Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Mánudaginn 16. október 1989


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir undirtektir við þetta mál. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hér hljóðs öðru sinni er að drepa aðeins á það mat sem fram kom í máli hv. þm. um hvað væri brýnast hverju sinni. Ég heyrði það á máli hv. þm. að hann teldi að það væri margt brýnna hvað varðar fiskeldi í landinu heldur en að huga að umhverfisþáttum sem að því snúa, mengunarvörnum. Ég er ekki með þessum tillöguflutningi að gera lítið úr þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem fiskeldi í landinu á við að búa. Síður en svo. En ég vil vara svolítið við þessu mati sem fram kom í orðum hv. þm., að umhverfisþættir sem lúta að þessum atvinnurekstri séu ekki brýnt mál. Ég held að það sé eitt af undirstöðuatriðunum varðandi fiskeldi sem atvinnurekstur að vel sé staðið að mengunarvörnum og það ekki vegna annarra hagsmuna þó að þeir séu margir, heldur ekki síst vegna fiskeldisins sjálfs eins og rökstutt er í þessari tillögu.
    Ég held að hv. þm. hætti stundum til þess, ég ætla reyndar ekki að fara að gera þá skoðun að almannaeign hér, en það kom aðeins fram í máli hv. 10. þm. Reykv., að drepa þætti umhverfismálanna svolítið á dreif. Þess hefur gætt hér á Alþingi um langa hríð að umhverfismál eru ekki hátt skrifuð. Við sjáum það bæði þegar við lítum til þess hvernig á þeim málum er haldið í stjórnkerfinu, við sjáum það þegar litið er til fjárveitinga til þeirra mála og við sjáum það í undirtektum oft og tíðum við þau mál sem eru flutt hér þar sem menn segja: Þetta er góðra gjalda vert en þetta er nú kannski ekki það brýnasta. --- Ég bið menn um að íhuga þessi orð mín.
    Núna stendur yfir alþjóðleg ráðstefna, sem Norðurlandaráð stendur fyrir, um mengun í sjó. Ráðstefnan hófst í morgun úti í Kaupmannahöfn. Ætli sú ráðstefna sé tilkomin nema af því að safnast þegar saman kemur. Sjórinn er hættur að taka við án þess að slá til baka, þ.e. vistkerfi hans. Þess vegna er þessi ráðstefna haldin. Þess vegna eru margar aðrar ráðstefnur haldnar.
    Ég held að það hefði verið ástæða til þess áður en lagt var upp með fjárfestingar í fiskeldi í jafnríkum mæli og orðið hefur síðustu sex árin eða svo, að menn legðu sæmilega traustar undirstöður hér á Alþingi með löggjöf, með stefnumörkun um uppbyggingu þessarar greinar. Um það flutti ég ásamt þrem öðrum þingmönnum allvíðtæka till. til þál. á haustþinginu 1983. Hún varðaði bæði fjárhagslega aðstöðu fyrir þennan atvinnurekstur, en ekki síður rannsóknir og umhverfisskilyrði. Þessari tillögu var þá vísað til ríkisstjórnar en nánast ekkert með hana gert frekar og síðan hafa menn verið að fjárfesta í fiskeldi án þess að skorið væri úr um undirstöðuþætti, m.a. undir hvaða ráðuneyti stjórnsýslunnar þessi málaflokkur ætti að heyra í heild sinni. Menn hafa togast á um það, meira að segja flokksbræður í ráðherrastólum togast á um það árum saman undir hvaða ráðuneyti fiskeldið ætti að heyra með

tilheyrandi drætti á ákvörðunum sem fylgir slíkri togstreitu.
    Það er ástæða til þess einmitt þegar lagt er upp með stórmál eins og fiskeldið er, sem við bindum öll vonir við að geti orðið gildur þáttur í íslenskum þjóðarbúskap, gildari en það er orðið í dag, það er ástæða til þess fyrir Alþingi að gæta þess að á þinginu hvílir sú skylda að skapa almenn skilyrði fyrir slíkan rekstur og það helst áður en farið er út í víðtækar fjárfestingar sem af ýmsum ástæðum hafa ekki skilað því enn sem komið er sem vænst var af greininni. Og því eiga margir í erfiðleikum sem eru að fást við fiskeldi víða um land og bíða víða eftir svörum frá stjórnvöldum um marga þætti mála.