Minning Benedikts Bogasonar
Þriðjudaginn 10. október 1989


     Aldursforseti (Stefán Valgeirsson):
    Ég býð hv. alþingismenn og starfsfólk Alþingis velkomin til starfa með þeirri ósk að það þinghald sem nú er að hefjast verði land og þjóð til heilla og að störf þess í vetur verði til þess að auka réttlæti og minnka aðstöðumun í okkar þjóðfélagi.
    Í dag minnumst við og söknum Benedikts Bogasonar, verkfræðings og alþingismanns, sem kvaddi okkur hér í vor eftir skamma setu á Alþingi, og andaðist 30. júní, hálfsextugur að aldri.
    Benedikt Bogason var fæddur 17. september 1933 að Laugardælum í Hraungerðishreppi í Árnessýslu. Foreldrar hans voru hjónin Bogi bóndi þar, síðar verkstjóri í Reykjavík, Eggertsson bónda og alþingismanns í Laugardælum Benediktssonar og Hólmfríður Guðmundsdóttir bónda á Læk í Hraungerðishreppi Snorrasonar.
    Benedikt lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1953, stundaði síðan verkfræðinám einn vetur í Háskóla Íslands, en fór síðan til náms í Finnlandi og lauk prófi í byggingarverkfræði frá Tækniháskólanum í Helsingfors árið 1961. Að námi loknu var hann framkvæmdastjóri Flóaáveitunnar og Ræktunarsambands Flóa- og Skeiðaveitna 1961--1964. Jafnframt var hann ráðgjafi Ölfusveitunnar og stundaði almenn verkfræðistörf á Selfossi. Á árinu 1964 fluttist hann til Reykjavíkur og var verkfræðingur við gatna- og holræsadeild borgarverkfræðings 1964--1971, en rak síðan eigin verkfræðistofu í Reykjavík. Árið 1980 varð hann verkfræðilegur ráðunautur Framkvæmdastofnunar ríkisins, þar til hún var lögð niður, og fulltrúi forstjóra Byggðastofnunar var hann frá 1985.
    Benedikt Bogason sinnti ýmsum félagsmálum og vann aukastörf jafnframt aðalstarfi. Hann var einn stofnenda og fyrsti formaður Félags íslenskra stúdenta í Finnlandi, og hann var formaður Sambands íslenskra stúdenta erlendis 1962--1963. Gjaldkeri í stjórn Suomi-félagsins í Reykjavík var hann 1969--1980. Hann var stundakennari við Miðskóla Selfoss, Iðnskóla Selfoss og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi á árunum 1961--1963 og kennari við Tækniskóla Íslands 1970--1973. Hann var í hreppsnefnd og byggingarnefnd Selfoss 1962--1964 og í byggingarnefnd Ríkisútvarpsins frá 1981. Formaður Framfarafélags Selás- og Árbæjarhverfis var hann frá 1983. Hann tók þátt í stofnun Borgaraflokksins vorið 1987 og var þá kosinn varaþingmaður flokksins í Reykjavík. Hann sat á Alþingi rúmar tvær vikur í nóvember og desember 1987. Við þingmennskuafsal Alberts Guðmundssonar í byrjun aprílmánaðar í vor tók Benedikt Bogason fast sæti á Alþingi.
    Benedikt Bogason hlaut góða menntun til undirbúnings störfum sínum síðar á ævinni. Verkfræðikunnáttu hans og forsjár og ráðgjafar í verklegum efnum sér víða stað, en þó mest sunnan lands. Þar neytti hann fyrst hæfileika sinna og menntunar við fjölbreytt verkefni. Síðar náði starfssvið hans vítt um landið. Á vegum Framkvæmdastofnunar

og Byggðastofnunar kom í hans hlut að hafa afskipti af athafnalífi landsmanna til sjávar og sveita. Hann leiðbeindi sveitarstjórnum, gegndi nefndastörfum og sat í stjórnum félaga af hálfu stofnananna og fékkst við torleyst mál sem komu til þeirra kasta.
    Að dómi þeirra, sem störfuðu með Benedikt Bogasyni og þekktu hann best, var hann gæddur miklum skipulagshæfileikum, var hollráður, afkastamikill og ósérhlífinn. Hann átti slíkan starfsferil að baki að binda mátti miklar vonir við störf hans á Alþingi. En þegar hingað kom voru honum búin þau örlög að sitja hér aðeins nokkrar vikur.
    Ég vil biðja þingheim að minnast Benedikts Bogasonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]
    Vegna fráfalls Benedikts Bogasonar, 16. þm. Reykv., tekur Ásgeir Hannes Eiríksson nú sæti á Alþingi.