Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Mánudaginn 16. október 1989


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um varnir gegn mengun frá fiskeldi, en það er 3. mál þessa þings á þskj. 3. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja frumvarp til laga um varnir gegn mengun frá fiskeldi, að meðtalinni erfðamengun, og leggja það fyrir næsta reglulegt þing. Jafnframt verði mótaðar samræmdar reglur um kröfur varðandi starfsleyfi fyrir fiskeldisstöðvar og um eftirlit og rannsóknir á mengunarhættu frá þeim.``
    Tillaga sama efnis var lögð fram síðla á síðasta þingi en komst þá ekki til umræðu. Því er málið flutt hér öðru sinni.
    Sem kunnugt er hefur fiskeldi aukist mikið hérlendis að undanförnu. Því fylgir veruleg hætta á mengun í sjó og ferskvatni sem bitnað getur bæði á fiskeldinu sjálfu svo og á umhverfinu. Erfðamengun frá eldislaxi er af mörgum talin ógna tilvist villtra laxastofna og mikil þörf er á að bregðast við þeirri þróun. Hætta er á því að þörungablómi geti valdið tjóni í fiskeldi hér sem annars staðar, en næringarefnaútfall frá fiskeldi ýtir undir þann vágest. Lítið er fylgst með notkun lyfja og rotvarnarefna við fiskeldi og áhrifum þeirra á umhverfið. Eftirlit með mengun frá fiskeldisstöðvum, sem hlotið hafa starfsleyfi, er í lágmarki, en mikil vinna hefur verið lögð í afgreiðslu slíkra leyfa, m.a. á vegum Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndarráðs. Rannsóknum vegna mengunarhættu frá fiskeldi hefur hins vegar sáralítið verið sinnt vegna fjárskorts.
    Það eru þrjú ráðuneyti, heilbrrn., landbrn. og samgrn., sem lögum samkvæmt fara með málefni sem varða fiskeldi auk Náttúruverndarráðs sem heyrir undir menntmrn. og ýmissa fleiri aðila sem koma við sögu vegna starfsleyfa fyrir fiskeldisstöðvar. Með útgáfu reglugerða að undanförnu á vegum nefndra ráðuneyta hefur verið leitast við að bæta stöðuna í fiskeldismálum, einnig varðandi mengun.
    Á síðasta þingi beindi ég fyrirspurnum til ráðherra heilbrigðis-, landbúnaðar- og samgöngumála um mengun frá fiskeldi og hvernig staðið væri að eftirliti og rannsóknum. Skrifleg svör við þessum fyrirspurnum eru birt sem fylgiskjöl með þessari tillögu og þar kemur fram að sumpart vantar lagafyrirmæli um þessi efni og reglur eru gloppóttar. Stjórnkerfið hefur þannig engan veginn verið undir það búið að sinna þeim mikla og skjóta vexti sem orðið hefur í fiskeldi og það vantar mikið á að nægilegu fjármagni hafi verið varið til eftirlits og rannsókna á mengunarhættu.
    Í svörum sem fylgja tillögunni kemur þetta skýrt fram, t.d. í svari hæstv. heilbr.- og trmrh. þar sem m.a. er nefnt að það sé misbrestur á því að settur sé upp hreinsibúnaður í seiðaeldisstöðvum og það kemur glöggt fram að mikið vantar á að Hollustuvernd ríkisins og aðrir sem þyrftu að sinna eftirliti ræki það og þar er einkum fjárskorti borið við. Þar segir orðrétt, með leyfi virðulegs forseta, í svari heilbrrh.

m.a.:
    ,,Eftirlit stofnunarinnar``, þ.e. Hollustuverndar ríkisins, ,,með einstökum fiskeldisstöðvum er í lágmarki í dag.`` Og þar er rakið hvernig mengun hefur vaxið og slegið tölum á það. Þó að mengun sé ekki tilfinnanleg á heildina litið enn þá frá fiskeldisstöðvum, þá er vöxturinn mjög verulegur. Þannig liggur það fyrir að árið 1985 var næringarefnaauðgun vegna fiskeldisstöðva áætluð 6 tonn af köfnunarefni og 1,5 tonn af fosfór, en á síðasta ári er næringarefnaauðgun áætluð 165 tonn af köfnunarefni og 27 tonn af fosfór og síðan gert ráð fyrir örum vexti á yfirstandandi ári þannig að hér er um verulega aukningu að ræða.
    Ég vísa einnig til þess sem hér er sagt varðandi þörungablóma því að þó að hann hafi ekki gert vart við sig í stórfelldum mæli hérlendis eru þess samt dæmi að þörungablómi hefur valdið staðbundnu tjóni og það má alveg gera ráð fyrir því að þessi vágestur komi hér upp og geti valdið verulegu tjóni ef menn gæta ekki að sér og mengun frá fiskeldinu sjálfu, svo og auðvitað önnur mengun sama eðlis, getur ýtt mjög undir þennan vágest.
    Það er líka ljóst af svörum ráðherranna að það fara engar kerfisbundnar rannsóknir fram á áhrifum mengunar og það er auðvitað ljóst að hér eru miklir efnahagslegir hagsmunir í húfi. Þess vegna þarf Alþingi að láta þessi mál til sín taka, tryggja það að löggjöf sé þannig að það auðveldi meðferð mála, létti undir með þeim sem í þennan atvinnurekstur leita og tryggi nauðsynlegt eftirlit. Þetta er allra hagur, ekki síður þeirra sem við atvinnureksturinn starfa heldur en annarra sem kynnu að verða fyrir barðinu á mengun frá fiskeldinu.
    Erfðamengunin frá fiskeldinu hefur verið nokkuð umrædd og þar er um flókið mál og viðamikið að ræða. Því máli hefur verið sinnt nokkuð af landbrn. og fleiri aðilum, en þarna er nauðsynlegt að setja skýrar reglur og ekki síður að stunda rannsóknir með merkingum og að fylgjast með endurheimtum og hvað er á ferðinni, svo og að setja reglur varðandi innflutning. Ég vek líka athygli á
því að fisksjúkdómahættan tengist menguninni verulega þannig að mengun getur ýtt undir fisksjúkdóma og það í eldisfiski þannig að það er nauðsynlegt að rannsóknir fari einnig fram á þeim þáttum.
    Virðulegur forseti. Ég vísa til þeirra margháttuðu upplýsinga sem liggja fyrir og aflað var á síðasta þingi. Ég treysti því að á þessu máli verði tekið því að hér er brýnt mál á ferðinni. Ég vil þó engan veginn gera lítið úr því sem gert hefur verið af núv. ríkisstjórn og einstökum ráðuneytum varðandi fiskeldismálin og að taka á þeim þáttum sem tillagan fjallar um, en það er greint frá því einmitt í þessum svörum sem komu fram á síðasta þingi að það þarf að líta á þessi mál í heild sinni og það þarf ekki síst að tryggja aukið fjármagn til þeirra þátta sem hér um ræðir.
    Ég legg til að að lokinni umræðu verði þessari

tillögu vísað til hv. félmn.