Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Mánudaginn 16. október 1989


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Forseti. Ég þakka hv. flm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir það mál sem hann hefur hér flutt. Hann flytur gott mál sem vissulega er tímabært að ræða á Alþingi.
    Það er enginn vafi á því að mengun getur orðið talsverð frá fiskeldi. Við sjáum það hjá öðrum þjóðum sem lengur hafa þróað þessa atvinnugrein heldur en við. Eigi að síður þarf jafnframt að gæta þess að ganga ekki of langt í kröfum við þessa nýju grein og mín skoðun er sú að þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að vinna að einmitt þessum málum sem hér er lögð áhersla á með þessari þáltill., þá er það nú ekki brýnasta málið sem liggur fyrir í fiskeldinu í dag.
    Mér virðist að flutningur þessarar þáltill. og sú umræða sem hún kemur af stað gefi tilefni til þess að fara fáeinum orðum um stöðu þessarar greinar eins og hún er nú. En sannleikurinn er sá að fiskeldi á Íslandi býr við afar erfiða stöðu. Af hverju? munu menn spyrja. Það er auðvelt að rekja það aftur til vorsins eða sumarsins 1988 þegar seiðaútflutningur stöðvaðist frá íslenskum fiskeldisstöðvum. Það kann að vera að menn geti gagnrýnt að svo mikil framleiðsla hafi verið á seiðum í landinu þá og þar hafi ekki verið byggt á nægri forsjálni.
    Að mínu viti er nú erfitt að dæma um það. Margir höfðu þá þegar gert samninga erlendis, jafnvel undirritaða, um útflutning á þessum seiðum. Markaðurinn lokaðist snögglega og Norðmenn sjálfir sem unnu að gerð slíkra samninga fyrir Íslendinga vissu ekki hvert stefndi.
    Það er liðin tíð. En í þeirri stöðu fóru fram miklar umræður um það í íslensku þjóðfélagi hvernig bregðast skyldi við. Í landinu var mikið magn af laxaseiðum og menn urðu sammála um það, hygg ég flestir, að farga ekki þeim miklu verðmætum sem þar voru heldur reyna að ala seiðin áfram, gera úr þeim útflutningsverðmæti og stíga eitt skref fram á við, kannski með örari þróun og uppbyggingu þessarar atvinnugreinar en menn höfðu í reynd ætlað sér áður. Því var það að stjórnvöld gáfu fyrirheit um að lánaðar yrðu um 800 millj. kr. til uppbyggingar matfiskastöðvanna svo að unnt væri að ala þessi seiði áfram og gera úr þeim matfisk eða sláturfisk. Því fylgdi auðvitað það að skapa yrði þessum fyrirtækjum rekstrargrundvöll þannig að unnt yrði að ala seiðin í þetta eina og hálfa ár áfram til slátrunar. Menn lögðu því af stað vorið og sumarið 1988 með þau fyrirheit að lánað yrði til fjárfestingar til að byggja það rými sem nauðsynlegt yrði til að ala seiðin áfram og jafnframt að afurðalánakerfi yrði komið upp þannig að þessi útflutningur sem þá var áætlaður upp á 5000 millj. kr. á árinu 1990 gæti orðið að veruleika. En 5000 millj. voru hvorki meira né minna en 10% af heildarvöruútflutningi Íslendinga, lagðar á herðar nýrri grein sem var alveg í fyrstu byrjunarskrefunum og menn vita að það tekur þrjú ár frá því að hrogninu er klakið þar til hægt er að slátra fiskinum.
    Niðurstaðan varð hins vegar sú að aðeins fékkst lánað til fjárfestinga um helmingur af þessu fé. Af

hverju það er skal ég ekki segja, en þrátt fyrir að fiskeldisstöðvarnar legðu til nægilegt eigið fé, fullnægðu þeim kröfum sem gerðar voru um þriðjungs eigið fé, þá fékkst ekki þetta lánsfé. Það þýddi auðvitað að fyrirtækin voru sett í bóndabeygju vegna þess að fiskurinn vex, hann þarf ákveðið rými til þess að geta náð sláturstærðinni. Það rými tókst ekki að byggja vegna þess að fjárfestingarlán hafa ekki fengist af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér. Jafnframt því sem stjórnvöld heimiluðu þessa lántöku sem ekki var unnt að draga til að bjarga þessum verðmætum lögðu stjórnvöld sérstakan skatt á fiskeldisstöðvarnar eða erlendar lántökur sem nam um 6% og varð að greiða jafnóðum og lánin voru tekin. Hér var mikil blóðtaka þar sem vinstri höndin virtist ekki vita hvað sú hægri gerði.
    Enda þótt Alþingi ákvæði um síðustu áramót að fella þennan sérstaka fjárfestingarskatt niður af fiskeldinu tókst fjmrn. ekki fyrr en seinni part ársins að útbúa reglur um hvernig það skyldi fara fram þannig að skatturinn var greiddur áfram um það bil hálft ár þrátt fyrir að ákveðið hefði verið á þingi að fella hann niður. Alþingi ákvað að setja upp sérstakan sjóð, Tryggingasjóð fiskeldislána, til þess að auðvelda uppbyggingu afurðalánakerfisins vegna deilna eða mismunandi mats á veði í lifandi fiski. Sú saga er öll ein hörmungarsaga og afurðalánakerfið er ekki komið í gang enn þrátt fyrir að nær 10 mánuðir séu liðnir frá því að sá sjóður var stofnaður með lögum.
    En ekki bara það. Sjóðurinn hefur það eðli að hann tekur 14% ofan á þær ábyrgðir sem hann veitir, 14% gjald til sín sem ábyrgðargjald. Afurðalánakerfi fiskeldisins er því þannig að greiða þarf þessum sjóði 14%, 12% vexti og síðan þarf að tryggja fiskinn til þess að hann geti orðið veð fyrir um 6%. Þetta gerir 32% gjald ofan á þann dollara sem tekinn er að láni fyrir utan lántökugjöld, stimpilgjöld og fyrir utan það að greiddir eru mánaðarlega vextir í þessi þrjú ár sem tekur að ala fiskinn þar til hann hefur orðið að sláturvöru. Þetta gekk þó ekki upp og inn í málið var skotið Framkvæmdasjóði sem kemur þarna inn sem milliliður og tekur sérstakt gjald líka. (Forseti hringir.)
    Ég heyri á hæstv. forseta að tíma mínum er lokið og hefði ég þó þurft að segja miklu meira um þessi mál. En ég taldi nauðsynlegt, þegar hér er rætt að vísu um gott og þarft mál, um auknar kröfur til fiskeldisins vegna umhverfissjónarmiða og mengunar, að vekja athygli á því að þar eru önnur mál sem væri ástæða til að ræða hér af mikilli alvöru í þessum sal svo að greinin verði ekki beinlínis með öllu kyrkt í byrjun.