Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Mánudaginn 16. október 1989


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir):
    Það hafa borist tvö bréf. Hið fyrra er dags. 13. okt. 1989 og er svohljóðandi:

    ,,Jón Kristjánsson, 3. þm. Austurl., hefur ritað mér á þessa leið:
    ,,Þar sem ég er á förum á þing Sameinuðu þjóðanna og get því ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að vegna setu 1. varamanns á þingi taki 2. varamaður Framsfl. í Austurlandskjördæmi, Guðrún Tryggvadóttir meinatæknir, Egilsstöðum, sæti á Alþingi í fjarveru minni.``
    Þetta er yður tilkynnt hér með, hæstv. forseti, með ósk um að fram fari í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.
Árni Gunnarsson,

forseti Nd.``


    Hið síðara bréf er dags. 13. okt. 1989 og hljóðar svo:
    ,,Margrét Frímannsdóttir, 4. þm. Suðurl., hefur ritað mér á þessa leið:
    ,,Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og get því ekki sótt þingfundi næstu þrjár vikur leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að vegna forfalla 1. varamanns taki 2. varamaður Alþb. í Suðurlandskjördæmi, Unnar Þór Böðvarsson skólastjóri, Reykholti, Biskupstungum, sæti á Alþingi í fjarveru minni.``
    Þetta er yður tilkynnt hér með, hæstv. forseti, með ósk um að fram fari í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.
Jón Helgason,

forseti Ed.``


    Með þessu bréfi fylgir skeyti Ragnars Óskarssonar, kennara í Vestmannaeyjum, 1. varaþm. Alþb. í Suðurlandskjördæmi, þar sem hann tilkynnir að hann geti ekki tekið sæti á Alþingi vegna annríkis á næstunni.
    Samkvæmt þessum bréfum og skv. 4. gr. þingskapa ber nú kjörbréfanefnd að prófa kjörbréf Guðrúnar Tryggvadóttur, meinatæknis á Egilsstöðum, 2. varamanns Framsfl. í Austurlandskjördæmi, og Unnars Þórs Böðvarssonar, skólastjóra í Biskupstungum, 2. varamanns Alþb. í Suðurlandskjördæmi. Það verður því gert hlé á fundinum í 5 mínútur á meðan kjörbréfanefnd starfar. --- [Fundarhlé.]
    Þar sem kjörbréfanefnd hefur ekki alveg lokið störfum, þá mun því máli aðeins verða frestað en tekið fyrir á meðan 2. dagskrármálið.