Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 484 . mál.


Sþ.

868. Skýrsla



um störf 40. þings Evrópuráðsins.

Frá íslensku þingmannanefndinni í Evrópuráðinu.



    Evrópuráðið í Strasborg verður 40 ára 5. maí næstkomandi. Verður þess minnst með margvíslegum hætti bæði í Strasborg og aðildarríkjunum. Finnland gengur formlega í ráðið þennan dag og eru þá öll lýðræðisríki álfunnar að fullu orðin þátttakendur í þessu samstarfi. Fyrir Norðurlandaríkin hefur þetta mikla þýðingu.
    Evrópuráðið hefur haft mikil áhrif á löggjöf og stjórnsýslu aðildarríkjanna. Starf þess hefur miðast við ýmis þau svið sem heyra til daglegu lífi manna, mannréttindum, menningu og félagslegu öryggi.
    Varnarmál hefur ráðið ekki fengist við. Hins vegar mynda þingmenn Evrópuráðsins frá nokkrum ríkjum ráðsins Vestur-Evrópubandalagið svonefnda, en það fjallar um varnar- og öryggismál. Ísland er ekki í því bandalagi, en telja má að Íslendingar hefðu gagn af að fylgjast þar með málum.
    Þingmannanefnd Vestur-Evrópubandalagsins kom til Íslands í júní á liðnu ári og heimsótti m.a. varnarstöðina í Keflavík.
    Forseti þings Evrópuráðsins, Louis Jung, var í för með þingmannanefndinni og heimsótti Evrópuráðsnefnd Alþingis.
    Síðar um sumarið kom framkvæmdastjóri ráðsins, Marcelino Oreja, í opinbera heimsókn. Er það álit skýrsluhöfunda að heimsóknir þessara tveggja æðstu manna Evrópuráðsins hafi orðið til góðs.

Íslenska nefndin.


    Í starfsreglum Evrópuráðsþingsins segir hve margir þingmenn séu í sendinefnd hvers lands. Fyrir Ísland eiga þrír þingmenn sæti á þingum ráðsins, en þrír eru til vara. Bæði aðal- og varamenn sitja í málefnanefndum ráðsins. Aðalmenn eru þingmennirnir Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Kjartan Jóhannsson og varamenn Ragnar Arnalds, Hreggviður Jónsson og Kristín Halldórsdóttir.
    Formaður nefndarinnar er Ragnhildur Helgadóttir og varaformaður Kjartan Jóhannsson. Formaður íslensku nefndarinnar hefur þetta árið verið einn af varaforsetum Evrópuráðsþingsins og í stjórnarnefnd þess. Tvö Norðurlandanna hafa í senn átt sæti til skiptis í stjórnarnefndinni og þrjú í senn samkvæmt nýrri reglu eftir að Finnland gengur í ráðið.
    Formenn sendinefnda allra landanna eiga sæti í svokallaðri fastanefnd (standing committee), en hún tekur, ef þurfa þykir, ákvarðanir og afgreiðir mál fyrir þingsins hönd þegar það situr ekki.
    Aðalmenn og varamenn skipta með sér verkum í málefnanefndum þingsins með svofelldum hætti:

    Efnahagsnefnd:     Ragnar Arnalds,
     til vara:     Guðmundur G. Þórarinsson.
    Laganefnd:     Kjartan Jóhannsson,
     til vara:     Ragnhildur Helgadóttir.
    Menntamálanefnd:     Guðmundur G. Þórarinsson,
     til vara:     Ragnar Arnalds.
    Landbúnaðarnefnd:     Kjartan Jóhannsson.
    Heilbrigðis- og félagsmálanefnd:     Ragnhildur Helgadóttir,
     til vara:     Kristín Halldórsdóttir.
    Nefnd um samskipti við lönd utan
    Evrópuráðsins:     Kristín Halldórsdóttir.
    Nefnd um almannatengsl þingsins:     Hreggviður Jónsson.
    Þingskapanefnd:     Ragnar Arnalds.
    Fjárlaganefnd:     Ragnar Arnalds.
    Stjórnmálanefnd:     Ragnhildur Helgadóttir.
    Vísinda- og tækninefnd:     Kjartan Jóhannsson.
    Skipulags- og sveitarstjórnar-
    málanefnd:     Guðmundur G. Þórarinsson.
    Flóttamannanefnd:     Guðmundur G. Þórarinsson.


Störf þingsins.


    Fyrsti hluti 40. reglulegs þings Evrópuráðsins var haldinn í Strasborg 2.–6. maí 1988.
    Fyrsta mál þingsins var starfsskýrsla stjórnar ráðsins flutt af Grikkjanum Cristos Markopoulos. Hann fagnaði bættum samskiptum við Evrópuþingið. Í ræðu
hans kom eftirfarandi fram: Þing Evrópuráðsins og Evrópuþingið (Efnahagsbandalagið) vinna í sameiningu að ráðstefnunni um þingræði í lýðræðisríkjum. Ráðstefnur um það efni eru orðnar fastur liður í starfsemi Evrópuráðsins og eru þær haldnar á tveggja til þriggja ára fresti.
    Aukin samskipti við Austur-Evrópu setja í vaxandi mæli svip á starfsemi Evrópuráðsins. Nefnd frá æðsta ráðinu í Sovétríkjunum sótti fund stjórnarnefndarinnar í apríl 1988 og forseti þingsins heimsótti Austur-Evrópu. Þessi samskipti fengu jákvæðar undirtektir í umræðum á þinginu. Fram kom að Evrópuráðið hefði mikilvægu hlutverki að gegna í þessum samskiptum, einkum á sviði umhverfismála og mannréttinda.
    Svíinn Anders Björck hafði framsögu fyrir nefndaráliti um Evrópustefnu í flugmálum. Miðaðist hún við að gera fólki það auðveldara og öruggara að ferðast flugleiðis innan Evrópu. Áður hafði þingið markað þá stefnu að saman færi samkeppni, sveigjanleiki og góður árangur af flugsamgöngunum. Fjallað var um tölvuvæðingu farpantana og að um 80% farpantana væru gerðar á grundvelli fyrstu upplýsinganna sem birtust á skjánum. Þær upplýsingar væru ekki alltaf um hagstæðustu ferð fyrir neytandann, heldur þá ferð sem best hentaði flugfélaginu að selja. Stuðningur kom fram við hugmyndir ECAC um að setja siðareglur fyrir þessi kerfi. Þá var vikið að vaxandi umferð um lofthelgi og flugvelli enda hefði enginn nýr meiri háttar flugvöllur verið byggður í Evrópu síðastsliðin tíu ár. Hávaðamengun vegna flugs varð mönnum umræðuefni og loks árvissar aðfinnslur Breta um erfiðleika í flugsamgöngum við Strasborg. Telja þeir að ríkisstjórn Frakklands eigi að sýna hug sinn til Evrópusamstarfs í verki með því að bæta lendingarskilyrði í nánd við Strasborg.
    Þingið ræddi nefndarálit um aðgang að sjónvarpi í kosningabaráttu. Byggðist nefndarálitið fyrst og fremst á athugunarefnum sem upp koma vegna sjónvarps í landamærahéruðum eða löndum sem liggja saman. Samþykkt var tillaga nefndarinnar um að skora á ráðherranefndina að móta Evrópureglur um rétt stjórnmálaflokka í þessu sambandi.
    Nefndarálit um vernd gegn mengun Norðursjávar fékk góðar undirtektir. Kom fram hörð gagnrýni á þann skort á aðgæslu sem fælist í því að allt of miklu magni úrgangs og áburðar væri hleypt í stórár meginlandsins sem síðan hefði áhrif á lífríki Norðursjávar. Kom fram mikill stuðningur við meginregluna um greiðsluskyldu mengunarvaldsins.
    Samþykkt var tillaga heilbrigðis- og félagsmálanefndar um fjölskyldustefnu. Var þar fjallað um tengsl fjölskyldunnar við eftirtalda
þætti: löggjöf, atvinnulíf, skattamál, félagslegt öryggi, húsnæði, fræðslu, neytendaráðgjöf og fólksflutninga.
    Ályktun var samþykkt í framhaldi af skýrslunni um fræðslu og þjálfun, svo og skýrslu um menntun og menningu.
    Fyrri skýrslunni fylgdi framkvæmdastjóri ráðsins, Oreja, úr hlaði og voru aðalatriði hennar þessi:
1.     Menntun og þjálfun þyrftu að fullnægja eftirspurn atvinnulífsins.
2.     Menntun búi fólk undir þátttöku í þjóðfélagsstarfseminni.
3.     Menntun stuðli að jafnrétti til tækifæra.
4.     Fullorðinsmenntun. Annað tækifæri gefist fyrir þá sem gátu ekki nýtt skólanámið í æsku.
5.     Menntun sem nær „evrópskri vídd“ (sem auðveldar framhald menntunar í öðru landi Evrópu).
    Fram kom að allt frá því er menningarsáttmáli Evrópu var gerður 1953 hefði talsvert skort á sameiginlegar aðgerðir í þessum efnum.
    Í umræðunum um skýrsluna um menntun og menningu var áhersla lögð á menntun kennara, varðveislu þjóðtungnanna og fjarkennslu.
    Auk ályktana, sem hér hafa verið nefnd nokkur dæmi um, ræddi þingið ítarlega um ástandið í Ísrael. Áheyrendur voru ýmsir sendiherrar Arabaríkjanna og áheyrnarfulltrúi Ísraels í ráðinu var meðal ræðumanna. Mikill stuðningur kom fram við hugmyndina um alþjóðlega ráðstefnu þar sem Ísraelsmenn og Palestínumenn hefðu tækifæri til að ræðast við til að undirbúa friðsamlega lausn.
    Annar hluti 40. þingsins var haldinn í Strasborg 3.–8. október sl. Framsögu fyrir skýrslu stjórnarnefndar hafði Ragnhildur Helgadóttir. Ræddi hún um heimsókn páfa til þingsins þessa daga og ávarp hans. Hún fjallaði einnig um heimsókn framkvæmdastjóra OECD og taldi gagnlegt að komið yrði á þingmannasamstarfi milli OECD og Evrópuráðsins. Ragnhildur kvað Íslendinga fagna sérstaklega aðild Finna að Evrópuráðinu. Þá hvatti hún til að Frakkar afléttu hömlum á ferðafrelsi milli Evrópulanda. Bretar og Austurríkismenn gagnrýndu harðlega kröfu Frakka um vegabréfsáritun. Forseti þingsins kvaðst beita öllu afli til að telja frönsku ríkisstjórninni hughvarf. Nokkru eftir að þessi umræða fór fram féllu Frakkar frá kröfu um vegabréfsáritun fyrir borgara nokkurra ríkja, þar á meðal Íslands.
    Hinn 6. október fór fram umræða um nefndarálit stjórnmálanefndarinnar um viðhorf Evrópuráðs gagnvart samskiptum austurs og vesturs. Framsögu höfðu þær Catharine Lalumiere frá Frakklandi og Loyola Palacio frá Spáni. Báðar hvöttu þær til aukinna samskipta við Sovétríkin en um leið til varfærni. Ýmsum spurningum væri ósvarað um stefnuna austur þar. Þrátt fyrir þíðuna væri ætlun Gorbatsjovs ekki augljós og grundvallarhugmyndir marx-leninisma hefðu þar ekki verið dregnar í efa. Upplýsingar að austan væru hlutdrægar. Töldu þær að Evrópuráðið ætti á grundvelli meginhugmynda sinna um frelsi, lýðræði og mannréttindi að vinna að árvekni á þessum sviðum bæði í Vestur- og Austur-Evrópu.
    Miklar umræður urðu um nefndarálitið og tillögur sem voru að lokum samþykktar þar sem Bandaríkin og Sovétríkin voru hvött til að draga verulega úr hefðbundnum vopnabúnaði. Í tillögunum var einnig fagnað auknu ferðafrelsi í Ungverjalandi en hörmuð meðferð minnihlutahópa í Rúmeníu.
    Málefni palestínskra flóttamanna var efni skýrslu Bretans David Atkinsson sem hafði á vegum ráðsins gert sérstaka könnun á því máli. Var samþykkt að hvetja aðildarríkin til að auka fjárstuðning við flóttamannahjálpina UNRWA í flóttamannabúðum Líbanon, Vesturbakkans og Gaza.
     Barátta gegn fíkniefnum var efni nefndarálita og tillagna sem tvær nefndir höfðu undirbúið, heilbrigðis- og félagsmálanefnd og laganefnd. Í umræðunum kom fram að rót vandans lægi í efnahagslegri þýðingu sem ræktun fíkniefna hefði fyrir sum lönd í heiminum. Yrði að beina ræktun inn á þær brautir sem hefðu jafnmikla efnahagsþýðingu, en væru ekki skaðlegar svo sem fíkniefnin væru. Fram kom að aðgát þyrfti að hafa í fræðslu og upplýsingum um fíkniefni svo að ekki yrði til að hvetja til neyslu í stað þess að fæla frá henni. Í tillögunum var lögð áhersla á að samræma þyrfti refsiviðurlög við fíkniefnabrotum og hafa samvinnu um fræðsluefni.
    Samþykktar voru tillögur um trúfrelsi í Austur-Evrópu, og um griðland fyrir flóttamenn.
    Tillaga, sem samþykkt var um meðferð mála fyrir Mannréttindadómstólnum, fól enn í sér að ráðherranefndin hraðaði viðurkenningu á rétti einstaklinga til að leggja mál sín fyrir dómstólinn.
    Umræður fóru fram um starf ríkja Evrópuráðs í stofnunum UNESCO. Skorað var á Stóra-Bretland, Singapore og Bandaríkin að ganga á ný í UNESCO og styðja þar með viðleitni núverandi framkvæmdastjórnar til að draga úr skriffinnsku í þeirri stofnun.
    Loks fóru fram ítarlegar umræður um áhrif OECD í Evrópu og umheiminum, svo og nefndarálit þar að lútandi.
    Sérstakar umræður fóru fram um eyðingu þorpa í Rúmeníu. Einkenndust þær af harðri gagnrýni á Rúmeníu fyrir brot á lokasamþykkt Helsinkisáttmálans.
    Samþykkt var tillaga um reglubundna endurskoðun Evrópusáttmálans um félagslegt öryggi, sérstaklega í ljósi breytinga sem kynnu að verða 1992.
    Tillögur voru samþykktar um sveitamenningu, svo og stöðu tungumála minnihlutahópa innan ríkja.
    Þriðji og síðasti hluti 40. þings Evrópuráðsins var 30. janúar til 3. febrúar á þessu ári.
     Skýrslu stjórnarnefndar flutti forseti þingsins, Louis Jung, en þetta er síðasta starfsár hans sem forseta. Hann kvaðst, þau þrjú ár sem hann hefði verið forseti, hafa orðið var við vaxandi „Evrópubölsýni“ þar sem gildi Evrópuráðs væri dregið í efa. Hefði ráðið þó gert mikið gagn og hefði miklu hlutverki að gegna til að styrkja undirstöður friðar í Evrópu. Í því sambandi lýsti hann stuðningi við samband ráðsins við Mið- og Austur-Evrópu. Hann fagnaði San Marino sem nýju aðildarríki og næst kæmi að Finnlandi. Hann minnti á nauðsyn þess að bæta samband þings Evrópuráðsins, ráðherranefndarinnar og Evrópubandalagsins.
    Skýrsla um norður–suður átakið svonefnda var til umræðu 31. janúar. Framsögumennirnir, Aarts frá Hollandi og Uwe Holtz frá Þýskalandi, kváðu viðhorfið til þróunaraðstoðar vera að breytast í þá átt að nú legðu menn meira upp úr gæðum aðstoðarinnar en magni. Menn undirstrikuðu enn á ný hve hagsmunir norðurs og suðurs væru samantvinnaðir. Samþykkt var tillaga um að Evrópuríki þyrftu að samræma betur aðgerðir sínar til aðstoðar, efla fræðslu og koma á fót Evrópumiðstöð til að samræma verkefnin og stuðla að framkvæmd þeirra. Hugmyndin um slíka miðstöð vakti nokkrar efasemdir, en menn sættust að lokum enda væri skilyrði að hér yrði ekki um nýtt skriffinnskubákn að ræða.
    Samþykkt var tillaga um verndun þeirra sem reykja ekki. Tillagan miðar að samræmingu á reglum landanna að þessu leyti.
    Rædd var og samþykkt tillaga um landbúnaðarframleiðslu í þágu iðnaðar á grundvelli nefndarálits sem hét „Landbúnaður Evrópu — leið út úr kreppunni“. Var rætt bæði um framleiðslu á orku og hráefnum til iðnaðar. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að efla menntun og rannsóknir í þessu skyni.
    Þá var rædd tillaga um að endurbæta landbúnaðarstefnu á grundvelli tveggja nefndarálita frá landbúnaðarnefnd og heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Megininntakið var hvatning til aðgerða sem drægju úr offramleiðslu.
    Nefndarálit um menntun barna innflytjenda var rædd og snerist að mestu um það hvort menntunin ætti að öllu leyti að miðast við tungumál og menningu
dvalarlandsins. Rætt var um samráð við foreldra í þessu sambandi og þörf á betri upplýsingum um fólksflutninga, svo og að upplýsingarnar væru sambærilegar.
    Ályktun var samþykkt um aðstoð vegna flótta íranskra og írakskra borgara til Tyrklands.
    Samþykkt var ályktun um öryggi í flugi. Anders Björck frá Svíþjóð hafði framsögu. Snerust umræðurnar mjög um hugsanlegar varnir gegn hryðjuverkum í flugvélum eða á flugvöllum. Eindregið var hvatt til þess að öll aðildarríkin staðfestu Evrópusáttmála um að hamla gegn hryðjuverkum.
    Fyrir lágu álit frá þremur nefndum um undirbúning reglna um rannsóknir á mannsfóstrum. Vísinda- og tækninefnd, laganefnd og heilbrigðis- og félagsmálanefnd unnu málamiðlunartexta þar sem reynt var að sameina virðingu fyrir manninum og vísindalega arfleifð jafnframt því að skilgreina þau verk á þessu sviði sem aldrei mætti vinna. Ákveðið var að fylgja eftir þessu vandasama verki.
    Loks var rætt um undirbúning Evrópusáttmála um sjónvarp milli landa. Vonuðust menn til að undirritun slíks sáttmála gæti orðið á 40 ára afmælisdegi ráðsins, 5. maí.

Um framtíð Evrópuráðsins.


    Menn horfa með nokkurri óvissu til þess hvernig þremur Evrópustofnunum tekst í framtíðinni að skipta með sér verkum svo að sem mest gagn megi verða að. Þær eru auk Evrópuráðsins: Fríverslunarsamtök EFTA, en sú stofnun er einnig í nokkurri óvissu um það hvaða áhrif þróun EB hefur á starfsemi EFTA og aðildarríkja þess, og Efnahagsbandalagið, sem nú heitir Evrópubandalagið, og er því oft ruglað saman við Evrópuráðið, enda hefur það tekið upp ýmis tákn Evrópuráðsins og heldur öðru hverju fundi sína í Strasborg.
    Munurinn er þó mikill á þessu tvennu:
    Í Evrópubandalaginu eru 12 ríki.
    Í Evrópuráðinu eru 23 ríki.
    Á þing Evrópubandalagsins eru menn kosnir beinum kosningum og þurfa ekki að eiga einnig sæti á eigin þjóðþingi.
    Á þing Evrópuráðsins eru þingmennirnir valdir úr hópi þingmanna í heimalandi sínu.
    Hin víðtæka efnahagssamvinna Evrópubandalagsríkjanna (EB), sem verður æ nánari og stefnir að sameiginlegum markaði 1992, teygir sig inn á æ fleiri svið þjóðlífsins í þessum löndum. Þetta leiðir á sumum sviðum til tvíverknaðar. Það væri spor aftur á bak í samstarfi lýðræðisríkja álfunnar ef
vinna Evrópuráðsins legðist af. Ýmis ríki mundu lenda utan við samstarfið. Nýstárlegust þeirra hugmynda, sem hreyft hefur verið til að forðast lélega nýtingu stofnana, ónauðsynlega spennu milli þeirra eða ný skrifstofubákn, er að í framtíðinni kynni þing Evrópuráðsins að verða eins konar „efri deild“ Evrópuþingsins, öðruvísi saman sett og öðruvísi til hennar kosið, með lítið eitt önnur verkefni.
    Í Evrópuráðinu sameinast fulltrúar ríkja EFTA og Evrópubandalagsins. Má vel hugsa sér að meiri gaum þyrfti að gefa en hingað til að því hvaða möguleika þessi staðreynd býður upp á.

Alþingi í apríl 1989.