanngjarnt að lögfesta þá tilhögun að umsjónarmaður megi veita þeim sveitarfélögum, sem þannig hagar til um, aðgang að veiðilendum utan marka sinna.

Um 8. gr.


    Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög leysi til sín veiðileyfi gegn gjaldi sem skal varið til þess að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna. Þetta fyrirkomulag á gjaldtöku þykir einfaldara en það sem tíðkast hefur. Hins vegar renni andvirði felldra dýra í sveitarsjóð og sveitarstjórn skal ákvarða meðferð fjárins eftir fyrirfram ákveðnum reglum. Í þeim reglum skal gert ráð fyrir að þeir aðilar sem verða fyrir mestum ágangi hreindýra á lönd sín fái sérstakar greiðslur fram yfir aðra eða sérstakar greiðslur sé féð að öðru leyti látið renna beint í sveitarsjóðinn.
    Þá er gert ráð fyrir því að sveitarstjórnir megi endurselja einstaklingum veiðileyfi, en þó eftir fyrirmælum í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fengnum að tillögum hreindýranefndar.

Um 9. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Hér er sú skipan lögð til að veiðar fari fram undir eftirliti hreindýraeftirlitsmanns eða leiðsögumanns á hans vegum. Að rétti eftirlitsmanns eða leiðsögumanns til þóknunar fyrir þátttöku í veiðiferð er vikið í athugasemdum við 5. gr. og vísast þangað.

Um 11. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Nauðsynlegt þykir að lögfesta ákvæði þess efnis að veiðar og smölun hreindýra með vélknúnum farartækjum sé óheimil. Með vélknúnum farartækjum er átt við bifreiðar, vélsleða, dráttarvélar, fjórhjól, flugvélar og önnur slík farartæki.

Um 14. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.


REPRÓ Í GUTENBERG – Fylgiskjöl I og II.